A A A
  • 1960 - Brynjar Gunnarsson
  • 1960 - Kristín Þórun Helgadóttir
  • 2005 - Hrólfur Helgi Dýri Sigurðsson
  • 2006 - Andrea Líf Helgadóttir
09.12.2019 - 14:45 | Vestfirska forlagið

Ný bók af léttara taginu frá forlaginu við yzta haf

Gaman að vestan - Auðkúluhreppur
Gaman að vestan - Auðkúluhreppur

Vestfirska forlagið hefur nú gefið út bókina Gamanmál að vestan, Auðkúluhreppur. Er það stefnubreyting í gamanmálum hjá forlaginu að raða þeim niður eftir hreppum. Auðvitað er byrjað í Auðkúluhreppi, en hann er víst að verða einn aðal hreppurinn hér vestra segja gárungarnir. Þetta eru gamansögur, langar og stuttar, sem flestar hafa birst einhverntíma áður í bókum forlagsins eða fjölmiðlum. Sumar þeirra mjög snjallar. Aðrar svona la-la eins og unga fólkið segir. En þar verður hver að dæma fyrir sig. Hreppsnefnd Auðkúluhrepps og Búnaðarfélag Auðkúluhrepps koma hér mikið við sögu.

   Að fara með gamanmál öðru hvoru finnst mörgum, bæði lífs og liðnum, bráðnauðsynlegt. Eftirfarandi sögn úr bókinni getur verið til vitnis um það.


Fljót í manninn fersk ýsan


Það var fyrir um 60 árum að heimasæta nokkur í Auðkúluhreppi, komin á giftingaraldur, dugleg og ákveðin, fór vistum til bónda eins í Dýrafirði. Kunni hún vel við sig hjá honum, enda fór hann fljótlega að gera hosur sínar grænar fyrir hinni arnfirsku mey. Dvaldist henni lengur hjá bóndanum en foreldrar hennar höfðu gert ráð fyrir og söknuðu hennar frá búskapnum, því hún var heldur áhugasamari við bústörfin á bænum en systkini hennar, sem voru enn í heimahúsum.

   Seint og um síðir hringir svo heimasætan í móður sína, auðvitað í sveitasímann á þeim tíma. Nokkrir áheyrendur voru því að samtalinu. Tjáði hún henni að sér líkaði mjög vel vistin hjá bóndanum. Hann væri almennilegur við sig á allan hátt. Móðirin spurði þá hvort hún færi ekki að koma heim að hjálpa pabba sínum við sauðburðinn. Taldi sú stutta öll tormerki á því.

    Fljót í manninn fersk ýsan, svaraði þá mamman.

   Já, mamma mín. En það dugir ekki annað en hamra járnið meðan það er heitt, svaraði stúlkan, sem seinna giftist umræddum bónda.

(Sögn hlustanda í sveitasímanum).





« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30