A A A
  • 1965 - Björnfríður Fanney Þórðardóttir
  • 1966 - Jónína Kristín Sigurðardóttir
  • 2001 - Jóhanna Gabriela Lecka
11.04.2017 - 06:56 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar - Lokagrein

Hemmi Gunn. Ljósm.: H. S.
Hemmi Gunn. Ljósm.: H. S.

Rætt við Hemma Gunn og gengið með honum um gamlar slóðir. Hlutverkum snúið!

 

Úr minnispunktum.

 

Hemmi byrjaði fyrst að vinna fyrir sér með söng!

 

Eitt sinn sagði húsfreyja nokkur að í íslenskum sveitum væri stærsta barnaheimili í heimi. Síðan þessi orð féllu er all nokkurt vatn til sjávar runnið. Nú heyrir það til undantekninga að börn og unglingar séu send í sveit á Íslandi. Varla var gefin út sú ævisaga á 20. öldinni að þar kæmi ekki fram þakklátssemi þeirra sem fengu að dveljast á góðu sveitaheimili á sumrum. Hitt var auðvitað einnig til að mönnum  líkaði ekki sveitadvölin, en það heyrði bara til undantekninga.

   Einn þeirra sem telur sig hafa orðið mikillar gæfu aðnjótandi af því að kynnast sveitinni, er æringinn, fjölmiðla-íþrótta- og alvörumaðurinn Hemmi Gunn, sem er Vestfirðingur í bak og fyrir. Við tókum hann tali um þessa reynslu hans og fleira.

 

    Hemmi er rækilega ættaður að vestan, reyndar geirnegldur Dýrfirðingur, báðir afar hans slitu þar barnsskónum, annar í Fremstu húsum í Hjarðardal og hinn í Höfn, næsta bæ við Svalvoga. Strákurinn lenti svo fyrir hreina tilviljun í sveit hjá þeim merkishjónum Unni og Valda að Húsatúni í Haukadal, spriklaði þar og sprellaði á slóðum Gísla Súrssonar. Þetta voru honum ógleymanleg ár og alla tíð síðan hefur hugur hans leitað þangað í ótrúlega náttúrufegurð, til traustra vina og félaga. Á hans tímum í Haukadal var mikil barnamergð á flestum bæjum og bæjarbörnin sem dvöldu þarna sumarlangt fengu útrás fyrir leikgleði sína og prakkarastrik í sannkallaðri sveitasælu. Íþróttir voru í hávegum hafðar og nánast var ungmennafélagið Gísli Súrsson endurvakið af löngum dvala og svo mikill var krafturinn í krökkunum, að Höfrungurinn vaknaði vart til lífsins á Þingeyri. Þessir leikir dugðu krökkunum ekki, metnaðurinn var meiri, svo skorað var á börn og unglinga frá Sveinseyri, úr Keldudal og Svalvogum til svonefndra landsleikja í fótbolta. Haukdælingar voru líklega svo hrokafullir, að þeir kepptu gegn úrvalsliði frá áðurnefndum þremur stöðum. Gekk svo hópurinn, já reyndar stóðu sumir vart út úr hnefa, hnarreistur fótgangandi út í Svalvoga og þar fór fyrsti landsleikurinn fram. Eftir hörkukeppni gekk sigurliðið vígreift í húmi nætur um torsótta fjallatroðninga til baka. Já, mikið var á sig lagt.

   Á þessum tíma var búskapur víða fyrir vestan býsna gamaldags, ekkert rafmagn og lítið var um rennandi vatn. Strákar þurftu að dæla vatni inn í bæina úr brunnum og þá byrjaði Hemmi fyrst að vinna fyrir sér. Hann plataði aðra stráka á Húsatúni til að dæla fyrir sig, en söng fyrir þá í staðinn!! Þeir hafa líklega aldrei beðið þess bætur. Meðal íþróttakappa í Haukadal voru strákar eins og bræðurnir Stjáni hörkutól og Siggi Þói úr Miðbæ, síðar hreppstjóri, harðsnúinn í hvaða íþróttagrein sem var og hefði náð langt, hefði hann hleypt heimdraganum og farið á mölina. Svo voru þarna snjallir guttar, eins og Hafsteinn Aðalsteinsson, sem varði markið af áfergju, henti sér jafnvel út að hornstöngum, ef svo bar undir. Jóhann Hafstein, bróðir Péturs sýslumanns, ráfaði um í vörninni og tafði sóknaraðgerðir með furðulegum aðferðum. Já, þá var fjör í dalnum.



« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30