Njörður Marel Jónsson - Fæddur 1. maí 1942 - Dáinn 19. júní 2017 - Minning
Njörður var sonur hjónanna Sigríðar Óskar Einarsdóttur, f. 3. júlí 1914, d. 24. mars 1988, og Jóns Harrýs Bjarnasonar, f. 16. apríl 1914, d. 6. júlí 1980. Systkini Njarðar eru: Einar Sigurbjartur, f. 1934, d. 2008, Amalía Jóna, f. 1935, Óskar Harrý, f. 1939 og Dagmar, f. 1950.
Eftirlifandi eiginkona Njarðar er Dýrfirðingurinn Guðrún Lára Ágústsdóttir, f. 10. júlí 1946. Lára er dóttir hjónanna Kristjáns Ágústs Lárussonar, f. 3. janúar 1910, d. 1. júní 2009, og Ingunnar Jónsdóttur, f. 9. maí 1916, d. 12. júlí 2016.
Synir Njarðar og Láru eru:
1) Jón Harrý, f. 1967, unnusta hans er Harpa Viðarsdóttir, f. 1965. Jón á dæturnar Evu Ósk, f. 1996, og Elínu Helgu, f. 1998 með fyrrverandi eiginkonu sinni Írisi Ingu Svavarsdóttur, f. 1966. Sonur Írisar er Birgir Páll Marteinsson, f. 1982.
2) Kristján Ágúst, f. 1968.
3) Svavar, f. 1971. Eiginkona hans er Elfa Björk Magnúsdóttir, f. 1972, börn þeirra eru: Óðinn, f. 1997, Sölvi, f. 2001 og Ástdís Lára, f. 2005.
4) Sigurjón, f. 1979. Sambýliskona hans er Guðmunda Þóra Björg Ólafsdóttir, f. 1985, dætur þeirra eru: Lára Sif, f. 2012 og Edda Sjöfn, f. 2015.
Fyrir átti Njörður, ásamt Þorbjörgu Henný Eiríksdóttur, f. 1942, Lindu Margréti, f. 1962. Fyrri eiginmaður Lindu er Ægir Pálsson, f. 1959. Börn þeirra eru Henný, f. 1986 og Grétar, f. 1992, í sambúð með Sonju Karlsdóttur, f. 1993. Eiginmaður Lindu er Jón Kjartan Bragason, f. 1969 og sonur þeirra er Steinar Bragi, f. 2003.
Að grunnskólagöngu lokinni var Njörður í Íþróttaskólanum í Haukadal einn vetur áður en hann hóf búfræðinám í Hólaskóla, þaðan sem hann útskrifaðist sem búfræðingur 1963. Að námi loknu vann Njörður ýmis verkamannastörf í Reykjavík.
Njörður og Lára hófu búskap sinn með ársdvöl að Minni-Borg í Grímsnesi 1966. Þaðan lá leið þeirra að Kjartansstöðum í Hraungerðishreppi þar sem þau voru frá 1967 til 1978.
Þeim bauðst svo árið 1978 að hefja búskap í Brattholti, þar voru þau með blandaðan búskap og síðar ferðaþjónustu. Jón Harrý, sonur þeirra, gerðist svo aðili að búskapnum 1990 og var Brattholt frá því rekið sem félagsbú. Atvinnubúskap í Brattholti var lokið árið 2000 þegar þar reis hótel sem þau hjón ráku ásamt Jóni syni sínum og Írisi þáverandi konu hans.
Njörður vann frumkvöðlastarf við að koma að skipulagi þjónustusvæðis við Gullfoss í Hvítá, en þar kom hann að stofnun veitingastaðarins Gullfosskaffi ásamt Svavari syni sínum sem á og rekur hann ásamt eiginkonu sinni, Elfu Björk, í dag. Jafnframt var Njörður um árabil umsjónarmaður svæðisins við Gullfoss. Njörður var ötull hestamaður og verðlaunaður hrossaræktandi.
Útför Njarðar fer fram frá Skálholtskirkju í Bláskógabyggð í dag, 1. júlí 2017, klukkan 11.
________________________________________________________________________
Minningarorð - Sigurjón Njarðarson.
Í dag kveð ég pabba minn, Njörð Marel Jónsson.
Pabbi minn er merkilegasti maður sem ég hef kynnst. Hann fór sínar eigin leiðir í lífinu og lifði því á sínum forsendum.
Fyrir um 50 árum hófu hann og mamma mín, Lára, búskap með tvær hendur tómar og síðan hafa þau unnið fyrir öllu sínu.
Það er margt sem ég lærði af pabba, hann var sípælandi, alltaf með eitthvað plan í gangi og hikaði ekki við að vaða í hlutina jafnvel þótt þeir væru ekki alltaf hugsaðir alla leið.
Pabbi minn var líka besti pabbi sem ég get hugsað mér, það var alveg sama hversu illa ég var búinn að mála mig út í horn, alltaf var pabbi mættur fyrstur á staðinn, boðinn og búinn til að aðstoða mig með hvað sem var.
Tveimur dögum áður en hann lést útskrifaðist ég sem lögfræðingur, það er fyrst og fremst vegna aðstoðar hans og mömmu sem það var gerlegt fyrir mig að ná þeim áfanga.
Pabbi var þó ekki bara besti pabbi sem ég get hugsað mér, hann var líka meiri háttar afi, stelpurnar mínar tvær voru mjög hændar að honum, hann lét allt undan þeim. Það hryggir mig mikið að þær muni ekki fá að kynnast honum betur, heyra sögurnar hans og þiggja fleiri tröllaskammta af kóki og nammi.
„Guð geymi þig, þótt þú trúir ekki á hann“ var það síðasta sem pabbi sagði við mig. Hugmyndir okkar pabba um guðdóminn voru misjafnar og við körpuðum oft um hann, honum tókst alltaf ergja mig og hafði beinlínis gaman af því. Það verður núna einhver bið á því að við körpum aftur, svona er það stundum.
Ég veit að ég get einn daginn gengið að honum vísum í útreiðartúr í högunum heima. Fram að því verð ég að vona að Guð geymi mig eins og pabbi bað fyrir.
Guð má hafa sig allan við ef hann ætlar að vera hálfdrættingur á við pabba í að passa upp á strákana sína. Takk fyrir allt pabbi.
Við sjáumst þegar við sjáumst. Guð geymi þig og varðveiti, þangað til...