A A A
  • 1956 - Jan L Hatten-Svenna
  • 1970 - Guđrún Rakel Brynjólfsdóttir
  • 1988 - Pétur Eggert Torfason
25.01.2017 - 21:15 | Vestfirska forlagiđ,ruv.is,Björn Ingi Bjarnason

Nćm og falleg sýning um Gísla

Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.
Elfar Logi Hannesson sem Gísli á Uppsölum.
Gagnrýnandi Víðsjár sagði einleikinn um Gísla á Uppsölum bæði næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum. Hún segir að viðfangsefninu sé sýnd virðing og Gísli fái að ferðast um landið eins og hann hefði sjálfur viljað
 

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

 

Ég var 15 ára þegar ég sá Stikluþátt Ómars Ragnarssonar um Gísla í Uppsölum. Þátturinn var þá orðinn meira en tuttugu ára gamall en hann hafði mikil áhrif á mig, sem og líklega alla aðra Íslendinga sem hafa séð þáttinn. Þarna birtist gátt í gamla tíma og þar með inn í annan menningarheim. Þessi þáttur kynnti þjóðina fyrir Gísla en hann hafði aðeins verið þekktur af sveitungum sínum fyrir það.

Kómedíuleikhúsið hefur undanfarna mánuði ferðast um landið með verk eftir Þröst Leó Gunnarsson og Elfar Loga Hannesson um frægasta einbúa Íslands. Hér er á ferð einleikur, en Elfar Logi bregður ser í hlutverk Gísla. Nú er sýningin komin til borgarinnar og er sýnd í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu.

Elfar Logi er einstaklega sannfærandi í hlutverki Gísla og málar upp mynd af manninum af virðingu. Í upphafi gengur hann inn á sviðið, greinilega kominn á efri ár, stamar út orðunum og allar hreyfingar hægar og þungar. Dagur Gísla er brotinn upp af kaffibollunum þremur sem hann fær sér yfir daginn og þess á milli sinnir hann bústörfum. Gísli segir frá lífi sínu, atburðum sem mótuðu hann og áttu eftir að hafa áhrif á líf hans. Elfar Logi hefur með sér lúna ferðatösku inn á sviðið þar sem hann dregur upp höfuðföt sem færa hann til baka í fortíðina.

Þetta er tregafull saga sem Gísli segir af sjálfum sér - þrjú augnablik sem verða valdur af því að hann endar á einn á Uppsölum, einelti í æsku, höfnun frá ungri konu og síðan  bón aldraðrar móður hans - en hún er alltumlykjandi og ást hans til hennar nær yfir gröf og dauða.

Leikmyndin líkir eftir fábrotnu heimili Gísla, þar sem allir hlutir eiga sér stað, og er gripið í þá undan borðum og stólum. Lýsingin ýkir einnig þessa stemningu, sem virkar eins og hún komi aðeins frá einum litlum olíulampa. Þannig eru áhorfendum boðið inn á heimili Gísla. Það eina sem hægt er að setja út á er að stundum stóð Elfar Logi aðeins of framarlega á sviðinu og þá var erfitt að sjá hann. Leikarinn hefur unnið mikið í smáatriðum sem einkenndu fas Gísla og því var leiðinlegt þegar hann hvarf sjónum manns í ákveðnum senum.

Elfar Logi og Þröstur Leó skapa aðra manneskju, aðra frásögn en við sjáum í Stikluþætti Ómars Ragnarssonar. Eftirsjáin er áberandi í verkinu en þó aldrei þannig að áhorfendum sé leyft að vorkenna honum, heldur er virðingin fyrir manninum í fyrirrúmi.

Á einum tímapunkti glymur rödd Ómars í hátölurunum og Gísli reynir að fara eftir leiðbeiningum Ómars, reynir að svara spurningum hans sem að móta ákveðna frásögn. Þannig er dregið fram hvernig sögð er önnur saga á sviðinu en í þætti Ómars. Gísli fær tækifæri til þess að móta sitt eigið líf í frásögn.

Að sýningu lokinni bauð Elfar Logi upp á spjall og spurningar, ef einhverjar væru úr áhorfendasalnum. Elfar lýsti því hvernig ferlið hefði verið við gerð verksins hjá þeim Þresti. Notuðu þeir kafla úr viðtalsbók Ólafs Gíslasonar við Gísla en Elfar tjáði áhorfendum að sögurnar væru langflestar þaðan.

Hlutskipti mannsins eru þannig ekki bara túlkun listamannanna á lífi Gísla, heldur er gefin innsýn í hvernig hann tjáði sig um líf sitt.

Þetta spjall að lokinni sýningu var mjög mikilvægur partur af sýningunni sjálfri - og líklegt er að ef þeim kafla hefði verið sleppt hefði margt farið forgörðum úr sögu Gísla. Elfar er ekki síðri sögumaður en leikari og það var ánægjulegt að hlusta á hann segja frá sínum minningum af Gísla og þróuninni við gerð sýningarinnar.

Einleikurinn um Gísla á Uppsölum er næmt og fallegt verk sem snertir við áhorfendum.  Viðfangsefninu er sýnd virðing og verður til þess að Gísli fær að að ferðast um landið eins og hann hafði sjálfur viljað.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar.

« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30