A A A
  • 1911 - fæddist Matthías Guðmundsson
29.06.2010 - 19:50 | bb.is

Myndlist í bland við gamla muni

Guðbjörg Lind við opnun sýninginnar.
Guðbjörg Lind við opnun sýninginnar.
Sýningin Þögul mynd af húsi var opnuð á sunnudag í Vertshúsinu við Fjarðargötu á Þingeyri. Ísfirski myndlistamaðurinn Guðbjörg Lind Jónsdóttir kom þar upp nokkurs konar minningasafni í einu elsta húsi Þingeyrar. „Ég og maðurinn minn vorum á ferðalagi um árið og gistum í þessu húsi, en þá átti kvenfélagið það. Um haustið var húsið auglýst til sölu og við vorum ansi áhugasöm um húsið og söguna og ákváðum að kaupa það. Síðan þá höfum við verið að gera það upp smátt og smátt, eða eina hlið á ári. Meiningin var alltaf að gera eitthvað menningarlegt í þessu húsi og maður hugsaði með sér að það yrði gaman þegar maður væri búinn að gera það upp. Fljótlega kom þó ljós að það yrði eilífðarverk þannig að það var eins gott að gera eitthvað strax," segir Guðbjörg Lind og hlær.

„Við vildum endilega deila húsinu og sögu þess með öðrum því þó að við eigum það á pappírnum á fólkið hér hlut í því. Hugmyndin að þessari sýningu kviknaði er ég las grein eftir Valdimar Gíslason sagnfræðing á Mýrum í Dýrafirði sem birtist í riti Sögufélagi Ísfirðinga um ameríska lúðuveiðimenn við Dýrafjörð, en þeir voru hér með bækistöðvar frá árinu 1886 til 1897. Þá var þetta vertshús þar sem þeir komu og drukku öl og ýmsar sögur sem spunnust út frá því. Þetta var mjög skemmtileg og læsileg grein sem vakti áhuga minn en ég er að útfæra þetta myndrænt."

Húsið sem byggt var árið 1881 hefur einnig gengið undir nafninu Hótel Niagara og á sér mikla sögu. Sýningin er eins konar menningarlegur fornleifagröftur þar sem gamlir munir er fundist hafa við endurbætur á húsinu eru settir í nýtt myndrænt samhengi. Til þess að skapa sýningunni sögulega umgjörð prýða veggi Vertshúss gamlar ljósmyndir frá Þingeyri. Einnig eru til sýnis málverk og teikningar Guðbjargar, sem eru afrakstur dvalar í húsinu. Þar gætir bæði áhrifa frá Vertshúsi og umhverfi þess. „Ég blanda saman minni myndlist og hlutum sem fundist hafa við endurbætur á húsinu en það eru ótrúlegustu munir, til að mynda gamlar flöskur og skór."

Guðbjörg segir að sýningin hafi fengið góðar viðtökur. „Þó svo að þetta sé ekki dæmigerð byggðasafnssýning, þá kemur hún inn á sögu staðarins og þarna sjást myndir sem ekki hefur borið mikið á áður."

Sýningin stendur til 11. júlí. Hún verður opin frá kl. 14 til 18 alla daga nema mánudaga.
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30