"Mig langar ekkert til að eignast allan heiminn“ - Svo sagði Louis Armstrong, Satchmo, í viðtali við Matthías Johannessen
“Suma vantar alltaf allt, en aðra skortir aldrei neitt, en samt eru þeir jafnilla staddir. Það er eins og sumir menn séu jafnfátækir hvað mikla peninga sem þeir eiga.”
Svo sagði Steinn Steinarr í viðtali við Matthías Johannessen í M Samtöl V, en í því verki má segja að sé nokkurs konar Íslandssaga í hnotskurn á 19. og 20. öld. Hér hittir skáldið naglann á höfuðið sem oftar og er mikið íhugunarefni fyrir þjóð sem veit ekki sitt rjúkandi ráð, en vantar alltaf allt sama hvað hún eignast mikið. Í umræddu verki Matthíasar, sem allir ættu að lesa, er samankomin í fimm bókum þjóðarsálin sjálf. Þar ræðir hann við fólk sem kynntist baráttunni við allsleysið vel. Í umræddum bókum eru ekki bara samtöl Matthíasar við Íslendinga. Þar eru einnig mörg samtöl við heimsfræga menn. Til dæmis átti hann viðtal við Louis Armstrong 1965.
Grípum aðeins niður í það:
„Það er margt fólk, sem gerir allt mögulegt til að komast áfram, það væri jafnvel reiðubúið til að hálsbrjóta náungann til að ná einhverju marki. Ég hef aldrei átt í neinum slíkum útistöðum. Ég er mjög venjulegur maður, ég borga reikningana mína, lifi fábreyttu lífi, hvíli mig þegar ég get. Ég á lítið hús – það nægir mér. Mig langar ekkert til að eignast allan heiminn. Og svo er eitt sem fólk hugsar of lítið um, heilsuna sína.
Sumir eignast peninga og verða ríkir, en missa heilsuna. Til hvers er það? Það eru litlir hlutir, sem ráða úrslitum í lífinu, við eigum að rækta þá, gæta okkar. Ég er ánægður með það sem ég hef, raka mig rólega, borða hægt, slappa af, og þegar komið er til mín og sagt: Jæja, nú á konsertinn að byrja, þá stend ég upp kvíðalaus, tek trompettið mitt… og engum líður betur en Satchmo. Þá er ég fullkomlega rólegur og í essinu mínu.“