A A A
  • 1962 - Sigþór Valdimar Elíasson
  • 1993 - Magnús Ellert Steinþórsson
  • 2003 - Hanna Gerður Jónsdóttir
16.11.2015 - 07:25 | BIB,Morgunblaðið

Merkir Íslendingar - Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.
Jónas Hallgrímsson.
« 1 af 2 »
Jónas Hallgrímsson fæddist á Hrauni í Öxnadal 16. nóvember 1807. Foreldrar hans voru séra Hallgrímur Þorsteinsson, astoðarprestur séra Jóns Þorlákssonar, skálds á Bægisá, og Rannveig Jónsdóttir af Hvassafellsætt. Er Jónas var á níunda árinu drukknaði faðir hans í Hraunsvatni.

Jónas hóf nám við Bessastaðaskóla 1823, lauk stúdentsprófum 1829 og sigldi síðan til Kaupmannahafnar 1832 og hugðist stunda laganám en söðlaði fljótlega um, hóf nám í náttúrufræði við Hafnarháskóla.

Árið 1835 stofnuðu Jónas og félagar hans, þeir Brynjólfur Pétursson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson, ársritið Fjölni. Fjölnir setti sér það markmið að vekja þjóðina af pólitískum dvala, blása í þjóðfrelsisglóðina og upplýsa hana um það besta í skáldskap og vísindum álfunnar. Jónas varð fljótlega helsta skáld íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn og í meira en hundrað ár hefur hann almennt verið talinn ástsælasta skáld þjóðarinnar. Dagur íslenskrar tungu er haldinn á fæðingardegi Jónasar til minningar um framlag hans til íslenskunnar. Hann bjó til ýmis nýyrði, m.a. aðdráttarafl, fjaðurmagnaður, hitabelti, ljósvaki, sjónarhorn, sólmyrkvi og sporbaugur.

Jónas lauk prófum í náttúrufræði (steinafræði og jarðfræði) við Kaupmannahafnarháskóla 1838. Hann fékk styrk úr ríkissjóði til rannsókna á náttúrufari Íslands, vann að því verki árin 1839-1842 og fór í rannsóknaferðir um landið. Jónas lenti í hrakningum í aftakaveðri síðsumars 1839 og hafði þá næstum orðið úti, fékk slæma brjósthimnubólgu og náði sér aldrei eftir það. Hann lá rúmfastur í Reykjavík nánast allan næsta vetur. Hann hélt til Kaupmannahafnar 1842 og var búsettur í Danmörku þrjú síðustu æviárin.

Jónas var á leiðinni heim til sín, seint um kvöld, 20. maí 1845, er hann datt í stiganum og fékk slæmt opið fótbrot fyrir ofan ökkla og var fluttur á Friðriksspítala daginn eftir.

Jónas lést 26. maí 1845.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 16. nóvember 2015.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30