Merkir Íslendingar - Jóhannes Ólafsson
Eiginkona Jóhannesar var Helga Samsonardóttir, f. 18.11. 1856, d. 13.5. 1949, húsfreyja. Foreldrar hennar voru Samson Samsonarson, trésmiður og hreppstjóri á Brekku í Dýrafirði, og k.h. Ósk Gunnarsdóttir. Börn Jóhannesar og Helgu: Sigurður, Gunnar Andrew, Fríða, Leifur, Óskar og Ingibjörg Ólöf, sem lést ung. Gunnar var kennari á Ísafirði en hin systkinin bjuggu á Þingeyri.
Jóhannes nam trésmíði 1880-1882, var trésmiður á Ísafirði 1882-1883, í Haukadal í Dýrafirði 1883-1887 og á Þingeyri frá 1887 til æviloka. Hann var einnig póstafgreiðslumaður á Þingeyri frá 1898 til æviloka og gjaldkeri sparisjóðsins á Þingeyri frá stofnun hans 1896 til æviloka.
Hreppstjóri var Jóhannes frá 1889 til dauðadags og oddviti 1896-1928. Hann var upphafsmaður að því að stofnaður var barnaskóli á Þingeyri og sat hann í skólanefnd og var formaður hennar 1908-1923. Þá var hann bókavörður bókasafnsins á Þingeyri til 1926 þegar það var flutt að Héraðsskólanum á Núpi. Hann hafði fjölmörg mál á sinni hendi í hreppnum og var umboðsmaður breskra togarafélaga sem leita þurftu til Þingeyrar. Jóhannes talaði enda ensku og einnig dönsku.
Jóhannes var alþingismaður Vestur-Ísfirðinga 1903-1908, sá fyrsti fyrir V-Ísafjarðarsýslu því áður voru báðar Ísafjarðarsýslur eitt kjördæmi, og sat hann fyrir Heimastjórnarflokkinn.
Þegar Jóhannes var á Ísafirði lærði hann á harmonium og hélt uppi söng og söngkennslu þegar hann flutti til Þingeyrar. Kona hans var einnig söngelsk og var oft leikið og sungið á heimili þeirra.
Jóhannes Ólafsson lést 14. júní 1935.
Morgunblaðið.