A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
11.03.2017 - 08:11 | Björn Ingi Bjarnason,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Merkir Íslendingar - Ísólfur Pálsson

Ísólfur Pálsson (1871 - 1941).
Ísólfur Pálsson (1871 - 1941).

Ísólfur Pálsson fæddist á Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi 11. mars 1871.

Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. 1832, drukknaði 1887, bóndi og hreppstjóri á Syðra-Seli, og k.h. Margrét Gísladóttir, f. 1830, d. 1914, húsfreyja, en þau voru bæði komin af Bergsætt.

 

Foreldrar Páls voru hjónin Ólöf Magnúsdóttir og Jón Sturlaugsson, bóndi á Syðsta-Kekki í Stokkseyrarhr..Faðir Jóns var Sturlaugur Jónsson bóndi og forsöngvari í Grjótlæk, sonur Jóns Bergssonar b. í Grjótlæk. Annar sonur Jóns Bergssonar var Grímur, langafi Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Jón var sonur Bergs Sturlaugssonar sem Bergsætt er komin af en Bergur var fyrsti nafnkenndi forsöngvari Stokkseyrarkirkju.

 

Foreldrar Margrétar voru hjónin Sesselja Grímsdóttir og Gísli Þorgilsson, bóndi og formaður á Kaðlastöðum í Stokkseyrarhr., einnig nefndir Kalastaðir. Gísli var lengi forsöngvari á Stokkseyri.

 

Meðal systkina Ísólfs var Bjarni, organisti í Götu, faðir Friðriks tónskálds.

 

Ísólfur kvæntist Þuríði Bjarnadóttur, f. 4.7. 1872, d. 22.3. 1957. Þau eignuðust tólf börn, þar á meðal Pál, tónskáld og organista, Sigurð úrsmið og organista, og Pálmar hljóðfærasmið.

 

Ísólfur og Þuríður bjuggu í 20 ár á Stokkseyri og síðan í Reykjavík. Stundaði Ísólfur fyrst formennsku og var hann organisti við Stokkseyrarkirkju og stjórnaði kór og söngkvartett. Var orgelleikur hans annálaður, en hann virðist hafa verið sjálfmenntaður að flestu leyti.

 

Ísólfur fékkst nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og svo fór að hann fór utan 1912 og lærði hljóðfærasmíði og -stillingar í Danmörku og Þýskalandi, og starfaði við það eftir að heim kom. Hann gerði m.a. upp orgelin í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni og smíðaði orgel fyrir kapellu Háskóla Íslands.

 

Ísólfur samdi fjölda sönglaga og er þekktast þeirra Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins).

 

Ísólfur Pálsson lést 17. febrúar 1941.


Morgunblaðið 11. mars 2017.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31