A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
16.02.2015 - 06:22 | Morgunblaðið,BIB

Merkir Íslendingar - Eiríkur Þorsteinsson

Eiríkur Þorsteinsson.
Eiríkur Þorsteinsson.
Eiríkur Þorsteinsson, kaupfélagsstjóri og þingmaður, fæddist í Grófarseli í Jökulsárhlíð 16. febrúar 1905. Foreldrar hans voru Þorsteinn bóndi þar, síðar ökumaður á Seyðisfirði Ólafssonar bónda í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá Jónssonar, og k.h., Jónínu saumakonu Arngrímsdóttur bónda á Vífilsstöðum í Hróarstungu Eiríkssonar.

Eiríkur stundaði nám einn vetur í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, innritaðist síðan í eldri deild Samvinnuskólans haustið 1927 og lauk samvinnuskólaprófi vorið 1928. Starfsmaður Kaupfélags Langnesinga á Þórshöfn var hann á árunum 1928-1931 og 1931-1932 veitti hann forstöðu Kaupfélagi Grímsnesinga.

Eiríkur varð kaupfélagsstjóri Kaupfélags Dýrfirðinga á Þingeyri 1932-1960 og jafnframt framkvæmdastjóri útgerðarfélaga þar. Kaupfélagið hafði átt í fjárhagserfiðleikum um árabil, en Eiríkur stjórnaði því með gætni og tókst að sneiða hjá stóráföllum og þegar batnaði í ári jukust umsvif kaupfélagsins. Vestra var hann um skeið formaður skólanefndar Núpsskóla og átti sæti í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps, var oddviti 1946-1950.

Eiríkur varð alþingismaður Vestur-Ísfirðinga fyrir Framsóknarflokkinn 1952-1959. Hann beitti sér mikið fyrir hagsmunum síns kjördæmis og tókst m.a. að koma á betri samgöngum þar. Árið 1960 fluttist Eiríkur til Reykjavíkur og var starfsmaður Sambands íslenskra samvinnufélaga til 1972.

Kona Eiríks var Anna Guðmundsdóttir, f. 23.4. 1914, d. 24.12. 1999, húsmóðir. Foreldrar hennar voru Guðmundur Vilhjálmsson, bóndi og búfræðingur á Syðra-Lóni á Langanesi, kaupfélagsstjóri og oddviti, og k.h. Herborg Friðriksdóttir. Börn Eiríks og Önnu: Jónína Herborg, Kári, Hulda, Eiríkur, Guðmundur, Katrín, Þórey og Jón.


„Eiríkur var aðsópsmikill atorkumaður, hvar sem hann lagði hönd að verki,“ segir í minningarræðu á Alþingi.

Eiríkur lést 8. maí 1976.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 16. febrúar 2015 - Merkir Íslendingar - Eiríkur Þorsteinsson

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31