A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
26.10.2011 - 15:50 | bb.is

María Júlía flutt til Ísafjarðar?

María Júlía. Mynd: bb.is
María Júlía. Mynd: bb.is
Til stendur að færa björgunarskipið Maríu Júlíu úr Þingeyrarhöfn að Sundahöfn á Ísafirði. Mikillar óánægju hefur gætt meðal sjómanna á Þingeyri með legu skipsins í Þingeyrarhöfn. María Júlía er í eigu Byggðasafns Vestfjarða og Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn á Patreksfirði. Skipið var lengi helsta björgunarskip Vestfirðinga, en var einnig notað í landhelgisstríðinu árið 1958. Unnið hefur verið að enduruppbyggingu skipsins, en verkið hefur tafist vegna fjárskorts. „María Júlía var flutt á Þingeyri á sínum tíma því þar voru skipasmíðamenn sem voru að vinna ákveðið verk í henni. Þeim hluta er nú lokið í bili," segir Guðmundur Magnús Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Að sögn Guðmundar hefur hafnarstjórn borist kvartanir frá sjómönnum á Þingeyri vegna Maríu Júlíu, en sjómenn telja að skipið sé fyrir annarri starfsemi. „Þetta er alltaf vandamál með báta sem ekki eru í rekstri, þeir taka pláss frá öðrum bátum. Erfitt er að hýsa svona báta því þeir skila jú ekki tekjum í hafnarsjóði, eins þeir myndu gera ef þeir væru í rekstri," segir Guðmundur. Enn er þó óljóst hvenær María Júlía verður færð, en haldið verður áfram með enduruppbyggingu skipsins á Ísafirði.

 

Þá eru uppi áætlanir um að koma Hrönn ÍS í eyðingu. Guðmundur segir að það sé dýrt að koma bátum í eyðingu. „Aflögð skip, sem ekki hafa neinn kvóta og jafnvel enga eigendur lengur, eru til vandræða í flestum höfnum landsins. Það lendir því gjarnan á höfnum landsins að sitja uppi með slíkan flota og koma þeim í eyðingu," segir Guðmundur.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31