A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
28.01.2017 - 08:27 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Málsvari og ráðgjafi kristni um víða veröld: - Bernharður Guðmundsson, fyrrv. rektor í Skálholti – 80 ára

« 1 af 4 »
Bernharður Guðmundsson fæddist að Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði 28.1. 1937, ólst upp í Reykjavík en var í sveit að Kirkjubóli, hjá afa sínum og nafna, á sumrin og auk þess eitt ár. Hann var í Austurbæjarskóla og gagnfræðadeild í Laugarnesskóla, lauk stúdentsprófi frá MR 1956, stundaði nám í frönsku við Université de Caen 1956-57, lauk embættisprófi í guðfræði frá HÍ 1962, MSc-prófi í fjölmiðlun frá University of S. Illinois 1978, stundaði nám fyrir æskulýðsstarfsmenn í Cleveland í Bandaríkjunum 1963 og nám í gerð sjónvarpsþátta í Dublin 1969.

Bernharður var sóknarprestur í Ögurþingum 1962-65, í Stóra-Núpsprestakalli 1965-70, var æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar 1970-73, stundaði sálgæslustörf sem sjúkrahúsprestur í Sundsvall í Svíþjóð 1972, var yfirmaður hlustendatengsla hjá Lúterska heimssambandinu, Audience Relations Officer RVOG í Addis Ababa 1973-77, var fréttafulltrúi þjóðkirkjunnar 1979-89, fræðslu- og þjónustustjóri þjóðkirkjunnar 1989 og forstöðumaður ráðgjafadeildar Lúterska heimssambandsins í Genf 1991-99 og rektor Skálholtsskóla 2001 og til starfsloka 2006.

Bernharður sat í Æskulýðsráði ríkisins 1971-73, í Barnaverndarráði Íslands 1984-88, í Öldrunarráði Íslands 2002-2009, í stjórn og varastjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1979-89, var formaður Íslandsdeildar Amnesty International 1982-86, ritari og formaður utanríkisnefndar Þjóðkirkjunnar frá 1979, í kirkjufræðslunefnd 1980-89, í ráðgjafanefnd um framtíðarkönnun forsætisráðuneytis Íslands árið 2010, 1984-86, í framkvæmdanefnd upplýsingadeildar alkirkjuráðsins og varaformaður þess 1983-90, í ráðgjafanefnd Lúterska heimssambandsins um þróun og boðmiðlun 1984-88, í stjórn Nordisk Informationskonference 1979-89, formaður Nordisk kirkelig studieräd frá 1990 og hefur sinnt fleiri félagsstörfum á vegum kirkjunnar, s.s. fulltrúi Íslands í starfshópi Norðurlandaráðs: Ældre i Arbeidslivet.

Bernharður var ritstjóri Kirkjuritsins 1979-81 og Víðförla 1982-91, bjó til prentunar Sögu séra Friðriks 1971 og hefur séð um fjölda útvarpsþátta á Ríkisútvarpinu.

Hvað stendur nú upp úr á þessum 80 árum þegar þú lítur um öxl?

„Það er auðvitað margt. Eins og t.d. dvölin hjá afa mínum og nafna á Kirkjubóli en þar var sveitasími sem var til afnota eina klukkustund á dag, ekkert rafmagn en kolaeldavél þar sem brennt var mó og taði.

Guðmundur Ingi skáld var farkennari í sveitinni og kenndi mér að lesa og afi sagði mér sögur og ævintýri sem hann hafði eftir ömmu sinni en hún fæddist 1814.

Dvölin í Eþíópíu er einnig ógleymanleg, bág kjör kvenna þar, og sú staðreynd að einfaldar framkvæmdir eins og að bora eftir vatni, gjörbreytti lífsskilyrðum þeirra.

Þar hitti ég Haile Selassie sem var keisari Eþíópíu 1930-74, er hann heimsótti útvarpsstöð okkar á 10 ára afmæli hennar.

Á vegum Lútherska heimssambandsins þurfti ég svo að ferðast til allra heimsálfa á hverju ári meðan ég starfaði í Genf. Það er óneitanlega áhrifamikil og fjölbreytilegt reynsla sem situr eftir.“

 

Fjölskylda

Bernharður kvæntist 14.11. 1959 Rannveigu Sigurbjörnsdóttur, f. 28.2. 1936, hjúkrunarfræðingi, dóttur Sigurbjörns Einarssonar, f. 31.6. 1911, biskups, og k.h., Magneu Þorkelsdóttur, f. 1.3. 1911, húsfreyju.

Börn Bernharðs og Rannveigar eru:

1) Svava, f. 15.8. 1960, dr. í tónlistarfræðum frá Julliard-háskólanum og víóluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands, en fyrrv. maður hennar er Matej Sarc, óbóleikari og er dóttir þeirra Rannveig Marta, f. 1995, nemi í fiðluleik við Julliard-háskólann;
2) Magnús Þorkell, f. 7.12. 1966, Ph.D. í nútímasögu Mið-Austurlanda og prófessor við Williams-háskólann í Massachusetts, kvæntur Margaret McComish lögfræðingi og eru börn þeirra Bernharður, f. 1997, háskólanemi, og Karen Magnea, f. 2000, skiptinemi við VÍ;
3) Sigurbjörn, f. 4.5. 1972, fiðluleikari við Pasifica-kvartettinn í Bandaríkjunum og prófessor við Indiana-háskóla en kona hans er Sally Takada, sellóleikari og deildarstjóri barnavísindasafns og eru börn þeirra Hiromichi Magnús, f. 2011, og Þóra Aiko, f. 2013.

Systkini Bernharðs eru Margrét Pálína, f. 6.2. 1940, sérkennari, búsett í Kópavogi; Kristján Helgi, f. 10.9. 1943, fyrrv. framkvæmdastjóri og fyrrv. bæjarstjóri, búsettur í Kópavogi; Þórhallur Frímann, f. 25.11. 1952, tæknifræðingur og framkvæmdastjóri í Ósló.

Foreldrar Bernharðs: Guðmundur Magnússon, f. 28.4. 1913, d. 19.1. 1990, bifreiðarstjóri í Reykjavík, og k.h., Svava Bernharðsdóttir, f. 3.11. 1914, d. 29.10. 2002, húsfreyja.

Morgunblaðið laugardagurinn 28. janúar 2017.

 

 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31