Magnús Kristján Björnsson - Fćddur 30. janúar 1954 - Dáinn 7. júlí 2015 - Minning
Foreldrar hans voru hjónin Guðrún Elín Ólafsdóttir frá Reykjarfirði og Björn Magnús Magnússon frá Langabotni. Magnús var næstelstur fjögurra systkina. Systkini hans eru í aldursröð: Ólafía, Sindri Már og Hlynur Vigfús. Sambýliskona Magnúsar er Ása Dóra Finnbogadóttir, fædd 18. júní 1972.
Magnús eignaðist fjögur börn. Þau eru:
1) Björn Magnús, fæddur 14. júní 1977. Móðir hans er Sonja Jónsdóttir. Maki hans er Silja Baldvinsdóttir og börn þeirra Mardís Ylfa og Magnús Kristján. Með Helgu Friðriksdóttur eignaðist Magnús þrjú börn. 2) Helgi, fæddur 28. maí 1984, búsettur í London. Maki hans er Rut Stefánsdóttir. 3) Hildur, fædd 14. nóvember 1985. Maki hennar, Heiðar Ólafsson, á úr fyrra sambandi Hauk Mána og saman eiga þau Helmu. 4) Lína Björk, fædd 22. ágúst 1991, búsett í Dóminíska lýðveldinu. Maki Ivan Dario Gonzalez Nuvan.
Fyrstu aldursárin átti Magnús heima í Reykjarfirði ásamt foreldrum sínum, systur og móðurbræðrum. Þegar hann var þriggja ára fluttist fjölskyldan til Bíldudals, þar sem þau bjuggu í Ási, ásamt Jóhannesi móðurbróður Magnúsar, sem ætíð átti heimili hjá foreldrum hans. Sindri og Hlynur bættust í systkinahópinn, en þegar Magnús var 12 ára fluttist fjölskyldan í Hof, þar sem foreldrar hans og Jói frændi bjuggu til æviloka.
Magnús fór til náms í Reykholt einn vetur, en þaðan lá leið hans í Verzlunarskólann þar sem hann lauk verslunarprófi. Í framhaldi var honum boðið starf sem kaupfélagsstjóri á Bíldudal. Hann flutti því heim og eignaðist þar elsta son sinn með Sonju, þáverandi sambýliskonu sinni. Eftir tíu ára starf hjá kaupfélaginu gerðist hann einn af forsvarsmönnum fiskvinnslu og útgerðar staðarins. Þegar sú starfsemi var lögð niður, tók hann til við eigin rekstur í saltfiskverkun, fyrst á Bíldudal en síðar í Hafnarfirði, þangað sem hann fluttist með Helgu, þáverandi sambýliskonu, og börnum þeirra þremur.
Í félagi við vin sinn Björn Ágúst Jónsson frá Flateyri, setti hann svo á fót endurvinnslu á góðmálmum. Þegar starfsemi þeirra rann inn í Íslenska Gámafélagið, störfuðu þeir þar í forsvari saman, allt þar til Magnús fluttist aftur heim á Bíldudal. Þar bjó hann ásamt Ásu Dóru, núverandi sambýliskonu sinni, og vann með henni að uppbyggingu á ferðaþjónustu og Birni Magnúsi, syni sínum, að stofnun útgerðar og fiskvinnslu.
Magnús var glaðlyndur og vinmargur, áberandi í atvinnulífinu og virkur í sveitarstjórnarmálum á Bíldudal. Hann var duglegur við að rækta samband sitt við fjölskylduna og síðustu ár stundaði hann útivist og bridge af kappi með góðum vinum.
Útför Magnúsar fer fram frá Bíldudalskirkju í dag, laugardaginn 18. júlí 2015.
______________________________________________________________________
HINSTA KVEÐJA Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal
Kæri vinur.
Hafðu þökk fyrir allar okkar samverustundir, drengskap þinn og hjálp í öllum okkar samskiptum.
Vertu þeim guði falinn sem léði þér lífið.
Hvíl í friðarfaðmi hans.
Kveðja,
Jón Kr. Ólafsson
söngvari, Reynimel, Bíldudal.
____________________________________________________________________________
Minningarorð Theodórs A. Bjarnasonar
Það var mikill harmur að frétta af sjóslysi, að góður vinur minn, Magnús Kristján Björnsson, hefði farist.
Magga, eins og hann gjarnan var kallaður, þekkti ég allt frá bernskuárum á Bíldudal. Leiðir okkar lágu saman á ný þegar við hófum afskipti af sveitarstjórnarmálum á Bíldudal. Fyrst með framboði „K“-listans 1974 og við unnum kosninguna. Gott samstarf leiddi til nýs framboðs 1978. Magnús var í 2. sæti á eftir undirrituðum. Listinn vann, 4 af 5 sætum, augljós viðurkenning kjósenda á starfi okkar.
Samstarfið var mest í hreppsnefnd, atvinnumálanefnd og við uppbyggingu á Fiskvinnslunni og útgerð. Hörð barátta, margir fundir og ferðalög til öflunar stuðnings við endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins. Þessar ferðir voru oft farnar við erfið skilyrði og þá reyndi mikið á samstarfið, en Maggi brást aldrei.
Góðir mannkostir, skörp hugsun, umhyggja hans fyrir heimabyggðinni skilaði sér vel. Það tókst að skapa fulla atvinnu og trú fólks á framtíðina í byggðarlaginu. Íbúum fjölgaði mikið. Nýtt íbúðahverfi reis og íbúðarhúsnæði jókst um 30% á 5 árum. Uppbyggingin á Bíldudal vakti landsathygli. Stjórnvöld heimiluðu að byggja íbúðablokk í atvinnubótaskyni, sem þykir enn í dag mjög athyglisvert.
Mikill árangur hefði aldrei náðst nema með góðu samstarfi, sem Maggi átti stóran hlut í. Maggi var lipur maður, sem skilaði sér vel í starfi hans sem útibússtjóri kaupfélagsins til fjölda ára.
Auk þess að vera dagfarsprúður var Maggi ákaflega glaðvær. Hann var hrókur alls fagnaðar og naut þess að segja sögur og lyfta stemningunni. Góðir eiginleikar hans komu sér ætíð vel og ekki síst við fyrrnefndar erfiðar aðstæður á ferðum okkar.
Ég átti góð samskipti við Magga og náið samstarf leiddi til tryggrar vináttu.
Árið 2006 fengum við hjónin þá áskorun að reyna að greiða götur ungs flóttamanns frá Afganistan, sem bjó við ógnandi skilyrði og líf hans var í hættu. Ábyrgðina óskaði ég að taka, um var að ræða náinn ættingja tengdadóttur minnar. Að fá vinnu reyndist erfitt. Ég leitaði víða eftir stuðningi, meðal annars nánustu ættingja minna, án árangurs. Ég var sleginn yfir þessu og sagði Magnúsi frá reynslunni. Óbeðinn brást hann við með því að segja, að hann gæti hugsanlega leyst þetta. Fáum tímum seinna hringdi Maggi og sagði málið væri leyst, hann gæti útvegað manninum vinnu og væri tilbúinn að hjálpa með allar þær staðfestingar sem þyrfti. Lýsandi fyrir Magga, ætíð fús að hjálpa. Ég og fjölskylda mín munum ætíð vera þakklát Magga fyrir þennan greiða.
Ég hitti Magga á Bíldudal þann 6. júni sl. Hann var glaður, sagði að hann væri aftur fluttur til Bíldudals og hefði keypt „Hofið“, húsið sem hann ólst upp í og foreldrar hans bjuggu lengst af í. Hann kvaðst ánægður, hefði mikið að gera, byggja upp fiskverkun og útgerð með syni sínum.
Ég kveð Magga með þakklæti fyrir kæran og góðan vinskap og bið Guð og allar góðar vættir að blessa og veita börnum hans og fjölskyldu styrk. Megi minningin um einstakan mann og góðan dreng veita þeim huggun í sorginni.
Theodór A. Bjarnason.
Morgunblaðið laugardagurinn 18. júlí 2015.