A A A
Ólafur Benediktsson, faðir Mögnu Bjarkar, tók við viðurkenningunni.
Ólafur Benediktsson, faðir Mögnu Bjarkar, tók við viðurkenningunni.
« 1 af 2 »
Vestfirðingur ársins 2014 samkvæmt vali lesenda fréttavefjarins bb.is er Magna Björk Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur frá Bolungarvík. Magna Björk hefur undanfarin ár unnið sem sendifulltrúi á vegum Rauða krossins og hefur þar af leiðandi verði einn af fulltrúum Íslendinga á hamfarasvæðum víðs vegar um heiminn. Hún hefur í fjöldamörg ár verið starfandi í læknum án landamæra og hefur þar með fórnað sér fyrir göfugt málefni. Magna Björk hefur einnig lagt af höndum fórnfúst starf gegn útbreiðslu á ebólu veirunni og er einn fimm Íslendinga sem eru á lista Time tímaritsins sem menn ársins, vegna starfa sinna gegn þessum vágesti. „Hún hefur unnið óeigingjarnt starf sem stofnar henni sjálfri í hættu,“ eins og einn þátttakandi í kjörinu orðaði það. 

Magna Björk fékk 30% greiddra atkvæða í valinu á Vestfirðingi ársins en vel á þriðja hundrað manns tóku þátt í kjörinu. Í öðru sæti urðu félagarnir Þorbjörn Guðmundsson og Björgvin H. Hallgrímsson á Patreksfirði með 17% greiddra atkvæða. Þeir fengu atkvæðin ýmist saman eða í sitt hvoru lagi. Þeir urðu þeirrar ánægju aðnjótandi að bjarga lífi starfsmanns Landsnets er hann fékk hjartastopp síðasta sumar. Þeir sýndu snör og fumlaus handtök á ögurstundu. Í þriðja sæti með 8% greiddra atkvæða er Ísfirðingurinn Aron Guðmundsson. Aron sýndi framúrskarandi árangur í söfnun fyrir MND félagið í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið og vakti athygli á erfiðum sjúkdóm sem móðir hans glímir við. 

Í fjórða sæti með 4% greiddra atkvæða var Ásthildur Sturlusdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð. Í 5.-7. sæti með 3% greiddra atkvæða voru Matthías Garðarsson, fiskeldisfrömuður á Bíldudal, Hálfdán Óskarsson mjólkurtæknifræðingur og einn stofnenda Örnu ehf., í Bolungarvík og Sigurvin Guðbjartsson hagyrðingur með meiru á Ísafirði. Í 8.-9. sæti með 2% greiddra atkvæða voru Jónas Þór Birgisson lyfsali á Ísafirði og Ingimar Oddsson, forstöðumaður Skrímslasetursins á Bíldudal og í 10. sæti var Hallgrímur Sveinsson bókaútgefandi á Þingeyri. Alls fékk 61 einstaklingur atkvæði í kjörinu. Þeir sem skipuðu tíu efstu sætin í kjörinu fengu 70% greiddra atkvæða og þau sem skipuðu þrjú efstu sætin voru með 54% greiddra atkvæða. 

Áður hafa fengið nafnbótina Vestfirðingur ársins þau Guðni Páll Viktorsson (2013), Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands (2012), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2011), Benedikt Sigurðsson (2010), Halldór Gunnar Pálsson (2009), Egill Kristjánsson (2008), Arna Sigríður Albertsdóttir (2007), Sunneva Sigurðardóttir (2006), Sigríður Guðjónsdóttir (2005), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2004), Magnús Guðmundsson (2003), Hlynur Snorrason (2002) og Guðmundur Halldórsson (2001). 

Aðstandendur valsins á Vestfirðingi ársins 2014, Gullauga ehf., á Ísafirði og fréttavefurinn bb.is óska öllum þeim sem fengu tilnefningu til hamingju og þakka lesendum þátttökuna og óska þeim velfarnaðar á nýbyrjuðu ári. 

Í tilefni útnefningarinnar var föður Mögnu Bjarkar, Ólafi Þór Benediktssyni, fært viðurkenningarskjal til staðfestingar á valinu, farandgrip og eignargrip sem smíðaður er af Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið. Magna Björk gat ekki tekið við viðurkenningunni þar sem hún er komin til starfa í Genf. 
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30