A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
06.07.2017 - 08:47 | Björn Ingi Bjarnason,ruv.is,Vestfirska forlagið

Leggja línur fyrir nýjan veg um Dynjandisheiði

Vegagerðin ætlar að hefja endurbætur Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði og á Bíldudalsvegi milli Dynjandisheiðar og Bíldudalsflugvallar. Vegabætur sem fylgja Dýrafjarðargöngum fullnýtist ekki nema ráðist verði í þessar framkvæmdir.

 

 

Heilsársvegur á Vestfjörðum

Vegagerðin kynnir drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á veginum frá Vatnsfirði að Mjólkárvirkjun og á Bíldudalsvegi frá Bíldudalsflugvelli upp á Dynjandisheiði. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða. Í drögunum segir að með vegabótum sem fylgja Dýrafjarðargöngum, sem til stendur að byrja á í haust, verði miklar vegabætur á Vestfjarðavegi. Þær nýtist þó ekki að fullu fyrr en lagður hefur verið heilsárvegur um Dynjandisheiði, suður frá Dýrafjarðargöngum, með tengingu við Bíldudal. Dynjandisheiði er ekki haldið opið yfir háveturinn og Bíldudalsvegi einungis að hluta til.

 

Ekki tryggt fjármagn

Í samþykktri samgönguáætlun til 2018 er gert ráð fyrir 850 milljónum króna í Vestfjarðaveg, þótt það hafi ekki komið inn á fjárlög 2017. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir fé í Bíldudalsveg í samgönguáætlun. Í drögunum kemur fram að vegna aukinna umsvifa vegna fiskeldis í Arnarfirði og aukinna þungaflutninga um Bíldudalsveg og Vestfjarðaveg þá hafi verið ákveðið að í tengslum við nýjan Vestfjarðaveg um Dynjandisheiði sé nauðsynlegt að endurbyggja líka Bíldudalsveg.

 

Nokkrar veglínur til skoðunar

Endurbæturnar á Vestfjarðavegi ná frá Vatnsfirði að Mjólkárvirkjun og stendur til að meta umhverfisáhrif þriggja veglína. Tvær þvera Vatnsfjörð en sú þriðja fer fyrir fjörðinn. Þá er einungis ein veglína til skoðunar fyrir Bíldudalsveg. Allar veglínurnar fela í sér styttingu en eru enn í hönnunarferli. Ekki er gert ráð fyrir jarðgöngum á Dynjandisheiði þar sem Vegagerðin telur að ekki fáist fjármagn til slíkrar framkvæmdar í bráð.

 

Almenningur getur gert athugasemdir við áætlunina og er athugasemdafrestur til 31. júlí 2017. Miðað er við að mati á umhverfisáhrifum ljúki á árinu 2018.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31