A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
22.07.2019 - 23:25 | Bjarni Georg Einarsson,Guðmundur Ingvarsson,Hallgrímur Sveinsson

Landráðamennirnir áttu að fara beint í Bláturn!

Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson
Hallgrímur Sveinsson, Bjarni G. Einarsson og Guðmundur Ingvarsson

Þess er að minnast, að þegar Búrfellsvirkjun reis við Þjórsá og álverið í Straumsvík varð að veruleika, var Jóhann Hafstein, iðnaðarráðherra, landráðamaður þeirra tíma nr. 1. Árum saman var sá góði maður og samstarfsmenn hans úthrópaðir af vissum þjóðfélagsöflum. Jóhann Hafstein og landhlauparar hans voru ekki í húsum hæfir. Eiginlega hefði átt að senda þá og marga aðra frumherja í rafvæðingu landsins beint í Bláturn, ef hann hefði verið opinn! En allir vita að rafvæðingin umbylti samfélaginu til góðs og Búrfellsvirkjun hefur löngu sannað gildi sitt.

Daginn eftir að eiturspúandi álverið sunnan Hafnarfjarðar reis, beitti Magnús Kjartansson, iðnaðarráðherra og Austri Þjóðviljans, sér fyrir því að reist yrði rauðglóandi eiturfabrikka, Málmblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði. Man nokkur eftir Union Carbide? Var Magnús Kjartansson þá ekki landráðamaður? O, nei, ekki aldeilis.

Svo kom Jón G. Sólnes til sögunnar. Hann lagði líf sitt við Kröfluvirkjun. Hann var landráðamaður nr. 2. Upp kom eldgos. Það var Jóni gamla að kenna, að sjálfsögðu. Þeir tóku hann af lífi, drengirnir. Ásökuðu hann fyrir smávægilega yfirsjón sem flesta getur hent. 


Mjólkárvirkjun hefur malað gull í rúm 60 ár

Mjólkárvirkjun í Auðkúluhreppi hefur nú malað Vestfirðingum gull í rúm 60 ár. Þegar byrjað var á Mjólká 1. 1955, 2,5 MW, var enginn vegur í Borgarfirði inn úr Arnarfirði. Allt byggingarefni og tæki flutt á sjó. Ótrúlegt þrekvirki. Alls konar stíflur reistar á hálendinu ofan Mjólkár. En þar efra á Glámuhálendi, í 500-700 metra hæð, eru veður ströng þegar svo ber við. Efri og neðri stífla. Stærðar lón. Vegir og vatnsmiðlanir. Margra kílómetra vatnsrör ofanjarðar. Seinna kom svo Langavatnsmiðlun ásamt fleiri miðlunum. Vatni sumsstaðar veitt neðanjarðar. Svo kom Hófsárveita. Stífla þar, lón og langur skurður. Svo kom Mjólká 2 og 3. Bara allskonar. 

Þetta er náttúrlega bilun!
Við sem næstir búum höfum ekki heyrt nokkurn einasta mann kvarta yfir þessum mannvirkjum. Engan. Mjólkárfossar eru einhverjir fegurstu fossar hér um slóðir. Þeir eru stundum þurrir svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir á ári vegna vatnssöfnunar Orkubúsins. Enginn kjaftur segir eitt einasta orð. Enginn beðið tjón á sálu sinni svo vitað sé! Og það jafnvel þótt þjóðvegurinn liggi neðan fossanna. Þetta er náttúrlega bilun!

Mjólkárvirkjun-Hvalárvirkjun

Skyldi vera einhver raunverulegur munur á þessum virkjunum ef grannt er skoðað? Við leikmennirnir (einn okkar var starfsmaður á plani við Mjólká 1) höldum að þetta sé nákvæmlega sama tóbakið. Hvalárvirkjun jafnvel náttúruvænni ef eitthvað er. En sem áður segir hefur Mjólkárvirkjun malað Vestfirðingum gull í rúm 60 ár. Og það án þess nokkur maður hafi tekið eftir því! 


Svokölluð sjónmengun er víst nýyrði. Erlendir ferðamenn eru sagðir ekki þola að sjá ýmiskonar mannvirki á landinu og sumir Íslendingar ekki heldur. Margir virðast vilja að Vestfirðingar og sem flestir aðrir landsmenn verði bara bugtandi ferðaþjónar að atvinnu. Og ekki gera nokkurn skapaðan hlut sem veldur mengun fyrir sjónina. Það á bara að horfa á landið. Þeir sem svo hugsa ættu að skoða vegtroðningana  sem vinur okkar Elís Kjaran lagði þvers og kruss um alla Vestfirði. Nú eru þeir vegslóðar löngu orðnir samgrónir landslaginu. Það er eins og þeir hafi alltaf verið þarna frá upphafi byggðar. Elli okkar sagði stundum: Náttúran sjálf er alltaf meira og minna að breyta landslaginu. Heilu skriðurnar koma niður fjallahlíðar á einum rigningardegi. Við spyrjum: Er það ekki sjónmengun?

Að horfa og nýta
Öll erum við meiri og minni landverndarmenn. En eigum við ekki að nýta landið og gæði þess á skynsamlegan hátt? Einhversstaðar verður að setja mundangshófið. Menn verða að samræma sjónarmiðin. Að horfa og nýta. En það þarf tvo til eins og þar stendur.      


Nú eru kynnt bál um allt land. Það má ekki reisa vatnsaflsvirkjun á Ströndum. Það eru landráð dagsins. Margt virðist þetta vera samkvæmt forskrift og gamalkunnri, dapurlegri landráðaformúlu

 
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31