A A A
  • 1966 - Ólafur Kristján Skúlason
27.08.2017 - 08:38 | Vestfirska forlagið,Krsitinn H. Gunnarsson,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Kynblandaður lax mönnum æðri

Kristinn H. Gunnasson.
Kristinn H. Gunnasson.

Fram eru komnar tillögur ríkisstjórnarinnar um stefnu í fiskeldi í sjó. Hagsmunaaðilar fallast í faðma undir verndarvæng Viðreisnar og raungera samkomulag þar sem staðreyndir eru lausbeislaðar til þess að færa eftirá rök fyrir fyrirframgefinni niðurstöðu.

 

Starfshópurinn, sem var að skila af sér gefur sér þann skilning á lögum um fiskeldi nr 71/2008 að þegar hagsmunir veiðiréttarhafa í laxveiðiám fari ekki saman við hagsmuni annarra, þ.e. þeirra sem vilja fiskeldi, að þá skuli hagsmunir þeirra síðarnefndu víkja, eins og segir berum orðum í álitinu. Með öðrum orðum að hagsmunir veiðiréttarhafa skuli alltaf ráða. Út frá þessari grunnforsendu er svo spunnið framhaldið.

 

Þúsund sinnum segir nei

 

Með þessari öfugmálatúlkum er litið framhjá efnahagslegri þýðingu málsins. Það er alvarlegt sérstaklega fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp. Ætla má að árlegar tekjur af laxveiði þriggja áa í Ísafjarðardjúpi séu 25 milljónir króna. Útflutningstekjur af 30.000 tonna laxeldi í Djúpinu eru taldar vera um 25 milljarðar króna. Þær eru þúsund sinnum meiri. En samkvæmt rökstuðningi nefndarmanna víkja meiri efnahagslegir hagsmunir fyrir minni. Engin störf eru vegna laxveiðanna en laxeldið skapar 600 – 700 störf samkvæmt mati Byggðastofnunar. En aftur skulu meiri hagsmunir víkja fyrir minni.

 

Verndun villtra fiskistofna og sjálfbær nýting

 

Starfshópurinn vitnar til 1. greinar laganna og segir tvennt sérstaklega tekið fram. Annað að vernda vistkerfi villta stofna og hins vegar að viðhalda sjálfbærri nýtingu þeirra. Í greininni segir reyndar líka að markmið laganna eigi að vera að „skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu“ en þetta með að efla atvinnulíf og byggð í landinu víkur fyrir hagsmunum þeirra sem veiðirétt eiga eins og það er snyrtilega orðað í álitinu.

En það er rétt að skoða þessi tvö atriði, sjálfbær nýting laxastofnanna í ánum þremur við Ísafjarðardjúp og verndun villtra stofna.

 

Ósjálfbær nýting

 

Fjarri lagi er að náttúrulegur laxastofn ánna sé nýttur á sjálfbæran hátt. Hafa ber í huga að sjálfbær nýting þýðir að náttúran sjálf er látin um það að ráða hver stofnstærð er á hverjum tíma og að ekki sé tekið meira úr stofninum en svo að stofninn haldi stærð sínum og styrk. Það er öðru nær í þessum þremur tilvikum. Í árnar er sleppt seiðum til þess að auka stærð stofnsins og gera hann verðmætari sem veiðistofn. Ef sleppinga nyti ekki við væri veiðin snöggtum minni. Þetta er ekki sjálfbær nýting heldur mannlegt inngrip í gangvirki náttúrunnar. Þetta inngrip er ekki af umhyggju fyrir náttúrunni heldur af efnahagslegum hvötum.

 

Blandaður lax

 

Þá er það hitt atriðið um villta laxinn sem þurfi að vernda. Það er kannski ekki alveg víst að kalla megi þá laxastofna sem eru í ánum villta. Að minnsta kosti segir í kynningu á veg Landssambands veiðifélaga um Laugardalsá að „Þarna er eitt besta dæmi um vel heppnaða fiskrækt hérlendis, en áin var fisklaus allt til að fiskvegur var sprengdur í Einarsfoss.“

 

Áin var sem sé fisklaus. Það þýðir að ekki er um neinn upprunalegan stofn að ræða heldur er hann aðfluttur úr öðrum ám. Jafnvel þótt svo slysalega vildi til að stofninn í Laugardalsá hyrfi af einhverjum sökum er hann samt til annars staðar þaðan sem seiðin komu.

 

Í hinum ánum tveimur, Hvannadalsá og Langadalsá hefur verið bætt við þann stofn sem þar kann að hafa verið til. Samkvæmt skýrslu Þórs Guðjónssonar frá 1989 um starfsemi Laxeldisstöðvarinnar í Kollafirði var sleppt seiðum frá stöðinni í allar árnar þrjár í Ísafjarðardjúpi á árunum 1965 – 1981.

 

Í Laugardalsá var sleppt 8.000 sumaröldum seiðum og 500 gönguseiðum. Í Langadalsá var sleppt 23.500 gönguseiðum og í Hvannadalsá var sleppt 14.000 sumaröldum seiðum og 3.000 gönguseiðum.

Samkvæmt frásögn Þórs Guðjónssonar voru seiðin klakin út í stöðinni í Kollafirði. Uppruni þeirra var úr ýmsum áttum. Safnað var hrognum á árunum 1961-65. Þau komu að langmestu leyti (52%) úr Elliðaánum, 13% hrognanna voru tekin úr tveimur ám a Vesturlandi, 21% komu úr fjórum ám á Norðurlandi og 10% úr am í Árnessýslu og 2% hrognanna komu úr Leirvogsá. Það vekur athygli að engin hrogn virðast hafa verið tekin úr vestfirskum ám.

 

Stofnarnir eru verndaðir

 

Þá er niðurstaðan að laxastofninn í ánum við Djúp er einhvers konar hrognakokteill úr ýmsum áttum. Hver er þessi villti laxastofn sem á að vernda umfram mannlíf við Djúp ? Hann er kannski villtur, en þessi stofn, einn eða fleiri virðist telja til skyldleika við laxastofna um allt land, stofna sem eru kyrfilega verndaðir þar sem laxeldi er með öllu bannað fyrir Breiðafirði, Faxaflóa, Suðurlandi, stórum hluta Norðurlands og hluta af Austurlandi.

 

Svo jafnvel þótt erfðablöndun ætti sér stað í Djúpinu, sem ekki er hægt að fullyrða að verði, og jafnvel þótt erfðablöndunin yrði neikvæð, sem heldur er ekki hægt að fullyrða eru samt nóg til af „erfðahreinum“ laxi í öllum friðuðu ánum.

 

Niðurstaðan er sú að niðurstaða starfshópsins er ekki fræðileg heldur pólitísk. Hagsmunir veiðiréttarhafa eru teknir fram yfir hagsmuni almennings. Kynblandaður lax gengur fólki framar. Svo einfalt er það.

 

Kristinn H. Gunnasson

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30