A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
14.08.2019 - 08:00 | Hallgrímur Sveinsson

Krían er farin úr Arnarfirði

Kría
Kría

Krían blessuð, bæði hjónin, hefur nú kvatt okkur að sinni, alla vega í Arnarfirði í æðarvarpinu hjá Grelöðu Bjartmarsdóttur, jarls á Írlandi, sem þar býr búi sínu ásamt fleirum. Sama er hjá Hreini æðarbónda og hreppstjóra Þórðarsyni á Auðkúlu. Allar kríur farnar. Kríuvarpið gekk vel á umræddum slóðum í vor og fullt af ungum komust á legg. Að maður tali nú ekki um æðarvarpið: Það var bara heimsmet!  


Hinn 18. ágúst er svokallaður kríudagur. Þá tekur þessi langföruli farfugl sig upp og flýgur alla leið til Suðurskautsins. Svo sögðu þeir gömlu hér fyrir vestan fyir nokkrum árum.
 


Enginn fugl í heiminum ferðast jafnlanga leið á milli varp- og vetrarstöðva og krían, eða 35 þúsund km. Og þessa vegalengd fer hún tvisvar á ári. Krían er eini fulltrúi ættar sinnar með fastan þegnrétt hér á landi. Hún er spengilegur og tígulegur fugl, nokkru minni en hettumáfur og mun mjóslegnari og rennilegri.


Krían er afbragðs flugfugl, hún andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir síli. Hún er þekkt fyrir öflugan lofthernað í varplandi sínu. Eiginlega orustuþota nútímans. Hún hikar ekki við að ráðast á sjálfan konung fuglanna ein síns liðs. Að maður tali nú ekki um dráttarvélar og svoleiðis græjur! Ver ekki aðeins eigin afkvæmi fyrir ræningjum, heldur njóta aðrir fuglar einnig góðs af að verpa í nágrenni hennar, til dæmis æðarfuglinn. Krían er mjög félagslynd og á sífelldu iði og amstri.



Krían er undraverð


Á heimasíðu Votta Jehóva má lesa eftirfarandi fróðleik um hina stórkostlegu kríu: 


Lengi var talið að krían flygi um 35.000 kílómetra á farflugi sínu frá norðurskautsvæðinu að Suðurskautslandinu og til baka. En nýlegar rannsóknir sýna að hún flýgur í raun mun lengra.



 

Krían flýgur ekki beina leið á farflugi sínu eins og sjá má á skýringarmyndinni.



Agnarsmá mælitæki, sem eru kölluð dægurritar og eru á þyngd við bréfaklemmu, voru fest á kríur til að fylgjast með ferðum þeirra. Það kom í ljós að sumar kríur flugu að meðaltali 90.000 kílómetra á árlegu farflugi sínu en það er lengsta farferð sem þekkist meðal dýra. Ein krían flaug hátt í 96.000 kílómetra! Hvers vegna er munur á mælingunum fyrr og nú?

Hvaðan sem kríurnar hófu farflug sitt þá flugu þær ekki beina leið. Eins og sjá má á skýringarmyndinni flugu þær venjulega yfir Atlantshafið í stórum bogum. Fuglarnir nýta sér einfaldlega ríkjandi vinda.

Krían lifir í um 30 ár og á þeim tíma getur hún flogið um 2,4 milljónir kílómetra. Það jafngildir þremur til fjórum ferðum til tunglsins og til baka. „Það er ótrúlegt afrek fyrir fugl sem er rétt rúmlega 100 grömm að þyngd,“ segir rannsóknarmaður. Þar að auki eltir krían sumarið heimskautanna á milli og nýtur þar af leiðandi „meiri dagsbirtu árlega en nokkur önnur lifandi vera,“ segir í bókinni Life on Earth: A Natural History.




 

 
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31