A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
24.12.2016 - 06:46 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Jólasaga af Hornströndum: Stefanía Guðnadóttir - Þannig var það -

Stefanía Guðnadóttir fædd 22. júní 1887. Sagan gerist 1920 og er farið frá Hælavíkurbænum að Rekavík bak Höfn.
Stefanía Guðnadóttir fædd 22. júní 1887. Sagan gerist 1920 og er farið frá Hælavíkurbænum að Rekavík bak Höfn.

Eftirfarandi saga birtist í ritröðinni Hornstrandir Jökulfirðir 3. bók, en fyrst kom hún á prent í blaðinu Faxa 1. desember 1961.

 

      Þegar ég var að leita í ruslakistu minninganna, fann ég ekki neitt, sem ég gæti hugsað til að kæmi fram í dagsins ljós. Annir daganna og strit áranna hafa þurrkað flest út. En þó er þar ein minning, sem alltaf skýtur upp kollinum, og af því að nú er Jólaföstuinngangur, er hún einmitt nú réttra 40 ára gömul.

      Unga fólkið á Ströndunum hafði komið sér saman um að halda skemmtun. Húsakostur var hvergi mikill þar um slóðir, en þó var þar á einum bænum nokkuð stór og rúmgóð stofa, sem hægt var að dansa í, og önnur fyrir veitingar.

      Mikið var nú hlakkað til, sérstaklega hjá okkur kvenfólkinu. En það leit ekki út fyrir að hamingjan ætlaði að vera okkur hliðholl, því snjónum kyngdi niður mest alla vikuna fyrir laugardaginn, þegar skemmtunin átti að vera.

Loks rann þó upp þessi langþreyði dagur, dimmur og þungbúinn, en lítið snjóaði.  Leizt karlmönnunum ekki vel á veðrið og

þaðan af síður á færið, því snjórinn var svo laus, að ekki var hægt að nota skíði. Okkur konunum fannst hins vegar óbærilegt að hætt yrði við skemmtunina, sem við höfðum hlakkað svo mikið til, og því hvöttum við mjög til fararinnar.  Niðurstaðan varð því sú, að ákveðið var að fara og var síðan lagt af stað.  Ferðin gekk mjög seint, piltarnir gengu á undan en við stúlkurnar fylgdum fast á eftir, gengum í slóðina og voru bakkar hennar oft í mitt læri og meira, svo mikið var snjókafið.  En þrátt fyrir þessa erfiðleika voru allir hressir í anda,  því til mikils var að vinna, að komast þetta, og þó að tvær vondar og viðsjálar torfærur væru á leiðinni, létum við það ekki á okkur fá, enda stóð nú ekkert fyrir okkur.

      Eftir þriggja stunda ferðasvakk náðum við á samkomustaðinn, vorum við þá bæði blaut og svöng.  En nú voru hendur látnar standa fram úr ermum við að hafa fataskipti og skrýðast sínu bezta skarti, sem borið hafði verið með sér á hinni erfiðu göngu. Var síðan setzt að kaffidrykkju, sem húsmóðirin á bænum og dætur hennar báru fram af mikilli rausn. — Og fljótt leið tíminn. Þarna á skemmtuninni voru samankomin ungmenni frá 5 bæjum, en á sumum þeirra var fjölbýli. Þetta æskufólk hafði ekki mörg tækifæri til þess að hittast, sízt að vetrinum, því oftast hömluðu þá snjóþyngsli og svo lágu illvíg fjöll á milli sumra bæjanna, sem gátu orðið þung í skauti á þeim árstíma.  En þetta umrædda kvöld varð allt slíkt að víkja fyrir hinni tápmiklu æsku, er sveif  syngjandi og lífsglöð inn í dansinn. Og þó þar væri engin hljómsveit, aðeins tvöföld harmonika til að dansa eftir,  þá ljómaði þar heilbrigð og óspillt æskugleðin á hverju andliti og allir dönsuðu af hjartans lyst.  Einnig var farið í jólaleiki. En þegar fólk var orðið þreytt að dansa og leika sér, sameinuðust allir í fögrum söng. Þetta kvöld voru einnig fluttar ræður, þó ég hafi nú gleymt um hvað þær fjölluðu eða hverjir fluttu þær. Var síðan aftur tekið til við dansinn og þá dansað fram á morgun, en þá var skemmtuninni hætt með því, að húsbóndinn tilkynnti, að nú ætti húslestur að hefjast, þegar búið væri að drekka morgunkaffið, og kom engum til hugar að mótmæla því, jafnvel þótt marga hefði fýst að mega dansa lengur, enda var þessi tilhögun föst venja í sveitum landsins í þá daga. Var síðan gengið til baðstofu og hlýtt á lesturinn, og munu flestir gestanna hafa tekið þátt í sálmasöngnum, en sjálfsagt hefir nú margan syfjað í slíkri kyrrsetu eftir svo langa og stranga vöku, og líklega hafa þá enn hljómað í eyum okkar margra hinir töfrandi og seiðmjúku tónar harmonikunnar og dunurinn af hratt stignum dansinum. Er mér ekki grunlaust, að þetta allt hafi orkað meira á hugann, en lestur húsbóndans.

      En þegar húslesturinn var á enda, var tekið til við að búa sig til heimferðar, kveðja heimilisfólkið og þakka fyrir góðar viðtökur.  Glöð og hress í anda héldum við svo af stað út í hríðarmugguna, þeir samferða, er samleið áttu, en hinir kvaddir og þeim þökkuð samveran, er aðrar leiðir fóru. Allir voru ánægðir með vel heppnaða skemmtun, þótt hvorki væru þar reyktir vindlingar né drukkið vín. Reyndar fengu karlmennirnir vindla, þeir sem það vildu, en kvenfólkið kunni þá ekki slíka hluti, að minnsta kosti ekki á Ströndum.

      Og þegar ég nú legg frá mér prjónana mína og legg hendur í skaut og læt hugann reika til löngu liðinna daga, og orna mér við arinn minninganna, liggur við, ef ég ætti ósk fram að bera, að hún yrði sú, að ungu stúlkurnar, sem nú sækja sínar skemmtanir í raflýsta og glæsta sali nútímans, mættu eiga þaðan jafn ánægjulegar minningar frá þeirra æskuskemmtunum, er lýsi og vermi síðar meir í hug þeirra og hjarta, eins og þessi fátæklega, litla æskuskemmtun hefir gert í huga mínum fram á þennan dag.

 

Stefanía Guðnadóttir.

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31