Jóhanna Hákonardóttir - Fædd 26. júlí 1950 - Dáin 3. maí 2016 - Minning
Foreldrar hennar voru Sigurlaug Helga Leifsdóttir, f. 6. ágúst 1926, d. 10. maí 2016, og Hákon Jóhannes Kristófersson, f. 26. september 1919, d. 25. desember 1965. Albróðir Jóhönnu er Leifur Hákonarson, f. 26. september 1952. Hálfbróðir Jóhönnu, samfeðra, er Bjarni Hákonarson, f. 24. júní 1961. Hálfsystir Jóhönnu, samfeðra, er Hulda Hákonardóttir, f. 9. apríl. 1963. Dóttir Jóhönnu er Sigurlaug Helga Teitsdóttir, f. 2. janúar 1982. Faðir hennar er Teitur Arnlaugsson f. 28. september 1947. Sonur Sigurlaugar Helgu er Björn Kári Arnarsson, f. 30. ágúst 2008, faðir hans er Arnar Steinn Þorsteinsson, f. 9. mars 1978. Sambýlismaður Sigurlaugar Helgu er Tómas Joensen, f. 7. október 1981, synir þeirra eru Hörður Bjarki H. Joensen, f. 11. febrúar 2014, og Hrafnkell Rökkvi H. Joensen, f. 19. nóvember 2015.
Jóhanna fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð og ólst þar upp. Hún gekk í Barnaskólann á Þingeyri og Héraðsskólann á Núpi og síðar Lindargötuskóla og Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Jóhanna stundaði nám við Fósturskóla Íslands og lauk þaðan leikskólakennaraprófi 1976. Hún stundaði kennslustörf í Vestmannaeyjum og var forstöðumaður dagheimilis í Kópavogi. Frá 1985 til 2006 starfaði hún sem aðstoðarmaður í Flugstjórn. Síðast starfaði hún sem deildarstjóri á leikskólanum Njálsborg. Jóhanna tók þátt í ýmsum félagsstörfum, meðal annars fyrir leikskólakennara hjá ríkinu og á vegum Starfsmannafélags ríkisstofnana. Einnig tók hún virkan þátt í starfi Kynjakatta og síðar Hundaræktarfélagi Íslands. Hún lagði stund á nám í málun og teikningu við Myndlistaskóla Reykjavíkur, Tómstundaskólanum og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hélt nokkrar einkasýningar á verkum sínum.
Útför Jóhönnu og móður hennar, Sigurlaugar Helgu Leifsdóttur, fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 17. maí 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.
____________________________________________________________________________________
Minningarorð Leifs Hákonarsonar
Kæra systir.
Í önnum vikunnar hefur gefist lítill tími til að ákveða hvernig ég myndi vilja minnast þín, að lokum varð úr að ég bögglaði saman þessum sundurlausu málsgreinum í tímapressu – hefði viljað gera betur. Ég veit þú fyrirgefur mér.
Í litlu þriggja manna fjölskyldunni okkar varst þú oft í uppeldishlutverki, verndaðir litla bróður þinn gegn hættum umhverfisins, hættum sem hann oft bjó til sjálfur með hvatvísi og glannaskap. Oft hefðir þú vafalaust frekar viljað vera að gera eitthvað annað – en aldrei sveikstu um að gæta mín.
Ég man frá æskuárunum hversu mjög þú saknaðir föður okkar, stundum áttirðu erfitt með að fyrirgefa mömmu að hún skyldi yfirgefa hann. Þú hafðir verið eldri en ég þegar skilnaðinn bar að höndum, ég mundi satt að segja lítið eftir þeim tíma þegar við vorum fjögur. Þó var eins og dvölin í Stykkishólmi hefði skilið eftir minningabrot – en þau snerust aðallega um sólskin, náttúrufegurð og leik með vinum okkar. Sunneva mun hún heita, besta vinkona þín þar.
Á gamla pósthúsinu á Þingeyri eignuðumst við svo auðvitað nýja fjölskyldu þar sem voru afi, amma og Erla, sjálfur hef ég sennilega sett afa okkar á þann stall þar sem pabbi dvaldi í þínum huga. Ég man hversu biturt þér fannst stundum að faðir okkar væri svo langt í burtu, kannski sérstaklega á jólum þegar gjafir bárust, þá gréstu stundum. Raunar veit ég að oft sárnaði móður okkar líka þegar við fengum gjafir sem voru miklu stærri en þær sem hún hafði efni á – það var erfitt að vera einstæð móðir upp úr miðri síðustu öld.
Svo fluttum við í bæinn, bjuggum í lítilli risíbúð. Þar held ég að ég hafi fengið stærra herbergi en þú, sennilega hefur þú viljað hafa það svo. Það er nú samt ekki hægt að horfa alveg fram hjá því að ástkær móðir okkar átti það til að láta soninn njóta forgangs þegar skipta þurfti kökunni í misstóra hluta. Ég veit að þú fyrirgafst henni það, varst kannski sjálf sek um að hampa bróðurnum á eigin kostnað.
Ég ætla ekki að rekja lífshlaup þitt á fullorðinsárum hér – langar bara að þakka þér allar ánægjustundirnar sem við áttum saman á fjöllum. Minnisstæðar eru tvær ferðir á Hornstrandir á árunum í kringum 1990, sú seinni var einskonar fermingargjöf til Hákonar, þá gengum við frá Hesteyri í Hornvík með allt á bakinu.
Eftir að krabbinn tók sig upp fyrir nokkrum árum hófst stíf dagskrá fjallgangna, oftast var farið á Esjuna en stundum annað. Þú varst ótrúlega dugleg við þetta eins og allt annað sem þú tókst þér fyrir hendur. Að lokum sagði líkaminn þó að nú væri nóg komið og þótt þú létir ekki á neinu bera grunar mig að þessi fyrsta staðfesting þess að endalokin nálguðust hafi verið þér þungb ær.
Eitt er ég þakklátur fyrir, það að við skyldum ná að kveðja þig á líknardeildinni. Seint mun það líða úr minni mínu þegar hún móðir okkar kvaddi þig með hughreystingarorðum rétt eftir andlátið. Ég veit að þú varst ekki trúuð – og er það svo sem ekki sjálfur – en ætla að halda opnum í huga mér þeim möguleika að þú hafir tekið einhvers staðar á móti henni viku seinna.
Þinn bróðir Leifur.
Morgunblaðið þriðjudagurinn 17. maí 2016.