A A A
Albert á ritstjórnarskrifstofu Parísarblaðsins “L’Equipe” að endurtaka leikbragð sem blaðamenn trúðu ekki að væri í mannlegu valdi að leika. Þetta var 1950.
Albert á ritstjórnarskrifstofu Parísarblaðsins “L’Equipe” að endurtaka leikbragð sem blaðamenn trúðu ekki að væri í mannlegu valdi að leika. Þetta var 1950.
« 1 af 2 »

Íslendingar eru nú á mikilli siglingu í knattspyrnunni í Frakklandi. Og er nú full ástæða til að rifja upp að það hefur gerst áður. Reykvíkingurinn Albert Guðmundsson úr Val fór til náms í Skotlandi árið 1945 með nesti og nýja skó eins og karlssynirnir í ævintýrunum. Lítið hafði hann handa á milli annað en áræðni, kraft, gott upplag og uppeldi. Hann var frá 1947-1955, atvinnumaður í knattspyrnu, lengst af  í Frakklandi, en einnig á Ítalíu. Hann var sá fyrsti í Evrópu, sem kom frá Norðurlöndum. Var um tíma jafnvel talinn hæst launaði atvinnumaður í heimi í knattspyrnu. Áður hafði hann verið um skeið áhugamaður hjá Glasgow Rangers í Skotlandi og Arsenal í Englandi. Eftir að Albert kom heim úr víking gerðist hann umsvifamikill á ýmsum sviðum m. a. stjórnmálum.

 Albert var alinn upp af ömmu sinni. í bókinni Albert eftir Gunnar Gunnarsson, útg. Setberg, Rvk. 1982 segir hann frá hinum hörðu lífskjörum í Reykjavík kreppuáranna og áranna þar á eftir og hvernig hann og amma björguðu sér í fátæktinni.

   “Herbergið okkar á Smiðjustíg var súðarherbergi. Uppgangurinn var þröngur og geymsluloft þegar upp kom. Þarna voru tvö súðarherbergi sitt hvoru megin í húsinu. Á miðju loftinu, eða á geymslugangi beint á móti stigaopinu, var vaskur. Þessi vaskur var hið eina sem við höfðum er til þæginda mætti telja. Okkar herbergi var til hægri, þegar upp kom, líkast til hefur það verið tuttugu og fimm eða þrjátíu fermetrar. Dyrnar opnuðust inn og við hurðina var lítil kolakabyssa, sem bæði var eldað á og kynt með. Annar hiti var ekki. Og þar sem þetta var undir súð, var ekki vel einangrað og því oft kalt á vetrum, stundum hrímað. Rúm ömmu var vinstra megin. Hægra megin var dívan, sem ég átti. Það var bókahilla við höfðalagið mín megin, og hennar megin var lítill kistill sem hún átti og hafði að geyma allar hennar eigur.”

   Þessi útrásarvíkingur lagði fyrir stóran hluta þess fjár sem hann aflaði. Þegar hann kom svo heim 1955 mátti hann teljast efnaður maður á þeirra tíma mælikvarða.

Albert segir svo:

“Auðsöfnun hefur aldrei verið tilgangurinn í mínu lífi. Eftir að ég fór að hafa miklar tekjur, fyrst erlendis og svo heima, þá hef ég aldrei safnað peningum. Ég hef gefið mikið af mínu fé, hjálpað mörgum, bæði vinum mínum og svo börnunum, þegar þau komust á legg og þurftu á að halda. Ég hef aldrei talið það geta verið tilgang að safna einu eða neinu. Ég hef þó alltaf lagt áherslu á að lenda aldrei sjálfur á flæðiskeri. Ég var einu sinni fátækur og veit hvað það er, en þegar minn eigin grunnur er traustur, þegar ég sjálfur hef það sem ég þarf, þá er allt það sem umfram er mér laust í hendi til þeirra sem eru í þörf.“


« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31