A A A
23.06.2011 - 08:20 | Tilkynning

Íbúar hvattir til að huga að lóðum sínum

Dýrafjörðurinn í byrjun júní. Mynd:JÓH
Dýrafjörðurinn í byrjun júní. Mynd:JÓH
Nú er sumarið heldur betur gengið í garð og veðurblíðan hefur leikið við okkur Dýrfirðinga undanfarið. Sumarið í sumar er talið verða eitt mesta ferðamannasumar á Vestfjörðum og við viljum auðvitað sýna okkar bestu hliðar. Um leið og íbúasamtökin vilja þakka kærlega fyrir þá viðleitni sem íbúar Þingeyrar sýndu í vorhreinsun sem haldin var fyrir nokkru síðan, viljum við hvetja bæjarbúa til að huga að lóðum sínum, hvort sem er í kringum íbúðarhús eða vinnu-/geymsluskúra.

Á fjölmörgum svæðum hafa plöntur á borð við kerfil og lúpínu gert sig heimakomin og hér á eftir fara nokkrir fróðleiksmolar frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðslu ríkisins sem hafa má í huga við eyðingu þessara plantna.

Kerfill
Mjög erfitt er að stemma stigu við útbreiðslu kerfilsins þegar hann er kominn í land. Því er nauðsynlegt að uppræta hann strax og hans verður vart í nýju landi; tína upp einstakar plöntur þannig að þær nái ekki að blómstra. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur búið um sig er að slá a.m.k. tvisvar á sumri eða beita hann. Þá er hægt að stinga upp rætur, en það útheimtir mikla vinnu og fyrirhöfn og er aðeins framkvæmanlegt þar sem um stakar plöntur eða mjög litlar breiður er að ræða.

Lúpína
Eyðing alaskalúpínu getur verið nauðsynleg af ýmsum ástæðum. Lúpína er öflug í samkeppni við annan gróður, einkum á rýru landi. Hún getur því bylt gróðursamfélögum mjög auðveldlega. Því er mikilvægt að finna aðferðir sem henta til að eyða henni. Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að uppræta lúpínu til dæmis að beita hana eða slá og virðist tímasetning beitar/sláttar skipta höfuðmáli. Eitrun með Roundup er vænleg leið til að eyða lúpínu. Til að eyða henni að fullu þarf mikla eftirfylgni, því eftirlifandi plöntur geta orðið uppspretta að nýrri kynslóð lúpínu. Best er að eitra þegar lúpínan er komin í fullan vöxt, rétt fyrir blómgun.

Að lokum fara hér nokkur húsráð sem reynst hafa vel við eyðingu á lúpínu og kerfil
• Stinga niður með rótinni og hella sjóðandi heitu vatni eða lýsi
• Klippa plöntuna niður og strá salti á hana
• Slá reglulega, eða klippa plöntuna áður en hún blómstrar
• Stinga niður í rótina og hella lýsi ofan í
• Bera köfnunarríkanáburð á plöntuna eftir að hún hefur verið klippt niður

Með von um að þessi ráð komi einhverjum að góðum notum,
Íbúasamtökin Átak
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30