A A A
22.02.2017 - 22:21 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Í stuttu máli: - Einbúarnir í Arnarfirði kunnu bæði að lesa, skrifa og reikna!

Sigurjón G. Jónasson á Lokinhömrum spilar á orgelið í Hrafnseyrarkapellu. Ljósm.: H. S.
Sigurjón G. Jónasson á Lokinhömrum spilar á orgelið í Hrafnseyrarkapellu. Ljósm.: H. S.

Vel má minnast hinna síðustu gömlu einbúa í sveitum Arnarfjarðar, sem allir hafa kvatt okkur. Þetta voru þeir Gísli Gíslason á Fremri –Uppsölum í Selárdal og Ólafur Gíslason á Neðrabæ í sama dal. Þá Aðalsteinn Guðmundsson á Laugabóli í Mosdal og Hákon J. Sturluson á Hjallkárseyri, áður á Borg. Og svo Sigríður Ragnarsdóttir á Hrafnabjörgum í Lokinhamradal og Sigurjón G. Jónasson á Lokinhömrum í í þeim dal.

Ómar Þ. Ragnarsson gerði sum þeirra nafnkennd í hinum stórkostlegu Stikluþáttum sínum, einkum Uppsalabóndann.

   Þetta fólk er manni mjög minnisstætt á margan hátt. Gísla þekkti maður reyndar ekki fyrr en Árni Johnsen og Ómar brugðu af honum huliðshjálminum.  Það var ekki langskólagengið. Nema í skóla lífsins. Gekk í farskóla aðeins nokkra daga á ævinni, en Aðalsteinn var að vísu á Núpsskóla í nokkra mánuði. Samt kunni það bæði að lesa, skrifa og reikna. Var menntað á sína vísu. Var vel viðræðuhæft um landsins gagn og nauðsynjar. Kunni að tjá sig. Maður kom ekkert að tómum kofunum hjá þessum merkilegu Arnfirðingum.

   Mjög er minnisstætt þegar Tryggvi Gíslason, þá útvarpsmaður, seinna skólameistari í MA, vitnaði í fréttaviðtal við Aðalstein á Laugabóli í útvarpinu í þættinum Íslenskt mál fyrir mörgum áratugum. Þá sagði Tryggvi að háskólaborgarar mættu taka sér málfar hans og framsetningu til fyrirmyndar. Svo mjög þótti honum, íslenskumanninum Tryggva, Aðalsteinn bera af í svörum sínum við spurningum fréttamanns. 

   Að kunna að lesa, skrifa og reikna þóttu til skamms tíma jafnvel lífsnauðsynlegir eiginleikar.  Á þessar listir var lögð höfuð áhersla í gömlu barnaskólunum. En það eru breyttir tímar. Nú er jafnvel fullyrt að sumt ungt fólk kunni alls ekki að lesa sér til gagns, hvað þá gera grein fyrir ýmsum hlutum á móðurmálinu. Hvað skyldi valda því?

   Kári G. Schram hefur nú heldur betur komið honum Þorbirni Péturssyni á Ósi í Mosdal á framfæri í heimildarmynd sinni Svarta gengið. Munum við aðeins nefna þá kvikmynd síðar. En Bjössi á Ósi er síðastur á lífi þeirra sem verið hafa einbúar í sveitum Arnarfjarðar eftir því sem við best vitum.


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31