A A A
  • 1988 - Viđar Örn Ísleifsson
« 1 af 2 »
Aðalsteinn Eiríksson er höfundur bókarinnar Saga Núpsskóla sem kemur út í júní, en Núpsskóli á 110 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni verður efnt til mikillar þriggja daga hátíðar á Núpi í júní.

Hátíðin hefst föstudaginn 23. júní n.k. og stendur fram á sunnudag 25. júní. Það eru Hollvinir Núpsskóla sem standa að þessari hátíð, en í félaginu eru nú um 200 meðlimir. Formaður samtakanna er Sigríður J. Valdimarsdóttir. Hún segir að gamlir nemendur á Núpi hafi reynt að koma saman á staðnum að minnsta kosti á þriggja ára fresti og stundum oftar. Nú eigi hins vegar að slá í klárinn og eru allir gamlir nemendur og velunnarar skólans hvattir til að mæta á hátíðina í júní.

Höfuðmarkmið samtakanna er að viðhalda minningu um starfsemi Núpsskóla, vinna að varðveislu og skráningu ýmissa muna. Þar er um að ræða kennslutæki, bækur, myndir, skólaspjöld, nemendaskrár, málverk og aðra hluti er notaðir hafa verið við kennslu. Einnig ýmsa aðra muni í eigu Núpsskóla er gætu talist einstakir fyrir sögu hans. Hvetja á til tengsla meðal nemenda og meðal helstu verkefna var að láta skrá sögu skólans sem nú er lokið. 

Aðalsteinn Eiríksson er ekki ókunnugur Núpsskóla og starfaði þar m.a. sem kennari. Hann er sonur séra Eiríks J. Eiríkssonar, sem var prestur á Núpi frá því „nýja“ kirkjan var vígð þar árið 1939. Þjónaði sr. Eiríkur í kirkjunni fram til 1960.

Núpsskóli var settur á fót að frumkvæði séra Sigtryggs Guðlaugssonar 4. janúar 1907 á Núpi í Dýrafirði og er því orðinn 110 ára. Þetta var einn fyrsti alþýðu- og ungmennaskóla landsins. Slíkir skólar risu í framfarahug aldamóta tuttugustu aldar. Rætur þeirra voru í hugsjónum danskra lýðháskóla sem lagaðir voru að íslenskum veruleika í mynd héraðsskóla þegar leið á öldina.

Saga Núpsskóla er í senn almenn skólasaga þjóðarinnar og saga afskekktra sveita á Vestfjörðum sem drógu með tímanum til sín hundruð íslenskra ungmenna í samfélag vinnu og gleði á eftirminnilegum morgni ævi sinnar.

Hollvinir Núpsskóla segja þessa sögu og lýsa bakgrunni hennar í myndum, nemenda- og kennaratali, sögu bygginga, viðhorfum og hugsunarhætti frumkvöðla og skólastjóra frá sr. Sigtryggi til Bjarna Pálssonar.

Þar segir frá stjórnunarháttum, félagslífi og samsetningu nemendahópsins frá Steini Steinari, Kristjáni Davíðssyni, Jóni úr Vör allar götur til Birgittu Jónsdóttur og Jóns Gnarr.

Þetta er allmikil bók sem gömlum nemendum, starfsmönnum og velunnurum gefst tækifæri til að kaupa í forsölu og skrá nafn sitt á heillaóskaskrá 110 ára afmælis skólans sem fagnað er með þessari útgáfu bókarinnar á Núpi um Jónsmessubil sumarið 2017.

Aðalsteinn segir að fyrri það fyrsta séu hollvinasamtökin að reyna að halda lífi í skólanum sem eigi mjög undir högg að sækja.

Stöðug barátta við að halda reisn staðarins

„Þetta er stöðug barátta fyrir því að halda reisn staðarins,“ segir Aðalsteinn. „Þetta var mikið menningarsetur sem setti nafn staðarins á kortið eins og önnur héraðsskólasetur á landinu. Þetta eru númer í menningarsögunni og ekki síst í sögu bændamenningar í landinu.

Núpsskóli verður auglýstur til sölu í þriðja sinn

Búið er að selja barnaskólann á Núpi sem var í sameign hreppsins og ríkisins til einkaaðila og hefur honum verið forðað frá eyðileggingu. Hins vegar blasir við að aðrar skólabyggingar á Núpi þarfnast mikils viðhalds, en enginn virðist vilja eiga þessi mannvirki sem nú eru í eigu ríkisins þrátt fyrir að Ríkiskaup hafi reynt að selja hann í tvígang. Til stendur að auglýsa skólann til sölu í þriðja sinn og í þrennu lagi. Aðalsteinn segir að Hollvinir Núpsskóla hafi hug á að taka að sér elstu bygginguna þar sem sundlaugin er, en hún var reist á árunum 1930 til 1940. Það sé þó vart gerandi fyrir svona félagsskap nema að fá dygga aðstoð opinberra sjóða og einkaaðila. Yngri hluti bygginga er frá 1955 og 1965.

Hollvinir reiðubúnir að leggja fram eigin vinnu

Sigríður J. Valdimarsdóttir, sem er fædd og uppalin á Núpi og kenndi einnig um tíma við skólann líkt og Aðalsteinn, segir að Hollvinir Núpsskóla séu reiðubúnir að leggja fram sitt vinnuframlag eftir aðstæð- um hvers og eins. Nokkur hópur hafi t.d. farið vestur síðastliðið haust til að loka gluggum í gamla skólanum og íþróttahúsinu og forða því frá skemmdum. Veitingarekstur hefur verið í skólanum undanfarin sumur og við sérstök tilefni að vetrarlagi, eins og þorrablót. Verður svo trúlega áfram. Sigríður segir að þau hafi þó heyrt af því að fólk í sveitinni fyrir vestan hafi sýnt því áhuga að kaupa gamla skólahúsið til niðurrifs. Það megi bara ekki gerast.

Verðmæti í menningarsögu Íslendinga

Aðalsteinn segir að hugmyndir Hollvina gangi út á að í elstu byggingunni verði safn um skólann og margvíslega menningu staðarins. Steinsnar frá skólanum er hinn merkilegi garður Skrúður, sem allir skrúðgarðar á Íslandi draga nafn sitt af. Hann er í góðri umhirðu. Þá er á staðnum fyrrum heimili séra Sigtryggs Guðlaugssonar, stofnanda skólans. Hann fæddist 27. september 1862 á Þremi í Garðsárdal í Eyjafirði en kvæntist Hjaltlínu Guðjónsdóttur frá Ingjaldssandi árið 1918. Þau eignuðust tvo syni sem báðir urðu þjóð- þekktir, en það eru veðurfræðingurinn Hlynur Sigtryggsson og Þröstur Sigtryggsson, sem lengi var stýrimaður og skipstjóri á varðskipum Landhelgisgæslunnar. Heimili þeirra hjóna er enn eins og þau skildu við það við fráfall sitt.

Aðalsteinn segir að hluti vandans við að koma endurnýjun gamla skólans í farveg sé að þar sé við tvö ráðuneyti að eiga. Annars vegar menntamálaráðuneytið og hins vegar fjármálaráðuneytið. Erfitt og svifaseint virðist vera að samræma aðgerðir þar á milli. Ef eigendaskipti verði á skólanum þá hætti hann að njóta ívilnunar sem skólastaður og þurfi þá t.d. að sæta hærri gjaldskrá hvað raforku og fasteignagjöld varðar. Slíkt sé óaðgengilegt og í raun dauðadómur yfir hugmyndum Hollvina varðandi endurreisn gamla skólans. Hann segir þó að vissu leyti betra hvað varðar rekstrardæmið að nú er búið að koma skólanum undir forræði Fasteigna ríkisins, en það sé þó verra er varðar menningarþátt dæmisins.

Sjá má nánari upplýsingar um Hollvini Núpsskóla og hátíðina í sumar á vefslóðinni 

www.nupsskoli.is.


Bændablaðið/HKr.

____________________________


Kæru þið öll.

Takið eftir!

Bókin, Saga Núpsskóla verður áfram seld í forsölu til og með 15. maí næstkomandi. Eftir forsölu verður bókin dýrari.
Endilega farið á síðuna  
www.nupsskoli.is.  og pantið bókina þar, þið sem eigið það eftir. Ekki gleyma að fylla í alla reiti.

 

Leiðbeiningar
Nafn: Full nafn eins og þið óskið eftir að skrá það í heillaóskaskrá
Netpóstfang
Skilaboð:
• Heimilisfang
• Kennitala
• Hve mörg eintök af bókinni
• Hvaða önnur nöfn eiga að koma fram á heillaóskaskrá



 

 

« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30