A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
03.11.2015 - 14:22 | Morgunblaðið,BIB

Helsta heyskaparverkfærið

Dýrfirðingurinn Bjarni Guðmundsson.
Dýrfirðingurinn Bjarni Guðmundsson.
« 1 af 2 »

• Bókin Íslenskir sláttuhættir eftir Bjarna Guðmundsson segir sögu heyskapar á Íslandi frá orfi og ljá til dráttarvéla • Mikilvæg samantekt um menningararf sem hélt lífi í þjóðinni í meira en þúsund ár

 

Dísilómur dráttarvélarinnar var rétt að hefja söng sinn á bernskuárum Dýrfirðingsins  Bjarna Guðmundssonar og naut hann því þeirra forréttinda, að eigin sögn, að kynnast heyskap meðan heyskapurinn var enn handverk. Taktur og hvinur frá ljá og hrífu er honum enn í fersku minni og alveg ljóst hvaðan áhuginn á handverkinu kemur.

„Fæddur í sveit og alinn upp á þeim tíma þegar handverkfærin og hestarnir voru við það að víkja fyrir vélvæðingunni, sjálfri dráttarvélinni, kynntist ég verklagi sem haldið hafði lífinu í Íslendingum allar aldirnar á undan og það vakti snemma áhuga minn. Jókst hann svo heldur við störf mín fyrir Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri,“ segir Bjarni, en hann gaf nýlega út bókina Íslenskir sláttuhættir, þar sem hann fjallar um öflun heyforðans frá tímum íslenska ljásins til ensku ljáblaðanna, að hestasláttuvélinni og allt til daga dráttarvéla.

 

Félagsleg erfiðisvinna

Slátturinn var allt annað en auðveldur og þó að margir sjái hann rósrauðum augum segir Bjarni að í samanburði við verkaðferðir í dag hafi afköstin verið lítil og vinnan erfið.

„Þessi verk voru enginn dans á rósum en slátturinn var verk sem allir þurftu að sinna frá miðjum júlí fram í miðjan september. Verkfærin voru smá og afköstin lítil en heyskapurinn var forsenda þess að fólk gæti lifað af veturinn. Orfið og ljárinn voru ásamt árinni þau áhöld sem héldu lífi í þjóðinni.“

Heyskapur var þó ekki eingöngu erfiði og böl því Bjarni segir mikinn félagsskap hafa verið í slættinum.

„Þrælasláttur, þó nafnið gefi allt annað til kynna en góðar stundir, var félagslegt verk þar sem nokkrir sláttumenn gengu í röð og slógu saman í takti. Það var margt í heyslættinum sem var félagsleg framkvæmd miðað við það sem tíðkast í dag en nú situr bara einn karl eða kona með heyrnartól og farsíma í traktornum og í litlum samskiptum við aðra nema í gegnum símann. Áður fyrr gat fólk sest niður, spjallað saman, setið í þögninni eða sungið saman. Það voru bæði karlmenn og konur sem gengu að þessum verkum, ungir og gamlir. Ég get því séð fyrir mér glaðværðina þegar vel gekk. Við sjáum t.d. heyskap á Hvanneyrarengjum alveg fram undir miðja síðustu öld, þá voru tíu til tólf sláttukarlar og jafn margar konur að raka og kannski slá líka.“

 

Hægfara þróun í þúsund ár

Heyskapur var með svipuðu móti á Íslandi frá upphafi byggðar og langt fram á 19. öldina en Bjarni segir engu að síður að alltaf hafi einhver þróun átt sér stað.

„Fyrstu þúsund árin hér á landi virðast sáralitlar breytingar á verkháttum hafa orðið. Áhöldin eru svipuð en greina má þó einhverja þróun. Þannig eru fyrstu áhöldin sem við höfum upplýsingar um svipuð þeim sem voru notuð í Vestur-Evrópu en síðan virðist taka við sérstök þróun hér á landi, séríslensk þróun, í takti við þá landshætti sem einkenna íslenska náttúru, þ.e. þúfurnar sem einkenna íslenskt graslendi. Íslenski ljárinn er af þeim sökum styttri en margir hinna erlendu ljáa.“

Það er ekki fyrr en um 1870 sem hingað til lands berast ensku ljáblöðin – bakkaljáir voru ljáir með þeim nefndir.

Torfi Bjarnason, síðar skólastjóri Búnaðarskólans í Ólafsdal, kynnti ensku ljáblöðin fyrir Íslendingum og þau urðu fljótt almenn hér á landi. Koma ljáblaðanna um 1870 verður að teljast ein mestu tímamót í íslenskri búnaðarsögu og í hönd fór nærri hálfrar aldar notkunarskeið bakkaljáanna.“

Segir Bjarni að með hinum nýju ljáum hafi sláttumenn afkastað mun meiru og gömlu ljáirnir mjög brátt heyrt sögunni til.

„Ensku ljáblöðin gerðu sláttinn léttari, auðveldara var að halda þeim beittum og afköstin jukust. Flestir gömlu ljáirnir voru heimasmíðaðir og því allur gangur á því hversu gott handverkið var og efnisvalið. Þá var það helst ef menn fundu gömul vopn sem gott stál var í að hægt var að gera góð verkfæri. Það gat þannig verið happafengur að finna gamalt sverð. Ólíkt nágrannalöndum okkar varð hins vegar aldrei til sérhæfð verksmiðjusmíði á ljáum hér á landi. Hver og einn var að basla við þetta í sinni sveit, þótt til hafi verið þeir sem þóttu öðrum snjallari ljáasmiðir.“

 

Hesturinn og dráttarvélin

Notkun hesta við slátt var Íslendingum ekki hulin aðferð en af spjallinu við Bjarna má ætla að landinn hafi ekki tileinkað sér aðferðafræðina með sama hætti og gerðist í nágrannalöndum okkar.

„Hestatímabilið var að sönnu til staðar á Íslandi en vélfært og slétt land var af skornum skammti. Hestadráttarvélar breiddust því hægt út en urðu algengar hér milli 1920 og 1930, þá fjölgaði þeim mikið hérlendis.“

Með tilkomu dráttarvélanna hverfur hesturinn af akrinum mjög hratt og segist Bjarni helst hafa tvær skýringar á hröðum breytingum upp úr 1930.

„Í seinni tíð hafa Íslendingar verið fljótir að tileinka sér nýja tækni og það gildir jafnt um dráttarvélina á sínum tíma og tölvutæknina í dag. Sjálfur held ég þó að hluta skýringarinnar sé að finna í því að Íslendingar hafa alltaf verið miklir dýravinir. Okkur hafi ekki fallið í geð þessi dráttarhestanotkun, þ.e. að beita hestum til erfiðisdráttar í jarðvinnslu eða við slátt. Ég held að húsmæður hafi því ekki sett sig upp á móti því að bóndinn keypti dráttarvél.“

Vélvæðingin skall hratt á og var flestum fagnaðarefni enda segir Bjarni að gömlu handverkin hafi ekki hentað öllum.

„Sláttur með orfi og ljá er mönnum misjafnlega gefinn en þegar þú sest upp í dráttarvél þarftu eingöngu að valda vélinni því hún vinnur svo verkið að mestu. Þannig börðust t.d. menn um hverja dráttarvél sem kom til landsins og sérstaklega undir lok seinna stríðsins þegar vinnuafl var að hverfa úr sveitum og til annarra starfa þar sem annaðhvort vantaði vinnuafl eða kaupið var betra. Dráttarvélar með sláttuvélum komu þá sem lausn á þeim vanda sem hafði skapast.“

Dráttarvélin var þó engin töfralausn því víða var land þýft og manna beið mikil vinna við túnrækt.

„Það takmarkaði víða útbreiðslu sláttuvélarinnar að vélfært land var ekki til. Helst voru slétt engi sem beita mátti sláttuvélunum á í fyrstu.“

 

Fagur ljómi fortíðar

Orfið og ljárinn eru löngu horfin úr skemmum íslenskra bænda. Kannski heldur einn og einn verkfærunum við til minningar um það sem eitt sinn var en sem almennt vinnutæki er tími þessara merku verkfæra liðinn. Bók Bjarna, Íslenskir sláttuhættir, er þó engu að síður áhugaverð og varðveitir sögu og menningu heyskapar á árum áður.

„Já, bókin er að hluta um það hvernig orfi, ljá og hrífu var beitt og að hluta alþýðlegt fræðirit um tilurð þeirra og sögu. Hins vegar er vaxandi áhugi á bæði sögunni og aðferðinni að slá með orfi og ljá. Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um hvar hægt sé að fá sér orf og ljá og síðasta sumar efndum við til örnámskeiðs á Hvanneyri um slátt með orfi og ljá.“

Bók Bjarna er skemmtilega myndskreytt og vel upp sett en hann segir sjálfur að hún sé fyrst og fremst samantekt á því helsta enda gífurlegt safn heimilda til.

„Ég átti viðræður við fjölda heimildarmanna, fékk aðgang að spurningaskrám Þjóðminjasafnsins um heyskap og eitt og annað sem kom til. Helst var það vandamál að ná utan um þetta allt saman en ég held að það hafi tekist ágætlega. Ég vona að mér hafi í það minnsta tekist að taka saman og rekja söguna um þróunina hér á landi, hvernig sláttuhættir hafi breyst í aldanna rás og ekki síst að koma nokkrum fróðleik til varðveislu fyrir framtíðina. Hann er hluti af menningarsögu okkar.“

 

Morgunblaðið mánudagurinn 2. nóvember 2015.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31