A A A
  • 1911 - fæddist Matthías Guðmundsson
17.10.2015 - 21:28 | Morgunblaðið,BIB

Hættur að skrifa – held ég!

 Jón Páll Halldórsson á Ísafirði með fimmtu bók sína, Inndjúpið. Ljósm.: Sigurjón Sigurðsson.
Jón Páll Halldórsson á Ísafirði með fimmtu bók sína, Inndjúpið. Ljósm.: Sigurjón Sigurðsson.

• Inndjúpið 5. bók Jóns Páls Halldórssonar

 

Sögufélag Ísfirðinga sendi í dag frá sér bókina Inndjúpið eftir Jón Pál Halldórsson. Í þessari 5. bók sinni um mannlíf fyrir vestan segir hann frá bæjum og búendum í innanverðu Ísafjarðardjúpi á nýliðinni öld.

Eftir að Jón Páll hætti að vinna hefur hann unnið ötullega að varðveislu vestfirskrar sögu og menningar með bókaskrifum. „Þegar ég hætti í launaðri vinnu varð ég að gera eitthvað til þess að drepast ekki úr leiðindum og fór að taka saman fróðleiksmola um það sem ég þekkti best til,“ segir hann.

Um miðja öldina var nánast búið á öllum bæjum í Inndjúpinu og voru um 400 íbúar í fjórum innstu hreppum Djúpsins. „Þetta breytist hratt,“ segir Jón Páll. „Þegar ég lauk við bókina í sumar var hefðbundinn búskapur stundaður á átta bæjum en nú aðeins á fjórum,“ áréttar hann og bætir við að mikil eftirsjá sé að öllu þessu fólki. „Mér þótti vænt um þetta fólk allt, kynntist stórum hluta. Þetta var mikið öndvegisfólk og ég vil ekki að það gleymist.“

 

Lokun skóla dauðadómur

Í bókinni bendir Jón Páll á að þó að íbúarnir hafi fyrir seinni heimsstyrjöldina verið án vega, brúa og hafnarmannvirkja hafi þeir komist vel áfram, einkum vegna öflugrar sjósóknar. „Þegar ég var hjá frændfólki mínu í Odda í Ögurvík í þrjú sumur voru tveir staurar með battingum á lagðir yfir Ögurá svo hægt væri að ganga yfir,“ segir hann og minnir á að allar aðstæður hafi verið frumstæðar. Djúpvegurinn hafi ekki verið formlega opnaður fyrr en 1975 eftir þriggja áratuga vinnu og seinagangurinn hafi átt sinn þátt í byggðaþróuninni, en við lok áttunda áratugarins hafi íbúum fækkað í 250. „Með lokun Reykjanesskólans, þvert á yfirlýsta byggðastefnu stjórnvalda, var stoðunum endanlega kippt undan búsetu á svæðinu,“ segir hann. „Það var náðarhöggið.“

Jón Páll leggur áherslu á að íbúar með sæmilega afkomu í Djúpinu hafi byggt hana á sjávarútvegi en ekki landbúnaði. Þeir hafi saltað fiskinn og selt til Ísafjarðar en þegar farið var að hraðfrysta fiskinn og stærri bátar komu til sögunnar hafi þeir átt erfitt uppdráttar.

Þó að búskapur hafi nær lagst af í Djúpinu hafa afkomendur ábúenda haldið tryggð við svæðið og sumarbústöðum fjölgar ört. „Þetta verður sumarbústaðaland þeirra sem eiga heima í Útdjúpinu og annarra sem eiga rætur í Inndjúpinu,“ segir Jón Páll. „En nú er ég orðinn 86 ára og hættur að skrifa. Ég er ákveðinn í því – held ég!“

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30