A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
Útibú Sparisjóðs Keflavíkur á Ísafirði, þar var einum starfsmanni sagt upp. Mynd: bb.is
Útibú Sparisjóðs Keflavíkur á Ísafirði, þar var einum starfsmanni sagt upp. Mynd: bb.is
Jón Bjarnason þingmaður Norðvesturkjördæmis segir það vera eftir bókinni að þegar stjórnun og ábyrgð færist úr héraði til manna sem búa í fjarlægum landshlutum er fyrst gengið á þá sem fjærst búa. Þetta segir hann á bloggsíðu sinni í kjölfar uppsagna Sparisjóðs Keflavíkur á Vestfjörðum. „Ekki veit ég hvað það starfsfólk hefur í laun sem hér er verið að segja upp, en varla hefur það sett sparisjóðinn á slig. Hinsvegar munar um hvert starf á Vestfjörðum og þjónustustigið skiptir miklu máli. [...] Komið hefur fram í fréttum að tap sparisjóðsins hafi verið 10,6 milljarða króna á fyrstu 6 mánuðum ársins sem er geigvænlegt og hlýtur að krefjast nánari skýringa. Athygli vekur að með skýringum við árshluta uppgjör kemur einnig fram að lán Sparisjóðs Keflavíkur til stjórnarmanna og fyrirtækja þeim tengdum hefur farið úr 194 milljónum króna um síðustu árámót í 1,6 milljarða króna sex mánuðum síðar", segir á bloggsíðu Jóns.

Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að skera niður 3,5 stöðugildi á Vestfjörðum og stytta opnunartíma og loka alveg afgreiðslunni á Borðeyri. „Nú er það svo að sparisjóðunum er ekki ætlað að vera í áhættusæknum rekstri, kaupum og sölu verðbréfa í áhættusjóðum eða almennum fasteignaviðskiptum. Þeir eru fyrst og fremst viðskiptasjóðir. Það væri því fróðlegt að vita hvernig þetta tap er saman sett og hve stór hluti af þessum 10,6 milljörðum hefur tapast sérstaklega vegna viðskipta á Vestfjörðum. Varla dugar þessi stórmannalega aðgerð Sparisjóðsins að segja upp fjórum manneskjum á Vestfjörðum og loka afgreiðslunni á Borðeyri til þess að vega á móti þessu 10,6 milljarða tapi", segir Jón.

 

Hann segir að Vestfirðingar hljóti að spyrja um t.d. hvað stjórnendur Sparisjóðs Keflavíkur hafi í laun og hvort þeir hafi lækkað sitt eigið kaup í takt við niðursveifluna. Jafnframt hljóti þeir að spyrja hvort hlutfallslega hafi verið sagt upp sama fjölda starfsfólks í höfuðstöðvunum eða á suðvesturhorninu. „Með nútíma tækni er hægt að vinna mörg störf einmitt tengt fjármálastarfsemi óháð staðsetningu. Það væri þess vegna hægt að færa störf frá höfuðstöðvum sjóðsins til Vestfjarða. Þar ræður vilji stjórnenda fyrst og fremst ferð."

 

Eins og kunnugt er sameinuðust Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóðurinn í Keflavík á síðasta ári og er nýr sjóður starfræktur undir nafni hins síðastnefnda. Átta útibú eru á Vestfjörðum og samkvæmt heimildum fréttastofu Útvarps er nú til alvarlegrar athugunar að loka a.m.k. tveimur þeirra en hvar hefur ekki verið formlega ákveðið.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31