A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
07.03.2015 - 20:53 | Í ljósi liðinna daga á Þingeyrarvefnum:

Frá aðalfundi Búnaðarfélags Auðkúluhrepps: Kalli túkall settur undir lás og slá!

Aðalfundurinn í fullum gangi. Frá vinstri. Hildigunnur Guðmundsdóttir, Auðkúlu, ritari, Hreinn Þórðarson, formaður og Steinar Ríkharður Jónasson, einn af yfirmönnum endurskoðunardeildar. Á myndina vantar nokkra af félagsmönnum sem höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Ljósm. Hallgr. Sveinsson, ritari félagsins.
Aðalfundurinn í fullum gangi. Frá vinstri. Hildigunnur Guðmundsdóttir, Auðkúlu, ritari, Hreinn Þórðarson, formaður og Steinar Ríkharður Jónasson, einn af yfirmönnum endurskoðunardeildar. Á myndina vantar nokkra af félagsmönnum sem höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Ljósm. Hallgr. Sveinsson, ritari félagsins.
Aðalfundur Búnaðafélags Auðkúluhrepps fyrir árið 2007 var haldinn í Mjólkárvirkjun um daginn. Í skýrslu stjórnarformanns, Hreins Þórðarsonar, bónda á Auðkúlu, kom fram að starfið á árinu var í svipuðu formi og verið hefur, en búnaðarfélögin eru sem kunnugt er grunneiningar bændasamtakanna í landinu.Það kom meðal annars fram á fundinum, að Hreinn formaður flutti lambfé í mörgum ferðum frá Ketilseyri í Dýrafirði yfir Hrafnseyrarheiði að Auðkúlu í vor. Stóðu þessir flutningar yfir í marga daga.
Þrastarhjón höfðu komið sér fyrir með búskap sinn undir húsinu á dráttarvélinni sem flutti féð. Er skemmst frá því að segja að hjónin komu upp ungum sínum eins og ekkert hafi í skorist, þrátt fyrir þessa miklu flutninga og þótt dráttarvélin væri fjarverandi frá Ketilseyri langtímum saman. Mikill er máttur náttúrunnar og smáfuglarnir stórkostlegir!


Þá kom fram í sambandi við hrútamál, að grái, veturgamli hrúturinn Friðberts í Hólum, sem gekk úti í vetur í Vestfirsku Ölpunum, sást á Lokinhamratúninu um daginn í slagtogi með nokkrum kindum. Var hann furðu vel á sig kominn, þó reyfið væri tætingslegt á kalli.


Og víkur nú sögunni að Karli, fjögurra vetra hrút, í eigu Guðrúnar Steinþórsdóttur á Brekku í Dýrafirði, ættuðum frá Ketilseyri, en gekk með móður sinni lambssumarið í svokölluðu Karlsstaðagili ofan og utan Karlsstaða í Arnarfirði. Sagt var frá því að um daginn var hrútur þessi, sem gengur undir nafninu Kalli túkall, settur undir lás og slá, dæmdur í arrest, viku innilokun upp á vatn og brauð eins og sagt er. Ástæðan: Kynferðisleg áreitni við ærnar á Brekkudal. Var Kalli túkall á sífelldum hlaupum á eftir ánum á dalnum, sem að sjálfsögðu sýndu honum engan áhuga. Voru bændur og búalið, ásamt vegfarendum, farnir að veita háttalagi Kalla túkalls athygli. Er það mjög óvanalegt að hrútar láti svona eins og vitlausir menn að sumarlagi. Þurfti frú Guðrún að fá meðöl hjá Sigríði dýralækni á Ísafirði handa Kalla og er hann nú úr prísund leystur eftir afplánun, frelsinu feginn og hagar sér nú eins og almennilegur hrútur.

Það kom fram á aðalfundinum að svona háttalag hrúts hefði átt sér stað á Auðkúlu fyrir mörgum áratugum og þurfti að taka hann úr umferð líkt og Kalla túkall og þótti rart.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31