Frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða
Námsvísir Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir veturinn 2014 – 2015 var að koma út og hefur honum verið dreift á heimili og fyrirtæki á Vestfjörðum.
Í námsvísinum eru auglýst um 70 námskeið og námsleiðir í 7 flokkum. Er námið sem boðið er mjög ólíkt að innihaldi og lengd. Með því vill Fræðslumiðstöðin koma til móts við sem flesta, enda kappkostar hún að þjóna öllum íbúum Vestfjarða hvar sem þeir búa og hvaða menntun sem þeir hafa.
- Í tungumálaflokkum er íslenska fyrir útlendinga auk ensku, pólsku, spænsku og þýsku.
- Í tölvum eru námskeið svo sem Tölvur ekkert mál, sem er hugsað fyrir fólk með litla reynslu af tölvum og Nand2Tetris sem er fyrir þá sem vilja læra forritun.
- Af tómstundum má nefna vefnað og víravirki og matargerð og málmsuða.
- Í flokknum Endur- og símenntun kennir ýmissa grasa svo sem bókhald og lestur ársreikninga, brunaþéttingar, gæðakerfi fyrir einyrkja og undirverktaka, hugræna atferlismeðferð, sálrænan stuðning, fundarsköp og lög og reglur á vinnumarkaði.
- Réttindanám verður með hefðbundnar greinar í skipsstjórn og vélgæslu, en einnig svæðisleiðsögunám og þjónustunámskeið.
- Af námsleiðum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins má nefna Grunnmenntaskólann og Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum, Starfsnám á samgagna- umhverfis- og framkvæmdasviði og Sterkari starfsmann.
- Í námi fyrir fatlaða er m.a. boðið uppá sund, dans, söng, matreiðslu og handavinnu.
Auk kennslu námskeiða og námsleiða veitir Fræðslumiðstöðin fólki yfir tvítugt náms- og starfsráðgjöf því að kostnaðarlausu. Er fólk hvatt til að nýta sér það.
Frekari upplýsingar eru í Námsvísi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, á vefnum frmst.is, á facebook undir Fræðslumiðstöð Vestfjarða, í einblöðungum sem gefnir eru út á nokkra vikna fresti eða með því að hringja í síma 456 5025.