A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
12.04.2017 - 07:54 | Björn Ingi Bjarnason,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Fólk fær útrás í hlátrinum með Guðna og Jóhannesi

„Það er létt yfir salnum og mikið hlegið,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra. Hann og Jóhannes Kristjánsson fara nú um landið með skemmtidagskrána Eftirherman og orginalinn og á laugardagskvöld voru þeir félagar í Salnum í Kópavogi. Það var 6. skemmtun þeirra og hafa allar verið vel sóttar.

Í kvöld, miðvikudagskvöld, 12. apríl, verða þessi gleðimenn aftur í Salnum, svo og að kvöldi sumardagsins fyrsta og svo 27. apríl. Einnig eru fleiri sýningar í Landnámssetrinu í Borgarnesi á dagskrá og meira eftir atvikum.

 

Eins og bræður

„Við höfum jafnan fengið fullt hús. Fólk fær útrás í hlátrinum og segist ekki hafa skemmt sér vel jafn lengi, sem eru mikil meðmæli,“ segir Guðni Ágústsson. Fyrirkomulag skemmtana þessara er þannig að Guðni og Jóhannes eru sitt á hvað á sviðinu – þar sem sá fyrrnefndi segir sögur en hinn bregður sér í líki ýmissa manna. Saman koma þeir svo í lokin – og hafa þá jafnan verið klappaðir fram. „Við Jóhannes erum eins og bræður, höfum lengi þekkst og þessar kvöldstundir eru afar skemmtilegar,“ segir Guðni.

 

Benedikt bætist í hópinn

Jóhannes Kristjánsson segist afar ánægður með hvernig til takist á samkomum þeirra Guðna. Þar fylgi þeir ákveðnum þræði sem ákveðinn sé fyrir fram. Svo bætist alltaf eitthvað nýtt við – rétt eins og atburðir líðandi stundar gefi tilefni til. Meðal þekktra fyrirmynda Jóhannesar eru Ólafur Ragnar Grímsson, Halldór Blöndal, Alfreð Þorsteinsson og Vilhjálmur Egilsson svo nokkrir séu nefndir.

Á skemmtunum nú hefur Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra bæst í þennan hóp – og hefur hann á skemmtununum fjallað um hagfótinn og vegi í völundarhúsi viðskiptalífsins. Einnig hefur sést til sjónvarpsmannsins breska David Attenborough, sérfræðings í náttúruvísindum, en í gervi Attenborough hefur Jóhannes sagt frá sköpunarsögu Guðna Ágústssonar, sem er maður margra alda.


Morgunblaðið

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31