A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir
15.09.2016 - 19:14 | Hlynur Þór Magnússon,Morgunblaðið,Reykhólavefurinn,Vestfirska forlagið

Firðirnir tíu sem tennur í sög

Mjóifjörður og Kjálkafjörður og Litlanes á milli. Ljósm. Morgunblaðið/sbs.
Mjóifjörður og Kjálkafjörður og Litlanes á milli. Ljósm. Morgunblaðið/sbs.
« 1 af 3 »

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður segir í Morgunblaðinu í dag frá ferð sinni um Reykhólahrepp endilangan, lýsir því sem fyrir augu ber á leiðinni og víkur að sögunni hér og þar. Auk þess ræðir hann stuttlega við Ernu Ósk Guðnadóttur bónda í Gufudal, Þráin Hjálmarsson bónda og skólabílstjóra á Hríshóli í Reykhólasveit og Gísla Á. Gíslason bónda og mjólkurbílstjóra í Efri-Rauðsdal á Barðaströnd, sem flytur mjólk frá bæjum á Barðaströnd og Rauðasandi allt suður í Búðardal tvisvar í viku.

 

Myndin sem hér er fremst fylgir grein Sigurðar Boga í Morgunblaðinu. Hann tók hana sjálfur úr vél Flugfélags Íslands á leið frá Ísafirði til Reykjavíkur 30. júlí á nýliðnu sumri. Textinn með henni er í heild á þessa leið: Flugsýn. Mjóifjörður og Kjálkafjörður og Litlanes á milli. Firðir eru þveraðir og brúaðir og afstaðan sést vel úr lofti.

 

Án þess að hér sé verið að mæla með einum fjölmiðli umfram aðra mætti af þessu tilefni nefna eitt: Netáskrift að Morgunblaðinu er mun ódýrari en áskrift að prentaða blaðinu og hefur auk þess þann kost, einkum þar sem póstferðir eru strjálar, að hægt er að lesa blaðið í heild á netinu strax upp úr klukkan fjögur að morgni útgáfudags, bæði á pdf-formi og html-formi.

 

Brot úr frásögn Sigurðar Boga:

 

Wathne-systur og Ameríkuvegur

 

Um Múlasveit, frá Kjálkafirði að Klettshálsi, eru um 20 kílómetrar. Klettsháls er 332 metra hár fjallvegur og stundum erfiður yfirferðar á veturna. Þegar komið er yfir þennan hrygg að austan tekur við Kollafjörður, þar sem flugbraut við bæinn Eyri, skammt frá þjóðvegi, vekur athygli. Skammt ofan við brautina er svo sumarhús sem er í eigu hinna þekktu Wathne-systra og Harald Snæhólm flugstjóra. Þær eru af íslenskum ættum en búa í New York og hefur orð farið af ríkidæmi þeirra þar.

 

Reyndar er fleira í þessari eyðibyggð sem minnir á Bandaríkin, þar sem hinn frægi vegur Road 66 þverar landið. Úr botni fjarðarins liggur leiðin upp á Kollafjarðarheiði sem liggur yfir í Ísafjarðarveg - og er þetta fjallvegur sem er merktur F-66 í vegaskrá.

 

Harðfiskur og Börn náttúrunnar

 

Þegar komið er út Kollafjörð er ekið fyrir Skálanes. Þar lá vegurinn áður um bæjarhlað en var færður fyrir nokkrum árum. Fram undir aldamót var þarna rekin bensínsala og kaupfélagsbúð og því umhverfi sést bregða fyrir í kvikmyndinni Börnum náttúrunnar. Þá var verslunin þekkt fyrir harðfiskinn; rikling sem Katrín Ólafsdóttir seldi og var jafnframt fyrirsæta ljósmyndaglaðra túrista.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30