A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
14.08.2015 - 07:26 | Fréttablaðið,BIB

Fegurð Vestfjarða á hjóli - Vesturgatan

Farið um hinn magnaða veg sem Elís Kjaran ruddi. Ljósm.: Tómas Jónsson.
Farið um hinn magnaða veg sem Elís Kjaran ruddi. Ljósm.: Tómas Jónsson.
« 1 af 2 »

Ein alfallegasta leið sem hjólreiðamenn geta valið sér er Vesturgatan sem einnig er stundum nefnd Svalvogsleið. Hún liggur frá Þingeyri við Dýrafjörð á Vestfjörðum og fyrir nesið sem skilur að Dýrafjörð og Arnarfjörð. Farið er fyrir Sveinseyri og Keldudal, inn í Svalvoga, þaðan eftir ströndinni inn í Lokinhamradal, aftur eftir ægifagurri ströndinni inn í Stapadal og nesið þverað innarlega eftir Álftamýrarheiði og fram hjá Kirkjubóli og þaðan aftur inn að Þingeyri. Leiðin er ríflega 50 kílómetra löng, afar fjölbreytt og ægifögur. Leitun er að leið þar sem hafið er eins nálægt hjólreiðamönnum og ekki verður það nær en suður af Svalvogum þar sem hjólað er svo til í sjávarmálinu eftir fremur grýttri leið sem rudd var af hinum landsfræga vegagerðarmanni Elís Kjaran frá Þingeyri. Verk hans hefur verið lofað af mörgum, enda ekki hægt um vik að búa þar til akveg sem einnig má keyra á vel búnum jeppum. Hjólreiðafólk sem ann hrikalegu landslagi og kýs að takast á við erfiðar leiðir og njóta náttúru landsins eins og hún birtist fallegust stendur í þakkarskuld við Elís fyrir verk hans.

 

Enn ófær bílum en ekki hjólum

 

Í þessari stórkostlegu hjólaferð tóku þátt alls 19 hjólreiðamenn og þar af nokkrar hörkukonur og fóru tvær þeirra alla leiðina, en aðrar voru sóttar áður en kom að mikilli hækkun upp Stapadal og yfir fjall sem rís í 583 metra hæð. Þar tók vel á hjólreiðakappana, stöðug hækkun sem á stundum var of brött til að hjóla og var þá hjólið reitt og talsvert gengið. Þegar brattinn var orðinn svo mikill að ekki var lengur hægt að reiða hjólið var fátt annað til ráðs en að setja það á öxlina og arka upp síðasta spölinn og það að miklu leyti í snjó. Mikil snjóalög sem hlóðust upp á þeim þunga snjóavetri sem sá síðasti var eru ekki enn horfin og nokkuð í að þeir stóru skaflar sem urðu á vegi okkar hverfi, þó ef til vill síðsumars. Þeir torvelduðu för en voru enn ein tilbreytingin í þessum frábæra túr, en gera það að verkum að leiðin er ekki fær bílum sem stendur. Ef þeir hefðu verið bráðnaðir, sem eðlilegt er á þessum árstíma flest ár, hefði verið hægt að hjóla mun meira og upp þetta bratta fjall þar sem vegurinn hlykkjast upp eftir því.

 

Skaflar og sturluð niðurleið

 

Þegar upp fjallið var komið var ekki nema um 7 stiga hiti og talsverður vindur og hjólreiðafólki því ekki til setunnar boðið að húrrast niður hinum megin. Þar efst tóku reyndar við enn aðrir skaflar sem gaman var að reyna að hjóla niður og krefst það helst þess að hratt sé að þeim komið og reynt að halda ferðinni fljótandi á sköflunum. Er þá reyndar hætt við byltum sem meðreiðarfólk skemmti sér við að sjá en glíman því skemmtilegri og lendingin oftast svo mjúk að engin hætta stafaði af. Þetta þekkir hjólreiðafólk sem farið hefur Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur og hafa flestir gaman af. Þegar sköflunum sleppti tók stórkostleg skemmtun við og hraðinn niður fjallið æði mikill. Á örskotsstundu var komið niður á flatann í Kirkjubólsdal og aðeins ljúf hjólaleið eftir niður hann og að malbikuðum veginum inn að Þingeyri.

 

Sól, hiti og fegurðarölvun

 

Ekki gátu leiðangursmenn verið heppnari með veður, en sól skein svo til alla leiðina og hiti svo vænn að flestir voru afar léttklæddir. Þó er vissara að vera við öllu búinn og ekki kom sér illa að hafa vindjakka þegar upp á fjall var komið og vindkælingin sem fylgir hraðanum niður tekur við. Í svona ferðum mætir náttúran hjólreiðafólki á afar fjölbreyttan hátt. Stundum er hitinn að kæfa fólk, t.d. ef farið er með vindi eða klifrað upp fjöll en þá er það innri hitinn sem tekur við. En þegar farið er hátt, á móti vindi eða hratt niður er svo mikil vindkæling að hlífðarfatnaðar er þörf. Rétt er að hafa þetta í huga á lengri leiðum og skiptir þá engu hvort sól skín í heiði. Það voru sælir og glaðir hjólreiðagarpar sem rúlluðu inn að Þingeyri hálfölvaðir af fegurð okkar lands og þeirrar stórkostlegu náttúru sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða. Þetta var fyrsta hjólreiðaferð undirritaðs um Vestfirði en víst er að þær verða fleiri á næstu árum og ekki skortir hjólreiðaleiðirnar þar fremur en í öðrum landshlutum. Ekki sakaði í lok ferðar að henda sér í ágæta sundlaug þeirra Þingeyrarbúa og við tók grillhátíð, kvöldvaka og upprifjun þessa ógleymanlega dags. Vestfirðir eru ævintýri líkastir og einn kosturinn við ferð þangað er að svo fáir hafa uppgötvað fegurð þeirra og túristar enn fáséðir.

 

Finnur Thorlacius
Fréttablaðið 14. ágúst 2015

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31