A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
09.11.2016 - 11:11 | Hildur Inga Rúnarsdóttir

Er hver vegur að heiman, vegurinn heim?

Jónina Hrönn skilar meistaraverkefni sinu
Jónina Hrönn skilar meistaraverkefni sinu

Kæru Dýrfirðingar, heima og heiman. Mig langar að segja ykkur frá niðurstöðum rannsóknar minnar sem ég vann í tengslum við meistaraverkefnið mitt –en því er nýlokið og því óhætt að segja frá niðurstöðunum. Ástæða þess að mér finnst þessar niðurstöður eiga erindi við ykkur er sú, að rannsóknin beindist að unga fólkinu okkar, hvert leið þeirra lá eftir að grunnskólanum lauk og hvar þetta fólk, sem svo sárlega vantar inn í samfélagðið hérna hjá okkur, elur manninn í dag.
       Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem útskrifast hafa úr 10. bekk Grunnskólans á Þingeyri frá árunum 1994 – 2012. En vorið 1994 var í fyrsta skipti sem útskrifaðir voru 10. bekkingar þaðan.  Þetta voru 127 einstaklingar sem nú eru á aldrinum 18 til 36 ára. Svörun var mjög góð, eða um 70%. Niðurstöðurnar benda til þess að margir gætu hugsað sér að koma aftur heim ef þeir eða maki þeirra fengi atvinnu við það sem þeir hafa menntað sig til. Langflestir fóru í skóla strax eftir grunnskóla og margir hverjir hafa einnig háskólagöngu að baki – eða eru í háskóla. Þeim þykir mjög vænt um heimabyggðina og finnst mikilvægt að börnin þeirra kynnist henni einnig. Flestir eiga enn fjölskyldur og ættingja hér fyrir vestan og koma eins oft og þeir geta til þess að heimsækja fjölskyldu og bernskuslóðir. Nánast allir svöruðu því til að þeir væru stoltir af því að vera Dýrfirðingar. Þeir sem eru búsettir hér í heimabyggð eru ánægðir með það val og eru ekkert að hugsa um að flytja. Þeir setja ofarlega tengslanet, náttúruna og lægra húsnæðisverð fyrir búsetuvali, en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eða erlendis nefndu skólagöngu sem aðalástæðu fyrir því að þeir fluttu þangað til að byrja með, en væru núna komnir með vinnu og fjölskyldu sem erfitt væri að flytja um set. Starfsferill þessa unga fólks okkar er mjög mismunandi og má nefna þar á meðal lækna, lögfræðinga, ráðgjafa, kennara á öllum skólastigum, sjómenn, atvinnurekendur, bændur, smiði, bifvélavikja, hárgreiðslufólk og snyrtifræðinga svo fátt eitt sé nefnt. – Svo við sjáum að auðurinn er mikill. -
       Það sem mér finnst mikilvægt að draga fram í umræðuna er það að ungt fólk hefur ekki – eða a.m.k. fá tækifæri til þess að flytja út á land þegar háskólagöngu eða annarri framhaldsmenntun er lokið, því það eru ekki störf í boði fyrir unga, menntaða fólkið okkar. Á meðan eldist fólkið í litlu plássunum og yngra fólkinu fækkar, börnunum fækkar, endurnýjun verður lítil sem engin og menntunarstig lækkar. Þetta verður hringrás sem erfitt verður að sporna við ef ráðamenn þessarar þjóðar og sveitarstjórnarmenn snúa ekki bökum saman og vörn í sókn og gera það kræsilegt og mögulegt fyrir unga fólkið okkar að koma aftur heim með nýjar og ferskar hugmyndir til að vinna að endurnýjun byggðarlaganna. Okkur vantar börn á leikskólana, okkur vantar börn í grunnskólana og okkur vantar ungt og drífandi fólk á fámennu staðina í kringum landið. Þetta er ekkert sér dýrfirskt fyrirbrigði, en ég tel að mín rannsókn hafi orðið smá lóð á vogarskálarnar til að sýna svart á hvítu að unga fólkið vill ekkert allt vera á höfuðborgarsvæðinu – sumir vilja það og það er allt í lagi, en sumir vilja líka koma aftur heim, en geta það ekki. Því finnst mér spurningunni um það hvort hver vegur að heiman sé vegurinn heim – því miður þurfa að svara neitandi. Hann er það ekki að óbreyttu – en við viljum og við þurfum breytingar.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira um málið geta nálgast ritgerðina inn á Skemmunni, en slóðin er:
http://skemman.is/stream/get/1946/26144/59261/1/Er_hver_vegur...pdf Svo má einnig geta þess að fyrirhugað er að höfundur fjalli um hana og niðurstöðurnar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða 13. janúar 2017. Þangað eru allir velkomnir.
                                                                                                                               Jónína Hrönn Símonardóttir,
                                                                                           grunnskólakennari og MA í náms- og starfsráðgjöf.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31