Enn af Jóni Þorsteini Sigurðssyni: - “Óli, láttu hana rúlla eins hratt og hún kemst”
Það var hér á árum áður þegar Jón, Gamli rebbi, var stórbóndi á annarri hálflendunni á Brekku í Dýrafirði á sjötta áratug síðustu aldar. Hafði á búi sínu ráðskonur, kaupakonur og vetrarmann.
Það var eitt sinn að Jón var staddur niður á Þingeyri. Á Þingeyri hittast þeir Gamli rebbi og Ólafur Finnbogason frá Efsta-Hvammi. Það verður úr þeirra viðræðum að Ólafur færi með Rebba upp yfir Hálsinn á nýju Deutz dráttarvélinni. Svo var lagt í ann, og ferðin gekk prýðis vel yfir hálsinn, þrátt fyrir smá þæfing. Þegar þeir voru komnir yfir Hálsinn og undir Innri-Hálsinn, þá ríkur Gamli rebbi á Ólaf, faðmar hann og kyssti marga kossa undir hægri eyrnasnepilinn.
Ólafur sem hafði einbeitt sér að akstrinum, veit nú ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Lítur á þann Gamla sem skalf, bar eitt alvarlegt kristilegt engils andlit sakleysis milli eyrna sér. ,,Uss, uss hafðu ekki hátt,”mælti Rebbi þrátt fyrir ærandi hávaðann í eins strokks vélarrokknum í Deutzinum.
Rebbi bendir upp í hlíðina og segir í lágum róm: ,,Ha.! Sérð-hana, sérð-hana, hún er að fara á útburðinn.”
Það var hvít tófa á leið fram hlíðina í fjallsrótunum. Fór ekki framhjá Rebba gamla. Nú skalf sá Gamli allur í roði sínu og tinaði smá af hug til tófunnar. “Óli, láttu-hana rúlla eins hratt og hún kemst,” mælti Rebbi. Sú hvíta kom á útburðinn og endaði þar tófu ævi sína. Hóf sitt annað líf, nýtt líf, sem útspýtt tófuskinn á fjóshurð á Brekku.
Rebbi gamli var fæddur á Rana í Hvammi Sandasókn 22. 01. 1920, fór í fardögum það sama ár að Botni í Mýrarsókn, þar skýrður Jón Þorsteinn Sigurðsson, og átti þá eftir marga fjöruna að súpa. Áður höfðu fæðst á Rana tvö systkini Jóns, þau Lilja og Pétur.
Saman tók Lárus Hagalínsson í Bræðratungu sept. 2015.