A A A
25.06.2018 - 00:05 | Blábankinn á Þingeyri

Engin/nn er glansmynd

Við vitum öll að áhrif fjölmiðla á líkamsmynd kvenna, karla, drengja og stúlkna er umtalsverð og þá sjaldnast jákvæð. Flest höfum við séð oftar en einu sinni óeðlilegar glansmyndir af fyrirsætum sem sýna hvernig hamingjan lítur út og setja okkur hinum fegurðarstaðla sem fyrirfinnast aðeins í myndeftirvinnslu forritum. Ímynd tískuiðnaðarins hefur sokkið dýpra og dýpra með hverri umfjölluninni af annarri sem flettir ofanaf óheilbrigðum áherslum og kröfum bakvið tjöldin um ónáttúrulegar líkamsstærðir. Á sama tíma mæla heilsugúrúar með ákveðnu matarræði sem sveiflast eftir tímabilum með eða á móti ákveðnum fæðuflokkum og jafnharðan spretta upp lausnir á markaðnum fyrir breyska og bugaða neytendur, til að njóta án samviskubits, matvara á borð við sykurlaus sætindi, fitusnauðar matvörur og annað í þeim dúr.

 

Weird Girls Project

Þrátt fyrir meðvitund um þessa brengluðu ímynd hefur hún gegnsýrt vestrænt samfélag og valdið sálrænum erfiðleikum og jafnvel sjúkdómum hjá konum jafnt sem körlum. Weird girl project, sem lauslega þýðis sem verkefni skrýtnu stelpnanna, er lifandi listaverk eftir Kitty Von-Sometime sem vinnur gagngert á móti þessum brengluðu kröfum og upphefur fjölbreytileika líkamans. Verkið er listagjörningur eða vídjóverk þar sem sjálfboðaliðar, konur á öllum aldri og öllum stigum samfélagsins, koma saman og fagna fegurðinni sem býr í einstökum og fjölbreytilegum líkömum. Enginn líkami er glansmynd, allir bera þeir með sér vitnisburð um það líf sem hver og ein kona hefur lifað. Verkinu er ekki síst ætlað að vera valdeflandi fyrir þær konur sem taka þátt.

 

Næsti gjörningur á Vestfjörðum

Orðspor listaverksins og listakonunnar hefur borist víða en í september verður tekinn upp nýr þáttur í þessu lifandi listaverki og að þessu sinni er konum á Vestfjörðum boðið að taka þátt. Þátturinn verður tekinn upp 8. september á Þingeyri og er nauðsynlegt að skrá sig. Fyrirfram eru aðeins veittar upplýsingar um staðsetningu og tíma en listakonan Kitty Von-Sometime hefur samband við hvern þátttakanda fyrir sig áður en verkið er tekið upp þar sem hún ræðir einslega og í fullum trúnaði um áskoranir tengdum líkamsímyndinni. Meðan á tökum stendur er hverri konu veitt sérstök athygli þar sem reynt er að koma til móts við þarfir og áskoranir svo að upplifunin geti orðið til að valdefla og brjóta á bak aftur neikvæða líkamsímynd. Fyrir skráningu og fyrirspurnir má smella HÉR.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30