A A A
  • 1965 - Björnfríður Fanney Þórðardóttir
  • 1966 - Jónína Kristín Sigurðardóttir
  • 2001 - Jóhanna Gabriela Lecka
Þrír spekingar staddir í kurteisisheimsókn í Selárdal hjá Gísla að Fremri-Uppsölum: Ólafur Gíslason á Neðrabæ í sama dal, Hemmi og Elís Kjaran. Ljósm.: Hallgrímur Sveinsson.
Þrír spekingar staddir í kurteisisheimsókn í Selárdal hjá Gísla að Fremri-Uppsölum: Ólafur Gíslason á Neðrabæ í sama dal, Hemmi og Elís Kjaran. Ljósm.: Hallgrímur Sveinsson.

Maðurinn einn er ei nema hálfur.

Með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.                

     (Einar Benediktsson)

Einar Ben og Hemmi Gunn lifa báðir í íslenskri þjóðarsál, hvor á sinn hátt. En eitt áttu þeir sameiginlegt: Með öðrum voru þeir meiri en þeir sjálfir. Þeir höfðu mikil áhrif á fólk. Þjóðskáldið með stórkostlegri andagift sinni og mannlegum sjarma. Hann höfðu þeir báðir í ríkum mæli. Fjölmiðlamaðurinn hlustaði og lét aðra njóta sín. Honum þótti vænt um fólk og gaf samborgurum sínum mikið með nærveru sinni og lífsgleði einni saman. Þar var ekki hrokanum fyrir að fara. Allir jafnir.

   Vestur á firði sótti hann styrk. Þegar hann kom var hann yfirleitt einn á ferð. Honum þótti undurvænt um Unni fóstru sína á Húsatúni og þangað leitaði hann til að öðlast jarðsamband og einhverja óútskýrða hlýju. Svo sótti hann mikið upp á Brekku og Brekkugötu. Sumir sögðu að hann væri bara að fara í tölvuna hjá Skúla vini sínum, sem hann kallaði svo. En það var annað og meira í þeim potti. Það var farið yfir sviðið, bæði í gamni og alvöru, teknar snerrur og stundum látið eins og fífl: Það er ekki nokkur spurning! Þetta er auðvitað alveg magnað. Það verður að segjast alveg eins og er. Og við þurfum klárlega að gera eitt mark.    Svo voru það hinir gömlu góðu dagar í Reykjavíkinni: Melavöllurinn, Háskólavöllurinn, Valsvöllurinn, Framvöllurinn harði og allir hinir vellirnir. Að ógleymdu Hálogalandi á veturna og Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar. Þið þarna fyrir sunnan var algengt orðtak og spunnið út frá því. Dalli dómari, Svenni vinkill, Kristján Ólafsson í Fram og Víking, sem vílaði ekki fyrir sér að fara höfuðstökk í miðjum leikjum á Melavellinum. Erkikringurinn Egill rakari sem heyrðist í um allan völlinn. Að ekki sé nú nefndur Sigurður Sigurðsson íþróttafréttamaður. Ógleymanlegir karakterar. Okkar menn. Örfáir af mörgum.

   Það var sagt um bandaríska söngvarann og leikarann heimsfræga, Dean Martin, að hann hefði sjaldan gert annað en drekka whiský heima hjá sér þegar hann var ekki að andskotast með Frank Sinatra og þeim félögum. Kunnugir sögðu þetta tilbúning. Enginn kom betur undirbúinn til leiks en Dean Martin. Hann var ábyggilega klár náungi. Sama mátti segja um okkar mann. Hann hefði aldrei náð svo langt sem raun bar vitni í hinum harða heimi fjölmiðlanna ef hann hefði ekki verið með á nótunum. Vissi nákvæmlega hvað hann var að gera, enda með afbragðs pródúsenta að eigin sögn. Nefna má sem lítið dæmi að viðtöl hans við yngstu borgarana eru slíkt fágæti, að vandséð er að betur hafi verið gert í viðtölum í íslensku sjónvarpi. Hann var maður sem lánaðist á því sviði, líkt og sagt var um annan Vestfirðing sem var með ólíkt prógram. Og ekki þarf að nefna íþróttirnar. Þar komust fáir með tærnar þar sem okkar maður hafði hælana.

   Hemmi vildi ekki fara í sumar fjölsóttar verslanir. Síst einn. En einu sinni fórum við til Rutar í Gamla bakaríinu á Ísafirði. Hún átti í okkur hvert bein og stjanaði við okkur. Gaf okkur kaffi og nýbakað brauð af nýrri tegund og íslenskt smjör. Hvað annað? Rut var nákvæmlega sami karakterinn og Hemmi: Elskuleg, brosandi og hvers manns hugljúfi. Spurði um allt milli himins og jarðar á sinn hátt. Einlægni og einhver óútskýranleg væntumþykja skein alltaf í gegn hjá þeim báðum.  

   Það kom fyrir að Hemmi vildi hafa orðið. Og hann gat orðið langorður um ýmis efni og þá sem honum tengdust á einhvern hátt. Sumargleðin, Raggi Bjarna, Ómar og allir þeir karakterar. Þetta voru hans menn. Að ógleymdum Ladda. Oft var talað í trúnaði sem hér verður ekki borinn á torg. Um sín innri mál var hann yfirleitt þögull. Maðurinn bak við tjöldin var nokkuð frábrugðinn þeim sem var í kastljósunum. Feiminn í grunninn og dulur upp að vissu marki. Einfari sem hafði ríka þörf fyrir að draga sig í hlé annað veifið. Það var þessi hlédrægi Hemmi sem sótti í kyrrðina hér fyrir vestan. Samt gat hann ekki án sjóvsins verið.

   Æringinn mikli var stundum viðkvæmur inn við beinið. Hörundsár. Hann gat átt það til að kunna ekki að meta það ef hann sjálfur var tekinn á teppið. Þú hefðir átt að verða læknir, sagði undirritaður eitt sinn við hann eftir langan fyrirlestur hans um læknisfræðileg efni og álitamál. Það féll kannski ekki alveg í kramið.

    Ekki vitum vér til að okkar maður hafi tekið að sér opinber embættisstörf, hvorki þarna fyrir sunnan né hér vestra. Utan eitt. Það var starf hringjara í Fellasókn undir Sandafelli í Dýrafirði. Var það ekki á allra vitorði. Þótti honum vænt um starfið og hafði oft á hraðbergi gamanmál úr umræddri sókn, sem varla á sinn líka. Ekki var vitað til að hann hefði nokkru sinni hringt út né inn. Þrátt fyrir það sagði almannarómur að hann hefði staðið sig mjög vel í embættinu. Starfinu fylgdi ókeypis kók í gleri og lakkrísrör í Dúddabúð á kostnað sóknarinnar.  Sterkari drykki lét hann ekki inn fyrir sínar varir á vesturslóð.  Komið gat fyrir að hann tróð upp á tveimur Þorrablótum með gamanál hér vestra sama kvöldið. Þegar eftirleikurinn byrjaði og menn vildu fara að sýna honum í glas, lét hann sig hverfa. Pillaði sig heim í dalinn sinn. Og þegar hann fór suður aftur var hann yfirleitt einn síns liðs. Einn með sjálfum sér.     

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30