07.01.2017 - 20:34 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson
Ekki lýgur Mogginn: - Hótel rís í Reykjavík upp á 10 milljarða og auðvitað á að rífa byggingar sem fyrir eru!
Nú les maður í Mogganum, sem aldrei lýgur, að byggja eigi hótel á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar. Á það að vera með 300 herbergjum og skal rísa á rúmum tveimur árum. Tíu milljarðar þar. Rífa á núverandi húsnæði á reitnum eins og það er orðað. Nema hvað. Enginn hefur vitað annað en það sé fínasta húsnæði, sbr. meðf. mynd. Þetta er náttúrlega stórkostlegt! En við þverhausarnir úti á landsbyggðinni höfum því miður ekki gáfur til að skilja svona hagfræði. Sem betur fer. Enda kemur þetta okkur auðvitað ekkert við.
En samt:
- Hvaðan á vinnuaflið að koma? Líklegt svar: Frá Kína, Póllandi, Eystrasaltslöndum og bara nefndu það. Íslenskir byggingamenn hafa nóg verkefni næstu árin að sögn. Stórkostlegt.
- Er eitthvart vit í þessu á þenslutímum? Klárt svar: Nei! Óheftur innflutningur á erlendu vinnuafli á undirmálslaunum er stórhættulegur þegar allt er komið að þolmörkum. Okkur væri nær að láta minna. En þetta er náttúrlega stórkostlegt!