A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
24.12.2018 - 08:42 | Hallgrímur Sveinsson

Einu sinni voru mælingamenn í Auðkúluhreppi....

Mælingamenn að störfum. Ekki er nú mælirinn amalegur! Sófus til vinstri en Elli dýfir höndum í ylvolgt vatnið. Ljósm. Hallgr. Sveinsson.
Mælingamenn að störfum. Ekki er nú mælirinn amalegur! Sófus til vinstri en Elli dýfir höndum í ylvolgt vatnið. Ljósm. Hallgr. Sveinsson.

Jólasaga af léttara taginu:

 

Þann 19. september 1996 ákváðum við þrír félagar að gera nú gangskör að því að mæla hitann í lauginni á Dynjanda í Auðkúluhreppi, sem enginn maður veit hvar er! Með mér í för voru hinir valinkunnu sómamenn og góðu drengir, Elís Kjaran frá Kjaransstöðum og Sófus Guðmundsson frá Brekku sem ekki eru lengur á meðal vor. En þeir brosa nú örugglega í kampinn þegar þessi skemmtisaga er rifjuð upp.

   Jæja. Þarf ekki að orðlengja það að áður en við lögðum upp frá Hrafnseyri þótti rétt að hafa með sér hitamæli. Hvers konar mælir ætti það að vera? Nú auðvitað apparat sem mælir hita í vatni. Þótti okkur kjörið að taka mjólkur- og skyrhitamæli hjá staðarins frú traustataki og það án formlegs leyfis. Hann væri flottur í það djobb. Mikið verkfæri. 

   Nú, nú. Fórum sem leið lá inn að Dynjanda. Þar var tekinn upp mælirinn góði. Þóttumst við vera vel í stakk búnir með mælinguna, engu síður en Þorvaldur Thoroddsen. Hann mældi hitann í lauginni 26. júlí 1887 (Ferðabókin) og reyndist hann þá vera 26,5 gráður á Celsíus. Ekki er vitað til að  aðrir menn en við félagar og Þorvaldur hafi staðið í slíkum mælingum. Er þó vel á aðra öld  á milli mælinganna.

   Hófust nú mælingar. En hvað er þetta! Mælir ekki helv. mælirinn neitt! Það koma engar tölur. Hvurslags er þetta eiginlega. Þetta er kolvitlaus mælir maður,  sagði sá elsti í hópnum. Þetta er ekki vatnshitamælir! Og við það sat. Léttadrengurinn mátti nú pilla sig heim aftur, hvað hann og gerði og kom svo eftir klukkutíma með vatnshitamæli. Hvar sem hann fékk hann nú. Gat þá mæling farið fram samkvæmt Morthensbók. Reyndist laugarhitinn þá vera 27,3 gráður. Þannig að það hafði hitnað aðeins í kolunum frá því Þorvald okkar leið. Og lýkur þar sögunni af mælingamönnunum miklu í Auðkúluhreppi. Og allir ánægðir. Hitaveita er nú á einum bæ í hreppnum. Það er auðvitað á Laugabóli. Hvað annað!

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31