A A A
Einar Andrés Gíslason.
Einar Andrés Gíslason.
Einar Andrés Gíslason fæddist á Rauðsstöðum í Arnarfirði 18. mars 1924. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 17. mars 2015.

Foreldrar hans voru Gísli Vignir Vagnsson, f. 3. ágúst 1901 á Fjarðarhorni í Gufudalssveit, A-Barð., d. 4. okt. 1980 í Reykjavík, og k.h. Guðrún Sigríður Jónsdóttir, f. 17. maí 1895 í Sauðeyjum á Breiðafirði, V-Barð., d. 7. okt. 1975 á Ísafirði. Systkini Einars: Þuríður, f. 1925, Sigurbjörg Árndís, f. 1927, d. 1965, Una, f. 1928, Álfheiður, f. 1929, Jón Höskuldur, f. 1932, Valdimar Haukur, f. 1934, Bergsveinn Jóhann, f. 1938, og Davíð, f. 1941. Uppeldisbróðir og frændi Pétur Kristinn Þórarinsson, f. 1922, d. 1999.

Barnsmóðir: Laufey Erla Sophusdóttir, f. 14. apríl 1934 á Kaldrananesi í Strandasýslu. Foreldrar hennar voru Sophus Salomon Magnússon, f. 1893 í Fornubúð, Súðavíkurhr. N-Ís., d. 1986, og k.h. Sigurey Guðrún Júlíusdóttir, f. 1901 í Kjós, Árneshr. Strand., d. 1983. Sonur Einars og Laufeyjar: Pétur Fjeldsted Einarsson, f. 18. júní 1968 í Reykjavík. K.h. Sigurbjörg Sara Stefánsdóttir Fjeldsted, f. 10. maí 1971 í Reykjavík. Synir þeirra: Francis Anthony Fjeldsted, f. 14. nóvember 2005, og Tristan Estefan Fjeldsted, f. 9. júlí 2007.

Einar flutti með foreldrum sínum frá Rauðsstöðum að Gljúfurá í Arnarfirði 1925 og þaðan að Mýrum í Dýrafirði 1936. Hann nam við Ungmennaskólann á Núpi 1942-1944 og lauk gagnfræðaprófi við Menntaskólann á Akureyri 1944. Stúdentsprófi lauk hann frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948, undirbúningur fyrir það mest utanskóla. Einar hóf nám í læknisfræði við Háskóla Íslands en hvarf frá því námi og fór að starfa hjá Atvinnudeild Háskólans. Árið 1951 fór hann í nokkurra mánaða námsferð til Bandaríkjanna þar sem hann kynnti sér jarðvegsrannsóknir. Heimkominn starfaði hann við jarðvegsrannsóknir og síðar við gróðurkortagerð á vegum Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins (RALA) um langt árabil. Þá kom hann einnig að gróðurkortagerð á Grænlandi. Einar starfaði hjá RALA uns hann varð sjötugur og var eftir það í hlutastarfi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands allt fram undir áttræðisaldur.

Áhugasvið Einars beindust að ýmsu fleiru en hinum daglegu störfum. Hann stundaði nám í nokkrum greinum við Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð, lauk þaðan m.a. stærðfræðideildar-stúdentsprófi, en var fyrir með máladeildarpróf. Við Háskóla Íslands lagði hann stund á landafræði og spænsku og náði góðri færni í því máli.

Einar bjó lengi á Sóleyjargötu 15, en þegar heilsan fór að bila flutti hann á Dalbraut 27 og undir lokin á Hjúkrunarheimilið Skjól þar sem hinn illvígi sjúkdómur parkinson lagði hann að velli.

Útför Einars var gerð frá Fossvogskirkju í Reykjavík  í dag, mánudaginn 30. mars 2015.

________________________________________________________________________________


Minningarorð Valdimars Gíslasonar á Mýrum í Dýrafirði

Í dag kveðjum við Einar Andrés Gíslason, bróður og vin. Hans fyrstu minningar voru frá Gljúfurá í Arnarfirði þar sem hann sleit barnsskónum. Þegar hann var 12 ára flutti fjölskyldan að Mýrum í Dýrafirði. Hlutverk Einars við flutningana var að reka kúastofninn yfir Hrafnseyrarheiði með móður sinni. Hér var ekki um marga gripi að ræða en spordrjúgt hefur þetta verið.


Það voru mikil umskipti að koma að Mýrum frá Gljúfurá. Á Gljúfurá var allt í heldur smáum skala, híbýli manna lágreist og þröng og tún lítið. En á Mýrum var reisulegt íbúðarhús og slægjulönd víðfeðm. Þar var og umtalsvert æðarvarp, ríflega 1.000 hreiður.

Þetta jók mjög möguleika á að framfleyta stórri fjölskyldu en kallaði jafnframt á fleiri vinnandi hendur. Megnið af túninu á Mýrum var þýft og var ekki slegið öðruvísi en með orfi og ljá. Það varð strax hlutverk Einars við heyskapinn að standa við slátt frá morgni til kvölds.

Hann náði fljótt tökum á þessu verki, lærði að dengja og brýna og honum beit vel sem var forsenda þess að menn yrðu góðir sláttumenn.

Umsjón æðarvarps er vinnufrekt verkefni en Einar naut þess að vera innan um fuglinn og var nostursamur við dúntektina.

Hann gerði það ekki endasleppt því nær hvert vor kom hann heim að Mýrum til að vinna í varpinu meðan honum entist heilsa. Liður í því að sinna varpi er að verja það fyrir ágangi flugvargs og tófu. Einar tók þátt í því eins og öðrum störfum við varpið en honum var illa við að skjóta hvort sem var fugl eða ref því hann var mikill náttúruunnandi. Þó lét hann tilleiðast að skjóta tófur og var lunkin skytta.

Einar var góður vísnasmiður en orti þó lítið nema fyrir beiðni. Á vaktmönnum í Mýravarpi hvílir sú kvöð að skila vísu eftir hverja vökunótt. Einar uppfyllti þessa skyldu, orti t.d. eina júnínótt: Trauðlega verða talin sporin/troðin um þessa grænu haga./Sum voru létt við söng á vorin/sálin var döpur aðra daga. Sannarlega má segja að Einar hafi fest rætur í Dýrafirði og þá einkum á Mýrum því hann kom ekki bara vestur á vorin heldur einnig um hver jól. Heimafólki gaf hann í jólagjafir góðar bækur, einkum þær er fjölluðu um íslenska náttúru. Um jólin var lesið, spilað og teflt alla daga en Einar var vel liðtækur skákmaður og hafði unun af að tefla. Þá las hann mikið og var vandlátur á bækur.

Einar var mjög þakklátur mágkonum sínum á Mýrum fyrir atlæti sem hann naut þar jafnan eins og eftirfarandi vísa ber með sér: Ég þakka fyrir þessi jól/og þúsund góðu spilin./Nú birtir daga, boðar sól/blíðan sumarylinn. Einar kvæntist ekki en eignaðist soninn Pétur sem var föður sínum mikil stoð er heilsu hans tók að hraka. Aðstandendur Einars þakka góða umönnun og aðstoð sem hann fékk á Dalbraut og Skjóli. Að leiðarlokum þökkum við Einari samfylgdina sem og alla þá hjálp og gleði sem hann veitti með komum sínum að Mýrum. Pétri og fjölskyldu vottum við innilega samúð.

 

Valdimar H. Gíslason

og fjölskylda, Mýrum.

 

Morgunblaðið mánudagurinn 30. mars 2015. 

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31