A A A
  • 1932 - Kristín Kristjánsdóttir
  • 2004 - Óttar Pétursson
  • 2006 - Carmen Kristín Vignisdóttir
14.08.2015 - 06:20 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

„Ég er af Ólsenættinni“

Brynjólfur Þór Brynjólfsson bankastjóri. Teikning Ómar Smári Kristinsson.
Brynjólfur Þór Brynjólfsson bankastjóri. Teikning Ómar Smári Kristinsson.

Einn góður frá Ísafirði

Brynjólfur Þór Brynjólfsson, fyrrum bankastjóri í Landsbankanum á Ísafirði og nú í Ólafsvík, þykir maður lítt snobbaður. Reyndar er fullvíst að Brynka hundleiðist snobbað fólk.

            Eitt sinn sat Brynki bankastjóri ásamt Ragnheiði Jónsdóttur konu sinni í kvöldverðarboði á Hótel Ísafirði. Þar var líka mjög fín frú sem hélt ákafa tölu um ættgöfgi sína. Sagðist frúin vera skyld flestum fínustu ættum landsins og nefndi til sögunnar Briemara, Maackara, Thorsara og fleiri. Viðstöddum var ljóst að Brynka leiddist þetta tal, lét sig ýmist síga undir borðið og góndi út í loftið eða skoðaði hnífapörin eins og hann hefði aldrei séð slíka gripi áður. Ragnheiður gaf bónda sínum olnbogaskot til merkis um að með þessu sýndi hann ekki kurteisi.

            Allt í einu reisti Brynki sig upp og sagði stundarhátt:

            Ég er af Ólsenættinni.

            Fína frúin ranghvolfdi augunum af hrifningu og sagði:

            Nei, hvað ertu að segja? Ertu skyldur þeim?

            Brynki svaraði:

            Já, sko, afi minn – nei, ekki afi minn heldur langafi minn, var sko sjálfur Ólsen Ólsen.                                                        
(101 ný vestf. þjóðs. 8. hefti)

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31