A A A
  • 1963 - Jóhannes Frank Jóhannesson
  • 1979 - Marika Jopp
11.05.2017 - 15:15 | Björn Ingi Bjarnason,Blaðið - Vestfirðir,Vestfirska forlagið,Ólafur B. Halldórsson.

Dýrafjarðargöng - síðbúin en langþráð

« 1 af 2 »

Þegar það var þjóðinni kynnt að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hæfust í ár kom mér fyrst í hug litla atviksorðið loksins eða, eins og Bretar myndu orða það, „at long last“. Svo lengi hafa íbúar Vestfjarða mátt þola að þessari brýnu framkvæmd hafi verið frestað, ýmist vegna mikillar þenslu í „góðæri“ eða fjárskorts eftir sögulegt fall fjármálakerfis okkar. Sömuleiðis hafa tvær fyrrum ráðherrar samgöngumála tjáð mér að „einkaframkvæmdin“

Vaðlaheiðargöng hafi beinlínis orsakað enn lengri frestun þess sem brýnna var að flestra mati. Því hefði mátt ætla að rétti tíminn væri „pólitískur ómöguleiki“. Nýjasta uppákoma stjórnmálanna var að samþykkja samgönguáætlun að hausti og fjárlög í sátt og samlyndi fyrir jól. Að loknu jólaleyfi kom síðan í ljós að það hafði „gleymst“ að fjármagna Dýrafjarðargöng.

En þessu var síðan kippt í liðinn og vonandi lærðu alþingismenn af þessu hvaða vinnubrögð eru óboðleg, jafnvel að nýafstöðnum kosningum. Það er því vart hægt að hrósa stétt stjórnmálamanna fyrir frammistöðuna, þó vissulega hafi verið á þingi fólk sem barist hefur fyrir málinu, en heldur ekki hallmæla þeim alþingismönnum sem nú verma sæti Alþingis sem eru að uppistöðu til nýliðar.

En ég ætla ekki að dvelja lengur við neikvæðar hliðar þessarar langþráðu framkvæmdar heldur horfa til framtíðar og þeirra möguleika sem þessi nýja samgönguæð getur skapað. Fyrst og síðast er það undir Vestfirðingum sjálfum komið að virkja þá möguleika sem munu bjóðast eða með öðrum orðum að láta athafnir fylgja orðum. Hvað er átt við með því? Möguleikarnir felast fyrst og síðast í tveimur orðum samstöðu og samstarfi. Samstarfið getur náð til flestra þátta mannlífsins þ.e. atvinnumála, menntunar, heilsugæslu, menningar, íþrótta og afþreyingar.

Í atvinnumálum koma fyrst upp í hugann þær greinar sem eru í hvað hröðustum vexti, fiskeldi og ferðamál. Fiskeldið á sameiginlega hagsmuni með hefðbundnum sjávarútvegi hvað varðar flutninga. Þegar Vestfirðir verða samgöngulega tengdir hlýtur að koma til skoðunar hvort nauðsynlegt er að flytja gífurlegt fiskmagn á þéttsetinn Keflavíkurflugvöll 400-500 km. leið eða hvort það sé raunhæft að al- þjóðlegur fragtflugvöllur verði byggð- ur á Þingeyri eða Bíldudal eftir því á hvorum staðnum skilyrði eru betri.

Enginn vafi leikur á því að stoðir ferðaþjónustu munu styrkjast þegar greiður ársvegur liggur að nátt- úruperlum Vestfjarða eins og Látrabjargi, Dynjanda, Ísafjarðardjúpi og síðan fjölfarin sjóleið á Hornstrandir svo aðeins fátt eitt sé talið.

Í menntamálum þarf að efla bæði fjarnám og staðbundið nám fyrir tilstilli stofnana sem þegar eru til staðar eins og Menntaskólinn á Ísafirði, Háskólasetur Vestfjarða og Fræðslumið- stöð Vestfjarða ásamt tónlistar- og listaskólum. Allar þessar stofnanir eru að auka menntunarstigið og sumar starfa við hlið rannsóknarstofnana sem hafa gert sérmenntuðu fólki kleift að setjast að á Vestfjörðum.

Hvað varðar heilsugæslu þá geta flestir tekið undir þá staðhæfingu að þjóðarsjúkrahúsið okkar við Hringbraut er þjakað af of miklu álagi, á meðan mannvirki og mannauður víðs vegar um landið eru vannýtt. Það er því brýnt að breyta um stefnu og hugsun og efla sjúkrahús og heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið. Þetta á því við um slíkar stofnanir á Vestfjörðum.

Það má alveg til sanns vegar færa að menning standi með blóma á Vestfjörðum bæði hvað varðar tónlist, sönglist og kórastarf og leiklist en með árssamgöngum stækkar menningarmarkaðurinn og öll þessi starfsemi fær nýja blóðgjöf.

Almennt er gildi íþrótta viðurkennt sem holl tómstundaiðja og heilsuefling uppvaxandi kynslóða og því keppast sveitarfélög við að koma upp íþróttamannvirkjum. Íþróttir eru því kjörinn vettvangur til aukins samstarfs Vestfirðinga og bættar samgöngur ættu að vera hvatning til að endurvekja eða efla íþróttafélög í öllum byggðum. Samnýting mannvirkja verður möguleg allt árið og því ekki að efna til Vestfjarðamóta á ný í helstu íþróttum? Íþróttir stuðla að kynnum og vinskap fólks.

Hér hefur aðeins verið tæpt á fá- einum hugmyndum sem árstenging byggða á Vestfjörðum getur leitt af sér ef þeir möguleikar sem opnast eru vel nýttir. Þó að náttúra Vestfjarða búi bæði yfir auðlindum og fegurð þá er ekkert dýrmætara en auðurinn sem býr í okkur sjálfum. Sé hann ræktaður munum við upplifa á komandi árum nýtt og áður óþekkt framfaraskeið.

Mér finnst því við hæfi að enda þessar hugleiðingar á orðum þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar sem óx úr grasi á Vestfjörðum. Tæpri öld eftir andlát hans syngja helstu afreksmenn okkar í íþróttum, sem etja kappi við stórþjóðir, lofsöng þann er hann lét sinni þjóð eftir.

En með eftirfarandi ljóðlínum hvatti hann til þeirrar samstöðu sem við Vestfirðingar þurfum svo mjög á að halda:

 

Græðum saman mein og mein,
metumst ei við grannann,
fellum saman stein við stein,
styðjum hverjir annann;
plöntum, vökvum rein við rein,
ræktin skapar framann.
Hvað má höndin ein og ein?
Allir leggi saman!

Hafi þessi orð Matthíasar Jochumssonar átt við árið 1898 þá eiga þau við í dag. Ég óska Vestfirðingum, landsmönnum öllum og gestum okkar til hamingju með þessa framkvæmd. Verði hún nýtt svo sem vera ber mun atvinnulíf eflast, mannlíf og menning blómgast í fjörðum, víkum og dölum Vestfjarða.

Ólafur Bjarni Halldórsson. Ísafirði.

Blaðið Vestfirðir 11. maí 2017.


« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30