A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
03.01.2013 - 06:41 | Morgunblaðið

Dísilvélarnar keyrðar í botni

Þingeyrarkirkja. Teiknuð af Dýrfirðingnum Rögnvaldi Ólafssyni.
Þingeyrarkirkja. Teiknuð af Dýrfirðingnum Rögnvaldi Ólafssyni.
« 1 af 2 »

„Það var ansi lítið sofið, bara vakað yfir þessu. Ég náði að halla mér tvo tíma annan sólarhringinn og þá var hinn maðurinn hérna og svo öfugt,“ segir Sigurður Þ. Gunnarsson sem með félaga sínum hélt dísilvélunum á Þingeyri gangandi fyrir og um áramótin þegar grípa þurfti til varafls víða á Vestfjörðum.

Orkubú Vestfjarða er með tvær dísilvélar á Þingeyri. Samband við virkjanir og raforkukerfi landsins rofnaði í óveðrinu sem gekk yfir landið. Sigurður þurfi að ræsa fyrri vélina klukkan rúmlega hálf átta á laugardagsmorgni og vélarnar tvær voru til klukkan tíu á gamlárskvöld. „Við reyndum að halda þessu í botnkeyrslu svo að sem flestir fengju rafmagn. Það er þó ekki alltaf hægt því þá fer allt á yfirhitun og slær út. Við héldum annarri vélinni þó í 700 kílóvöttum mestallan tímann, keyrðum hana sólarhringinn út, greyið,“ segir Sigurður.

Til þess að skammta rafmagn þurftu Sigurður og samstarfsmaður hans að hlaupa reglulega út í spennistöðvar til að taka út lágspennurofa fyrir hluta af götum og fara svo aftur eftir tvo tíma til að setja þær inn aftur og taka aðrar götur út á móti.

Margir nota rafmagn til kyndingar á Þingeyri og því mikilvægt að taka rafmagnið ekki af lengi í einu. Þá segir hann að ekki hafi verið miklir kuldar og það hafi hjálpað mikið til.

Sigurður telur að keyrsla dísilrafstöðvanna á Þingeyri hafi gengið nokkuð vel, miðað við aðstæður. Um tíma, þegar best gekk, sáu dísilvélarnar á Þingeyri öllu þorpinu fyrir rafmagni auk sveitanna í Dýrafirði og Önundarfirði og Hrafnseyri og fleiri bæjum í Arnarfirði. „Maður er farinn að læra þetta, eftir tæp fjörutíu ár,“ segir Sigurður.

Sigmundur Þórðarson húsasmíðameistari segir að Þingeyringar hafi átt góð áramót. „Veðrið var ekkert verra en oft í gamla daga. Norðaustanáttarinnar gætir ekki eins mikið hér og í hinum bæjunum,“ segir Sigmundur og tekur fram að lífið hafi gengið sinn vanagang. Jólaball hafi verið haldið á milli jóla og nýárs og brenna á gamlárskvöld.

 

Sundlaugin lokuð

Hann segir að starfsmenn Orkubúsins hafi staðið vaktina vel svo jólaljósin hafi lýst upp þorpið og verktakar sem annast snjóruðning hafi sömuleiðis séð til þess að allar götur voru hreinsaðar. Aðeins hafi verið ófærð einn dag. Ekki hafi verið vit í að aka um vegna þess hversu mikið snjóaði.

„Það eina sem vantaði var að komast í sund en ekki var um það að ræða því sundlaugin er hituð með varaafli,“ segir Sigmundur.

Morgunblaðið fimmtudagurinn 3. janúar 2013. 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31