A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
15.11.2018 - 11:01 | Hallgrímur Sveinsson

Brotist inn í Kaupfélag Dýrfirðinga, útibú á Auðkúlu

Hreinn Þórðarson, eigandi Verslunarhúss Kaupfélags Dýrfirðinga á Auðkúlu.
Hreinn Þórðarson, eigandi Verslunarhúss Kaupfélags Dýrfirðinga á Auðkúlu.

Stórfrétt úr Auðkúluhreppi:

 

Sá fáheyrði atburður varð um daginn að brotist var inn í Kaupfélag Dýrfirðinga, útibú á Auðkúlu í Auðkúluhreppi, Arnarfirði. Þetta kom öllum í opna skjöldu að sjálfsögðu. Útidyrahurðin að verslunardeildinni á miðhæðinni var brotin upp. Það dugði ekki til þó fyrir henni sé Yale smekklás, einn af þessum gömlu góðu, sem enn fást líklega í Brynju á Laugaveginum. Er skemmst frá að segja að engu var stolið svo séð verði. Eitthvað var þó  gengið frjálslega um innanstokksmuni. Var jafnvel eins og einhver hefði lagt sig í sóffann sem þar er. Málið er í rannsókn hjá Rannsóknarlögreglu Auðkúluhrepps. Lögreglustjórinn þar, Ólafur V. Þórðarson, varðist aðspurður allra frétta af málinu. Er það skiljanlegt, þar sem enn stendur yfir rannsókn á stóra olíumálinu sem frægt varð fyrir nokkrum misserum þar í sveit.

   Frá því er að segja, að það hefur flogið fyrir að hefja eigi verslunarrekstur aftur í gamla kaupfélagshúsinu. Hreinn Þórðarson, hreppstjóri og Grímur á Eyrinni, léttadrengur hjá Vestfirska forlaginu, hafa verið að undirbúa að opna verslun þar. Meina þeir víst að með opnun ganganna verði Auðkúluhreppur um þjóðbraut þvera. Hyggjast þeir vera með nýlenduvörur svo sem niðursoðna ávexti, sveskjur, rúsínur, hveiti, kaffi og sykur út í það, eiginlega sitt pundið af hvoru. Og svo að sjálfsögðu Freyju og Sóló karamellur, gráfíkjur, lakkrís og Nikk Nakk, gladíólur og karíóka. Og  náttúrlega Bækurnar að vestan, sem allir eru brjálaðir í þó ekki séu það glæpasögur. Svo verða þeir félagar að sjálfsögðu með límonaði. Þeir eru víst orðnir einkaumboðsmenn hér á landi fyrir Niðaróss-gosdrykkja-og límonaði-fabrikku-útibú í Niðarósi í Noregi. Príma vara! Fínir prísar eins og hjá Bör forðum.

   Gárungarnir í Auðkúluhreppi segja að innbrotsmennirnir hafi verið búnir að frétta það sem er á döfinni hjá þeim félögum. Segja þeir að grunur leiki á að delíkventarnir hafi ætlað að byrgja sig upp af kólóníalvöru og bókum. En þeim varð ekki kápan úr því klæðinu, því það var ekki búið að leysa út vörurnar á pósthúsinu. Þetta er náttúrlega allt á póstkröfu!

    Svo segja lausafregnir að hinir gömlu kaupfélagsmenn á Þingeyri og nærsveitum séu farnir að hugsa sér til hreyfings með að endurvekja Kaupfélag Dýrfirðinga. Þeir segja að þetta hefði ekki þurft að fara svona eins og fór. En það er önnur saga. Er gott til þess að vita að eitthvert líf sé í liðinu. Það gera sennilega göngin!

    

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31