Bjarni Pálsson - Fæddur 18. júlí 1936 - Dáinn 3. október 2017 - Minning
Bjarni var sonur Önnu Árnadóttur húsmóður frá Stóra-Hrauni, f. 26. júlí 1901, d. 29. febrúar 1996, og Páls Geirs Þorbergssonar, verkstjóra, frá Syðri Hraundal, f. 29. júní 1894, d. 17. maí 1979. Systkini hans eru Anna María Elísabet, húsmóðir, f. 8. september 1925, d. 19. október 1974, og Árni, fv. sóknarprestur í Kópavogi, f. 9. júní 1927, d. 16. september 2016.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hlaut síðar kennsluréttindi sem framhaldsskólakennari. Framan af sinnti hann ýmsum störfum, meðal annars hjá bílaleigunni Fal í Reykjavík, við kennslu í Neskaupstað og við Gagnfræðaskólann við Lindargötu.
Bjarni var kennari og síðar skólastjóri Núpsskóla í Dýrafirði frá 1960-1961 og 1968-1981. Hann var kennari við Fjölbrautaskóla Garðabæjar frá stofnun skólans, þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2001. Bjarni sinnti einnig bókhaldsvinnu og ráðgjöf fyrir ýmsa aðila allt til dánardags.
Samhliða kennslustörfum sinnti Bjarni ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn SÁÁ allt frá stofnun samtakanna til æviloka. Bjarni var alla tíð virkur í stjórnmálum og var í framboði til Alþingis bæði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþýðuflokkinn. Hann skrifaði ritstjórnargreinar fyrir Alþýðublaðið um tíma og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Bjarni var mikill áhugamaður um flug og á árum sínum vestur á fjörðum lauk hann flugprófi og skemmti vinum og ættingjum með útsýnisflugferðum.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Valborg Þorleifsdóttir, f. 31. október 1938, fv. kennari og lífeindafræðingur. Valborg er dóttir Þorleifs Jónssonar, lengst af búsetts í Hafnarfirði, síðar sveitarstjóra á Eskifirði, f. 16. nóvember 1896, d. 29. september 1983 og Hrefnu Eggertsdóttur húsmóður, f. 15. júní 1906, d. 20. mars 1965.
Börn þeirra hjóna Bjarna og Valborgar eru:
1) Þorleifur, deildarstjóri hjá Advania, f. 24. október 1963, eiginkona hans er Hildur Ómarsdóttir, yfirþroskaþjálfi hjá Kópavogsbæ, f. 11. ágúst 1970. Þeirra synir eru Bjarni, f. 23. september 1997, og Ómar Þór, f. 8. júlí 2000.
2) Hrefna, tölvunarfræðingur, f. 14. júlí 1965, eiginmaður hennar er Bjarni Birgisson, tölvunarfræðingur, f. 9. desember 1964. Þeirra börn eru Daði, verkfræðingur, f. 28. febrúar 1987, Andri, tölvunarfræðingur, f. 6. mars 1993, og Nanna Kristín, f. 27. ágúst 2002.
3) Anna, leikskólastjóri í Garðabæ, f. 24. mars 1971, sambýlismaður hennar er Jón Emil Magnússon sviðsstjóri, f. 15. september 1964. Börn Önnu og fv. eiginmanns, Hlyns Hreinssonar, f. 4. janúar 1969, eru Huldar, f. 31. maí 1998, Hrefna, f. 28. mars 2001, og Hreiðar Örn, f. 16. mars 2005.
4) Páll Geir, dagskrárstjóri hjá SÁÁ, f. 31. júlí 1972. Dóttir hans og fv. eiginkonu, Rachelle Nicole Wilder, f. 21. september 1980, er Valborg Leah, f. 1. maí 2009.
Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 18. október 2017, klukkan 13
_________________________________________________________________
Minningarorð Valdimars H. Gíslasonar að Mýrum í Dýrafirði
Í dag kveðjum við Bjarna Pálsson, fyrrverandi kennara og skólastjóra á Núpi í Dýrafirði. Við Bjarni vorum samstarfsmenn þar í 13 ár. Af þeim var Bjarni skólastjóri í níu ár, 1972-1981. Það var skemmtilegt að starfa með honum og undir hans stjórn. Hann var þannig persóna, glaðvær og hress í viðmóti. Á þessum árum var ég ókvæntur og bjó á skólatíma einn í íbúð á Núpi. Á kvöldin leit ég gjarnan inn til samkennara minna til að njóta þar glaðværra samskipta og kaffiveitinga. Oftar en ekki lá leiðin til Bjarna og Valborgar. Þar var allt til reiðu sem gesti gleður, bæði hjónin létt og alúðleg í viðmóti. Bjarni var sögumaður góður eins og hann átti kyn til. Oft var langt liðið á kvöld þegar samræðum var slitið, ekki síst ef gestir voru fleiri eins og oft bar við. Mér eru sérstaklega minnisstæð kvöldin þegar Jón Aðalbjörn Bjarnason ljósmyndari var mættur. Þá varð svefntíminn jafnan stuttur. Á tímabili var Bjarni makker minn í brids. Við kepptum á nokkrum bridsmótum og beittum þá okkar skæðasta vopni, hreppstjóraspaða. Ekki náðum við þó að vinna til verðlauna.
Eitt sinn fórum við Bjarni tveir saman í utanlandsferð. Þetta mun hafa verið sumarið 1970. Við flugum til Kaupmannahafnar og eftir viðdvöl þar héldum við til Þýskalands. Í Hamborg keypti Bjarni bíl sem við ferðuðumst á suður um Ítalíu og síðan upp Frakkland þar sem við höfðum viku stans í París. Þaðan var haldið til London, bíllinn settur þar í skip og við sigldum heim með Gullfossi frá Edinborg í Skotlandi. Þetta var mikið og skemmtilegt ferðalag. Bjarni sá fyrir öllu, ók eins og ekkert væri um stórborgir og fann gististaði þótt aldrei væri neitt pantað fyrirfram. Hann var óragur maður og úrræðagóður. Kom það vel fram við stjórn hans á Núpsskóla.
Það var ekki auðvelt verkefni að reka héraðsskólana. Þar var í mörg horn að líta. Á hverju ári þurfti að glíma við fjárveitingavaldið og knýja á um fjárveitingar til skólanna. Rekstur mötuneyta þurfti að bera sig. Umönnun unglinga á heimavistum var erilsamt og vandasamt verkefni. Aðstaðan á Núpi var að sumu leyti erfiðari en á öðrum héraðsskólum. Samgönguleiðir þangað langar og erfiðar, m.a. vegna snjóa, og þar er ekki jarðhiti, upphitunarkostnaður því mikill. Flest úrlausnarefni sem hér hafa verið nefnd hvíldu á herðum skólastjórans.
Bjarni var farsæll skólastjóri. Hann flutti aldrei skammarræður en leysti málin með lempni. Þá naut hann dyggrar aðstoðar Valborgar konu sinnar. Þau létu sér annt um velferð nemendanna sem upp til hópa bera þeim vel söguna og hafa með lífi sínu og störfum síðar aukið hróður skólans.
Vináttan við Bjarna og fjölskyldu hefur haldist óskert þótt samfundum hafi fækkað. Að leiðarlokum þökkum við langa og ánægjulega samfylgd. Valborgu og fjölskyldu vottum við innilega samúð.
og fjölskylda, Mýrum.
__________________________________________
Minningarorð Finnboga Hermannssonar
Genginn er góður drengur og með sorg í sinni skrifa ég fáein kveðjuorð eftir Bjarna Pálsson, kennara og skólastjóra. Fundum okkar bar fyrst saman fyrir tæpum fjörutíu árum þegar ég var ráðinn kennari að Núpi í Dýrafirði. Þangað flutti ég ásamt konu minni, Hansínu Guðrúnu, og frumvaxta syni hennar, Heiðari Svani. Þegar við riðum í hlað á Núpi hafði fátækleg búslóð okkar þegar verið flutt á sinn stað í góðri íbúð í gamla skólanum gegnt Núpskirkju.
Um þær mundir hafði verið fundið upp hugtakið altæk stofnun. Heimavistarskóli var sortéraður sem altæk stofnun þar sem einn karl eða kerling réð fyrir slökkvaranum. Flestir nemendur beygðu sig undir húsaga og þá gekk allt smurt. Næg afþreying var á Núpi, útiíþróttir, sundlaug og gufubað, sjoppa og meira að segja alvöru bíó. Bjarni Pálsson var í essinu sínu þegar hann var að sýna hasarmyndir sem voru oft á gráu svæði fyrir börn og unglinga.
Miðlæg stofnun á heimavistarskóla var mötuneytið. Þar gat gengið á ýmsu og sumir unglingar höfðu lítt vanist mannamat. Þó var allt orðið roðlaust og beinlaust á þessum tíma og ekki þurfti að rustera neitt eða skræla. Bar þá við einn erfiðan dag í febrúar að kokkurinn var grýttur með dýrindis kjötbollum. Þegar hríðinni linnti gekk skólastjórinn í það sjálfsagða verk að þrífa veggi og loft með nemendum og eftirmál lítil. Fræðslustjórinn Sigurður KG á Ísafirði fékk veður af orrustunni og hringdi í Bjarna og var áhyggjufullur. „Það er nú allt í lagi að þeir grýti kokkinn á meðan þeir grýta ekki mig,“ svaraði Bjarni og málið var dautt.
Núpur er ekki í alfaraleið og einatt kvíðvænlegt að koma nemendum að og frá. Oft gekk á með hríðarbyljum og vetur voru erfiðari en nú. Á fundi héraðsskólastjóra með ráðuneytismönnum var brýnt fyrir þeim að sleppa liðinu ekki í jólafrí fyrr en alveg undir jól og til tekinn dagur. Um þetta varð japl þangað til Bjarni Pálsson stundi við: „Ég er nú vanur að senda það heim þegar rofar til.“ Og þá var málið líka dautt.
Þrjá vetur þreyði ég þorrann og góuna með Bjarna Pálssyni á Núpi. Þá sagði hann vera að koma að því að flytja suður ef þau ætluðu ekki að ílendast.
Þau fluttu í Garðabæ, við Hansína á Ísafjörð.
Bjarni Pálsson spurði aldrei um fortíð þeirra sem sóttu um skólavist á Núpi, nemendur komu bara á eigin forsendum. Hann hafði gott lag á að undirvísa í reikningi og var fjölda ára stærðfræðikennari í Garðabæ.
Get ekki stillt mig um að segja enn eina sögu af Bjarna Pálssyni. Þegar Guðrún móðir mín var jörðuð í desember 2015, 102 ára gömul, var framið bankarán meðan á jarðarförinni stóð. Erfidrykkjan fór fram á Nauthól við rætur Öskjuhlíðar. Öskjuhlíðin var umkringd sérsveitarmönnum að finna ræningjana og einnig umhverfis Nauthól. Þegar ég sagði Bjarna þarna í erfidrykkjunni að banki hefði verið rændur í Borgartúni svaraði hann að bragði: „Var það utan eða innan frá?“
Læt ég hér nótt sem nemur og við Hanna vottum Valborgu og börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 18. október 2017.