A A A
  • 1965 - Björnfríður Fanney Þórðardóttir
  • 1966 - Jónína Kristín Sigurðardóttir
  • 2001 - Jóhanna Gabriela Lecka
DV 17. október 1981.
DV 17. október 1981.
« 1 af 6 »

Bjarni Pálsson, fyrrverandi skólastjóri Héraðsskólans að Núpi, svarar ásökunum Jóns Gnarr um skólahald að Núpi. Jón Gnarr hefur lýst kynferðislegu ofbeldi í héraðsskólanum á Núpi sem þó enginn samnemanda né kennara kannast við.

Ég starfaði sem kennari og skólastjóri við Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði frá 1968 til 1981.  Síðustu 9 árin sem skólastjóri. Ég lét af skólastjórn haustið 1981 og var því ekki samtíma Jóni Gnarr árin hans á Núpi. Hins vegar vann ég árum saman með flestu því starfsfólki sem hann gerir lítið úr. Sá sem tók við skólastjórn af mér var samstarfsmaður minn og hafði verið kennari við skólann í 10 ár.  Nú hefur Jón Gnarr gefið út bók sem hann nefnir skáldævisögu og á að hafa gerst á Núpi. Bókin getur þó varla verið sagnfræðirit því enginn veit hvað satt er eða skáldskapur nema þau sem samtíma honum voru.

„Ósköp venjulegt níð um nafnkennda skólastofnun sem starfaði við góðan orðstír nánast alla síðustu öld.“

Það versta við mál þetta er viðtalið við Jón Gnarr í Fréttablaðinu þann 17. okt. s.l.  Þar vegur hann að æru starfsmanna, samnemenda sinna, eldri nemenda og fyrri skólastjórnenda. Þar segir á forsíðu blaðsins:  „Jón Gnarr vitnar um hópnauðgun, kynferðislega misnotkun og grimmilegar barsmíðar í heimavistarskólanum Núpi á Dýrafirði árin 1981 – 1983“. Þarna er verið að ræða við þekktan  áhrifamann í íslensku samfélagi. Fyrirsögnin á viðtalinu inni í blaðinu er: „Þessir krakkar áttu ekki sjens.“  Viðtalið við Jón hefst á þessum orðum: „Það var eitthvað með Núp. Núpur var alræmdur. Fólki stóð stuggur af Núpurum. Og það var eitthvað meira en að vera í heimavistarskóla annars staðar, Núpari var eitthvað ferlegt.“ Þetta eru fullyrðingar hafðar eftir Jóni í blaðinu. Enginn er undanskilinn og enginn átti sjens. Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo, að skólinn hafi verið alræmdur þegar Jón kom þangað. Núpsskóli hefur  þá fengið þetta almenna álit á nokkrum undanförnum árum og þá augljóslega í minni skólastjóratíð.

Ég lét af skólastjórn 1. sept. 1981 og Jón kom í skólann í byrjun október sama haust. Skólahald héraðsskólanna hófst í október.  Enginn skóli verður alræmdur á einum mánuði og það mánuði sem hann starfaði ekki. Hver heilvita maður veit að þessi yfirlýsing Jóns Gnarr um skólann og nemendur hans er uppspuni. Ósköp venjulegt níð um nafnkennda skólastofnun sem starfaði við góðan orðstír nánast alla síðustu öld. Konu minni fannst ég eitthvað daufur í dálkinn um daginn og lagði saman tvo og tvo. Hún sagði: „Ekki láta Jón Gnarr eyðileggja fyrir okkur lífið“. Ég ákvað því að gera eins og hann,  þ.e. að skrifa mig frá þessu og birta opinberlega. Þau skrif koma hér með.

Lánaði nemanda bílinn

Héraðsskólarnir voru 8 á þessum árum. Þeir voru reknir af ríkissjóði og rekstur þeirra greiddur með skattfé borgaranna. Allir landsmenn áttu því rétt á skólavist í þeim. Aldrei heyrði ég að munur væri á þeim gerður, enginn bestur og enginn verstur. Allir vel séðir, ekki síst innan þeirra héraða þar sem þeir voru. Á áttunda áratug var á annað hundrað nemenda í Núpsskóla á vetri hverjum, allt að 150 þegar mest var. Undir lok áratugarins, þegar áhrif nýrra grunnskólalaga höfðu að fullu komið fram,  fækkaði í öllum héraðsskólunum vegna þess að 4. bekkur gagnfræðastigs féll niður. Nemendur Núpsskóla komu alls staðar að af  landinu, flestir að sjálfsögðu frá Vestfjörðum en  Suðurnesjamenn voru ávallt fjölmennir svo og fólk af höfuðborgarsvæðinu. 

Aðrir komu frá öllum öðrum landsfjórðungum, meira að segja frá Austurfjörðum. Aldrei spurði ég Austfirðinga hví þeir kæmu um svo langan veg enda kom mér það ekkert við. Mér er minnisstætt er tveir eskfirskir strákar töldu of kostnaðarsamt að fara heim í páskafrí og fengu því að vera um kyrrt á staðnum. Að minnsta kosti annar þeirra var orðinn 17 ára og hafði tekið bílpróf. Einn kennaranna brá sér suður í fríinu og lánaði strákunum fólksvagninn sinn á meðan. Ekki var lítið traustið eða vináttan á þeim bænum.

Engin rannsóknarblaðamennska

Fyrir okkur gamla starfsfólkið á Núpi var skelfilegt að sjá forsíðu Fréttablaðsins þann 17. október síðastliðinn þar sem greinilega átti að ræna okkur ærunni svo og af öllu því samstarfsfólki okkar sem látið er. Aldrei hafði borið á neinu í 35 til 45 ár og aldrei verið skrifað styggðaryrði um skólann, starfsfólkið eða nemendur í öll þessi ár.  Fólk sem komið er undir miðjan aldur og eldra, og man þessi ár enn þá, veit að Núpsskóli var aldrei alræmdur.  Yngra fólk gæti hins vegar haldið að svona stofnun hafi verið til. Ég hef nýlega hitt gamla nemendur mína sem nú eiga uppkomin börn. Börnin vissu að pabbi eða mamma höfðu verið í skóla á Núpi á þessum árum og lesa það í blaðinu að foreldrarnir hafi verið ferlegir og að fólki í landinu hafi staðið stuggur af þeim.

Gamlir nemendur  hafa mikið rætt ummæli Jóns Gnarr á Facebook og víðar, en enginn í Fréttablaðinu en þar hófst málið.  Engin rannsóknarblaðamennska hefur farið fram á vegum blaðsins, aldrei talað við nokkurn annan en Jón Gnarr og það merkilega er að blaðakonan sem tók viðtalið er dóttir nemanda skólans frá fyrri hluta áttunda áratugarins. Pabbi hennar hefur þrátt fyrir það verið talinn hæfur til starfa fyrir utanríkisþjónustu landsins, bæði heima og erlendis.

Forustufólk

Það voru fleiri unglingar en Jón Gnarr sem áttu sér draum um að verða eitthvað. Mestar líkur til að svo yrði var að fara til náms. Á Vestfjörðum var ekki hægt að taka landspróf nema á Ísafirði og á Núpi. Á fyrstu árum nýrra grunnskólalaga bættust við skólarnir í Reykjanesi og í Bolungarvík. Unglingar  úr litlu þorpunum og sveitunum urðu því að fara að heiman til náms og flestir fóru í heimavistarskólana. Skólalok úr þeim opnuðu leiðina til frekara náms. Mjög margir fóru í framhaldsnám í skóla sem höfðu heimavist svo sem ýmsir menntaskólar,samvinnuskólinn, sjómannaskólinn, bændaskólar, hjúkrunarskólinn o.s.frv.

„Í mínum huga tel ég það útilokað að fólki í landinu hafi staðið stuggur af þeim nokkur hundruðum nemenda Núpsskóla frá þessum árum, bara fyrir það eitt að hafa verið þar í skóla á unglingsárum.“

Mjög margir nemendur Núpsskóla frá áttunda áratug og byrjun þess níunda eru landsþekktar persónur í íslensku þjóðlífi í dag m.a. listafólk, drífandi fólk í atvinnulífinu, bændur, sjómenn og útgerðarmenn,  skipstjórar og  fólk í allskonar störfum. Margir opinberir starfsmenn m.a. kennarar og heilbrigðisstarfsfólk, jafnvel forstöðumenn opinberra stofnana og fjórir hafa verið kjörnir til setu á Alþingi. Ein stúlknanna var um tíma ráðherra í  síðustu ríkisstjórn og ekki má gleyma þeim sem valinn var til forystu í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2010. Í mínum huga tel ég það útilokað að fólki í landinu hafi staðið stuggur af þeim nokkur hundruðum nemenda Núpsskóla frá þessum árum, bara fyrir það eitt að hafa verið þar í skóla á unglingsárum.

Sínum augum lítur hver silfrið

Núpsskóli var ekki fangelsi þó að Jón Gnarr hafi látið að því liggja og enginn var úrskurðaður til dvalar þar. Aldrei voru nein samskipti við barnaverndaryfirvöld.  Alltaf voru einhverjir sem ekki féllu í hópinn eða leiddist og vildu fara. Þá fóru þeir. Aldrei var reynt að halda í þá sem ekki vildu vera. Þetta var ósköp venjulegur unglingaskóli þar sem nemendur bjuggu allan veturinn,  helga daga sem virka, lærðu saman, borðuðu saman og léku sér saman.

Grimmilegar barsmíðar hefðu ekki farið fram hjá öllum allan veturinn. Auðvitað gerði starfsfólk skólans sér grein fyrir því að eitt og annað gat gerst og gerðist eflaust sem sem betur hefði verið ógert.  Oft fengum við upplýsingar frá öðrum nemendum um stríðni eða einelti og hrekki og var þá gripið til viðeigandi ráðstafana en starfsfólk skólans gat ekki fylgst með öllum nemendum, alltaf. Meðal starfsfólks var mikil samstaða um að nemendum skólans liði vel. Allir voru boðnir og búnir til að aðstoða þegar með þurfti og stundum gat vinnudagurinn orðið ansi langur. Laun fólksins voru ekki í neinu samræmi við tímann sem oft fór í störfin.

Dreifbýlisbörnin gátu líka fengið leiðaköst.  Þau söknuðu pabba, mömmu og systkina en létu sig hafa það að þrauka út veturinn vegna framtíðardraumsins. Þau vissu að væru þau ekki á Núpi yrðu þau að fara eitthvað annað til náms. Auðvitað harma ég það ef einhverjum hefur liðið illa og hvorki sagt starfsfólki né foreldrum frá því.  Aldrei fékk ég sem skólastjóri  kvörtun frá foreldrum nemenda vegna illrar meðferðar á þeim og ekki heldur ráðuneyti menntamála, sem var hinn raunverulegi rekstraraðili skólans.  Hvorki frá nemendum né foreldrum þeirra. Það sannreyndi ég á sínum tíma. Birgitta Jónsdóttir alþingismaður var samtíma Jóni Gnarr í skólanum og hefur margsagt að það væri eitt besta ár lífs hennar. Það er því augljóst að sínum augum lítur hver silfrið.

Vandræðaunglingar urðu heiðursmenn

Fljótlega eftir að ég tók við skólastjórn á Núpi tók ég þá ákvörðun að taka ekki við neinum upplýsingum um þá sem sóttu eftir skólavist, aðeins prófskírteinum úr fyrri skólum. Það er því alrangt að vandræðaunglingar hafi verið sendir að Núpi eins og mjög algengt er að halda fram.  Enginn var sendur þangað enda hafði engin stofnun í landinu völd til að ráðstafa unglingum til dvalar í héraðsskólum. Foreldrar eða forráðamenn sóttu einfaldlega um skólavist fyrir börn sín og við gerðum að sjálfsögðu ráð fyrir því að börnin væru því samþykk. Það var líka mjög auðvelt að koma sér í burtu ef vilji var til þess.

Einu sinni voru tveir strákar komnir vestur eitt haustið. Þeir voru úr Reykjavík,  ágætir strákar og ekkert upp á þá að klaga, en fljótlega kom  í ljós að þeim leist ekki á blikuna og vildu fara. Foreldrarnir reyndu að tala um fyrir þeim en þeir tóku þá til þess ráðs að mæta ekki í kennslustundir eða lestíma. Þeir voru bara úti að leika sér þegar aðrir voru í tímum en  komu alltaf í mat. Þeir tjáðu mér að þeir væru ekki komnir til að stunda nám heldur til að hafa það huggulegt. Þetta var einfaldlega þeirra leið til að koma sér heim. Svo einfalt var það.  Ég tók ekki við neinum upplýsingum um fyrri feril þeirra unglinga sem komu til okkar að hausti  af því að ég vildi að ég sjálfur, kennararnir og allir aðrir starfsmenn kynntust þeim á þeirra eigin vegum, göllum og kostum og öllu því sem unglingum fylgir. Það gat því ekki hjá því farið að innan um leyndust einhverjir sem eflaust hefðu verið flokkaðir sem vandræðaunglingar. Það varð bara að koma í ljós, við vissum ekkert um það. Mig langar að segja eina skemmtilega sögu í því samhengi.

„Hann sagði mér þá frá því, að þegar hann kom vestur um haustið hafi hann tekið eftir því, í fyrsta skipti eftir að hann varð unglingur, að talað var við hann af starfsfólki skólans eins og hina.“ 

Á hverju hausti voru skipaðir svokallaðir vistarstjórar úr hópi nemenda á hverjum gangi heimavistanna. Hlutverk þeirra var að ganga úr skugga um að allir væru inni á ganginum þegar lokað var á kvöldin og ræsa fólk á morgnana. Þeir sáu líka um að íbúarnir þrifu sínar vistarverur á laugardögum og að gangar væru ryksugaðir. Þetta var ábyrgðarstarf og því liðu stundum 2 til 3 vikur þar til kennarinn sem bar ábyrgð á vistarganginum hafði kynnst þeim sem þar bjuggu svo vel að hann treysti sér til að velja vistarstjóra.  Eitt haustið kom í skólann stór, rauðhærður strákur af Suðvesturlandi. Eftir hæfilegan umþóttunartíma ákvað kennarinn á ganginum að fara þess á leit við þann rauðhærða að hann yrði vistarstjórinn. Hann tók því og sinnti því starfi af mikilli prýði til vors. Um páskana þennan vetur fórum við hjónin suður og þá hitti ég skólastjóra úr heimabæ þess rauðhærða. Hann spurði hvernig gengi með strákinn og ég sagði honum eins og var, að hann væri prýðispiltur og gegndi trúnaðarstörfum í skólanum.

Viðmælandi minn varð alveg orðlaus því að sá rauðhærði hefði verið algjörlega stjórnlaus og óhæfur í skóla, sem sagt vandræðaunglingur. Þegar ég mætti stráksa svo eftir fríið sagði ég honum hvað ég hefði um hann heyrt og hann spurði mig strax hvort ég hefði ekki vitað þetta fyrr. Ég kvað nei við því. Hann sagði mér þá frá því, að þegar hann kom vestur um haustið hafi hann tekið eftir því, í fyrsta skipti eftir að hann varð unglingur, að talað var við hann af starfsfólki skólans eins og hina. Hann ákvað því með sjálfum sér að haga sér vel og fara eftir settum reglum  og árangurinn varð þessi.  Við gerðum sem sagt ekki neitt en það þarf stundum lítið til að gera góðan hest úr göldum fola. Fólkið í hans heimabæ sá á eftir vandræðaunglingi vestur að Núpi og fékk  heiðursmann til baka. Ekki veit ég  hvort fleiri svona dæmi  eru til en það kæmi mér ekki á óvart.

Svona tilvik hafa vafalaust komið þeim orðrómi af stað að unnt væri að gera vandræðaungling skikkanlegan, ef hann færi að Núpi. Þetta var að sjálfsögðu fjöður í okkar hatti. Ég átti stundum trúnað sumra nemenda okkar sem sögðu mér frá heimilisaðstæðum sínum  og það var augljóst að það eina sem þeir þurftu var að komast að heiman.  Alltaf var talsvert um það að þau sem komu af höfuðborgarsvæðinu væru börn einstæðra mæðra sem vinna þurftu langan vinnudag til þess að hafa í sig og á. Þá þótti gott að hafa unglinginn í námi á vísum og öruggum stað.  Þess ber þó að geta að um 10 prósent landsmanna verða alkohólistar og það að vera í skóla á Núpi breytti því ekki. Margir þeirra hafa hins vegar náð sér á strik eins og gengur og gerist. Núpsskóli var  starfræktur í tæp 90 ár þannig að heildarfjöldi nemenda er mikill.

Bestu ár lífsins á Núpi

En aftur að ummælum Jóns Gnarr. Sú skólastofnun sem hann lýsti í upphafi viðtalsins í Fréttablaðinu 17. október síðastliðinn gat ekki verið til, hvorki þá né nú. Ekkert foreldri unglings hefði látið sér detta það í hug að óska eftir skólavist fyrir afkvæmi sitt í alræmdum skóla. Ekkert foreldri hefði viljað fá barn sitt til baka sem eitthvað ferlegt, sem fólki í landinu stæði stuggur af. Því hefði enginn sótt um vist í þessum skóla og nemendalaus skóli er ekki skóli.  

„Jón Gnarr er að reyna að gera að því skóna, að Núpsskóli hafi verið einhvers konar Breiðavík.“

Jón Gnarr er að reyna að gera að því skóna, að Núpsskóli hafi verið einhvers konar Breiðavík. Ég er viss um það að allir drengir sem vistaðir voru í Breiðavík hefðu farið þaðan ef þeir hefðu getað, en þeir voru svo sannarlega sendir þangað af yfirvöldum og áttu ekkert val. Nemendur Núpsskóla gátu farið hvenær sem þeir vildu eins og ég hef áður sagt. Ég veit ekkert um líðan Jóns Gnarr á Núpi en hún hlýtur að hafa verið hörmuleg úr því að hann getur ekki einu sinni horft til skólastaðarins úr fjarlægð vegna minninganna. Samt þraukaði hann þarna allan veturinn og valdi það að koma aftur næsta skólaár. Þetta segir okkur það, að þrátt fyrir viðbjóðinn á Núpi fannst honum þó skárra að vera þar en heima.

Við hjónin berum mikinn hlýhug til Núpsskóla og umhverfis hans, til alls okkar samstarfsfólks, allra nemenda okkar sem eru eitthvað á annað þúsund og síðast en ekki síst til þeirra mörgu góðu vina sem við eignuðust í Dýrafirði. Við getum tekið undir með Birgittu að þessi 13 ár okkar á Núpi eru meðal bestu ára lífs okkar.

 

Bjarni Pálsson

Stundin 17. desember 2015

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30