A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
09.10.2009 - 10:56 | bb.is

Besta lambakjöt sem völ er á!

Bræðurnir Sigurður Arnfjörð og Guðmundur Helgasynir á Hótel Núpi í Dýrafirði.
Bræðurnir Sigurður Arnfjörð og Guðmundur Helgasynir á Hótel Núpi í Dýrafirði.
Guðmundur Helgi og Sigurður Helgasynir, sem starfrækja Hótel Núp í húsnæði gamla héraðsskólans í Dýrafirði, segja lambakjötið að vestan vera það besta sem völ er á hér á landi. „Sérstaða þess felst í því að á Vestfjörðum er lamb villibráð, samanber Villtir Vestfirðir. Nú eru ekki lengur nein sláturhús á Vestfjörðum. Lömbin þarf að flytja á bílum úr Dýrafirði allt norður í Skagafjörð, skelfileg meðferð á blessuðum skepnunum, slátra þeim þar og flytja svo kjötið aftur vestur í Dýrafjörð", segir Guðmundur Helgi í viðtali í nýjasta tölublaði Bændablaðsins. Hann bendir á að munurinn á vestfirsku lömbunum og flestum öðrum er líka sá, að hér vestra fara þau um erfiðari fjöll og heiðar, þar sem víðast annars staðar eru þau að mestu á láglendi eða sléttlendi.

„Maður þekkir það að í ræktinni byggist upp vöðvamassi, ég vil meina að vöðvamassi í hlutfalli við fitu sé miklu meiri í vestfirsku lambakjöti en öðru. Það er ekki aðeins bragðbetra en annað kjöt, heldur er fituhlutfallið í fullkomnu jafnvægi og miklu betra en í öðru lambakjöti á Íslandi, en það er nú bara mín skoðun."

Þeir bræður leggja áherslu á að bjóða upp á mat úr héraði og leggja töluvert á sig til þess að svo megi verða. „Hugmynd okkar gengur út á það að markaðssetja og selja sérstöðu vestfirskrar matvöru", segir Guðmundur Helgi. Í haust tóku þeir sextíu sérvalda dýrfirska lambaskrokka úr Hjarðardal í Dýrafirði, annars vegar til vinnslu í kjötvinnslunni á hótelinu og til matreiðslu þar og hins vegar til sölu í verkefninu Beint frá býli, þar sem þeir eru meðal þátttakenda. „Það er hugmyndin í framhaldinu fyrir Vestfirði, reyndar fengin frá Noregi, að útbúa fjörutíu feta gáma sem löggild sláturhús. Þeir yrðu fluttir milli bæja og svo slátruðu menn bara sjálfir undir sama eftirliti dýralæknis og í öðrum sláturhúsum. Þetta vildum við sjá að hægt væri að gera hérna fyrir vestan. Við erum að flytja úr fjórðungnum mikla vinnu og verðmætasköpun við slátrun en einnig við að saga og vinna kjötið. Þetta mætti auðveldlega gera „beint frá býli", enda eru bændur ekkert óvanir slátrun þar sem þeir slátra einhverju heima fyrir sjálfa sig, en einnig hafa þeir flestir unnið á sláturhúsi", segir Guðmundur Helgi í samtali við Bændablaðið.

Hótel Núpur í Dýrafirði er rekið af fyrirtækinu Sveitasælu ehf., sem er í eigu okkar bræðranna. Hótelið er sumarhótel, opið frá 1. júní til 15 september ár hvert, en einnig er opið um helgar á jólaföstunni og er þá boðið upp á jólahlaðborð og gistingu. Einnig höfum við opnað hótelið fyrir stærri hópa yfir veturinn. Boðið er upp á 38 eins til tveggja manna herbergi og 6 þriggja manna herbergi.

„Tengslin við Hótel Núp sem við bræðurnir eigum og rekum eru augljós, en þar verður aðal aðdráttarafl veitingastaðarins staðbundið hráefni með dýrfirskt lambakjöt og sjávarafurðir í fararbroddi, en Hótel Núpur er stærsta hótel Vestfjarða þegar það starfar. Einnig sjáum við fyrir okkur aðra veitingamenn á Vestfjörðum bjóða upp á vestfirskt lambakjöt. Við erum þess fullvissir að það muni auka ferðamannastraum til Vestfjarða ef ferðamenn geta verið vissir um að þeir geti gengið að staðbundnum mat sem vísum", segir Guðmundur Helgi í Bændablaðinu.
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31