A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
18.01.2017 - 05:44 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Bergur Torfason, fyrrv. bóndi og skrifstofumaður – 80 ára - Félagsstörf og ferðalög eru hans ær og kýr

« 1 af 4 »
Bergur Torfason fæddist á Felli í Dýrafirði 18.1. 1937 og ólst þar upp í foreldrahúsum við öll almenn sveitastörf þess tíma.

Bergur stundaði nám við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði 1953-54, lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum 1956, varð búfræðikandídat frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1959 og fór námsferð til Norðurlandanna 1958.

Bergur hóf búskap á Felli 1959 og stundaði þar búskap til 1986 er Anton Torfi, sonur hans, tók við búinu. Hann var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrhreppinga 1986-95 er sjóðurinn var sameinaður Sparisjóði Þingeyrarhrepps. Auk þess stundaði Bergur túnmælingar og kortateikningar fyrir Búnaðarsamband Austurlands og fyrir Búnaðarsamband Vestfjarða 1962 og 1963, og var kennari við Héraðsskólann á Núpi 1961-62 og 1966-75.

Bergur flutti til Þingeyrar 1995 og hefur búið þar síðan. Hann starfaði við Kaupfélag Dýrfirðinga síðasta rekstrarár þess og var síðan fulltrúi á Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar á árunum 1998 til starfsloka, 2007, er hann var 70 ára.

En þar með lagði Bergur ekki árar í bát heldur hefur hann sinnt reikningagerð og skattframtölum í hjáverkum, ásamt því að vinna að félagsstörfum. s.s. í Rauða-krossinum og að störfum í sóknarnefnd og öðrum félags- og trúnaðarstörfum á vegum kirkjunnar.

Bergur sat í 20 ár í Héraðsnefnd Ísafjarðarprófastsdæmis, síðar Vestfjarðaprófastsdæmis, var fulltrúi á Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar og situr nú í Sóknarnefnd Þingeyrarsóknar frá 1999. Þá sat hann í Hátíðarnefnd Vestfirðinga 1974, sem stóð fyrir samkomu í Vatnsfirði á Barðaströnd.

Bergur var formaður Fóðurbirgðafélags Mýrahrepps, var formaður Nautgriparæktarfélags Mýrahrepps, Nautgriparæktarfélags Dýrfirðinga 1967-86 og Önfirðinga 1971-90, sat í stjórn Búnaðarfélags Mýrahrepps, Sauðfjárræktarfélagsins Smára, í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga 1980-95, Ungmennafélags Íslands 1975-87, sat í stjórn Ungmennafélags Mýrahrepps, var formaður Fjárskiptanefndar Vestfjarðahólfs vegna riðu í sauðfé, sat í stjórn Héraðssambands Vestur-Ísfirðinga 1960-88, í hreppsnefnd Mýrahrepps 1974-96 er hann var sameinaður sex sveitarfélögum, var síðan varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sat í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga, í stjórn sláturfélagsins Barða hf. frá stofnun 1988-95, auk ýmissa annarra trúnaðarstarfa.

Þegar kemur að áhugamálum stendur ekki á svari hjá Bergi: „Ég hef alltaf verið gefinn fyrir félagsstörf og hef helst áhuga á að ferðast um landið okkar.“

 

Fjölskylda

Eiginkona Bergs er Emilía Sigurðardóttir, f. að Vatnsenda í Ólafsfirði 12. september 1939, húsfreyja og starfaði m.a. við Dvalarheimilið Tjörn á Þingeyri. Foreldrar hennar voru Sigurður Hallsson, f. 5.11. 1891, d. 28.6. 1966, málarameistari í Ólafsfirði, og Oddný Stefánsdóttir, f. 3.9. 1908, d. 27.1. 1973, húsfreyja.

Börn Bergs og Emilíu eru:

1) Helga Sigurrós, f. 21.1. 1958, launafulltrúi sveitarfélagsins Skagafjarðar, búsett á Sauðárkróki, gift Jóel Kristjánssyni, fyrrv. útibússtjóra Arionbanka og eiga þau þrjú börn;
2) Oddný Elínborg, f. 21.3. 1960, húsfreyja í Súðavík, gift Barða Ingibjartssyni skipstjóra og eiga þau þrjú börn;
3) Anton Torfi, f. 23.10. 1961, starfsmaður Búnaðarsamtaka Vesturlands á Hvanneyri, búsettur í Borgarnesi og á hann þrjú börn með fyrrv. konu sinni, Kristrúnu Pétursdóttur, en þau skildu og er sambýliskona hans Ingveldur H. Ingibergsdóttir bókari,
og 4) Sigurður Jónas, f. 4.3. 1963, tæknifræðingur í Reykjavík, en kona hans er Jónína Kristgeirsdóttir snyrtifræðingur og eiga þau þrjú börn.
Langafabörn Bergs eru nú fimm talsins

Systkini Bergs:
Hákon Guðmundur Torfason, f. 1.3. 1929, verkfræðingur og fyrrv. deildarstjóri byggingardeildar menntamálaráðuneytisins; Anna Guðrún Torfadóttir, f. 22.11. 1930, d. 27.4. 1942; Jón Sigmundur Torfason, f. 23.7. 1932, vélvirkjameistari og fyrrv. framkvæmdastjóri í Reykjavík; Dagbjört Kristín Torfadóttir, f. 28.8. 1938, húsfreyja í Hafnarfirði; Össur Torfason, f. 17.12. 1939, búsettur á Egilsstöðum; Anna Guðrún Torfadóttir, f. 24.3. 1942, húsfreyja í Garðabæ.

Foreldrar Bergs voru Torfi Össurarson, f. 28.2. 1904, d. 11.9. 1993, bóndi og búfræðingur að Felli í Dýrafirði, og k.h., Helga Sigurrós Jónsdóttir, f. 10.1. 1897, d. 16.2. 1994, húsfreyja.

Bergur verður að heiman á afmælisdaginn.


« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31