Annette hlaut Verðlaun Jóns Sigurðssonar
Annette Lassen, rannsóknardósent í norrænum bókmenntum við Árnasafn og Kaupmannahafnarháskóla, hlaut Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2017. Verðlaunin voru veitt á hátíð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í gær, sumardaginn fyrsta.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti verðlaunin.
Annette hefur með kynningu á fornbókmenntunum haldið ríkulega á loft framlagi Íslands til heimsbókmenntanna. Hún hefur skipulagt fjölda ráðstefna, haldið fyrirlestra, skrifað fjölda greina og kynnt fornbókmenntir Íslendinga í fjölmiðlum. Þá ritstýrði hún, og þýddi að hluta, hinni dönsku útgáfu Íslendingasagnanna og þátta, sem var þjóðargjöf Íslendinga til Dana í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Danmerkur í ár. Þetta kemur fram í tilkynningu.
________________________________
Um Verðlaun Jóns Sigurðssonar
Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þau verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.
Dagskrá hátíðarinnar í gær
- Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, setur hátíðina.
- Kórinn Staka flytur íslenska tónlist.
- Gerður Kristný rithöfunur flytur hátíðarræðu.
- Kórinn Staka flytur íslenska tónlist.
- Forseti Alþingis afhendir verðlaun Jóns Sigurðssonar.
- Kórinn Staka flytur lag í tilefni sumardagsins fyrsta.
Léttar veitingar að lokinni dagskrá.
Karl M. Kristjánsson, formaður stjórnar Húss Jóns Sigurðssonar, stjórnar dagskrá