A A A
12.04.2017 - 08:01 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps 2016: - Mikið var hlegið á fundinum!

Og enn er það fræga félag Búnaðarfélag Auðkúluhrepps á dagskrá!

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps var haldinn í Mjólkárvirkjun 7. apríl 2016. Fundarstörf gengu vel fyrir sig og voru menn bara kátir að vanda. Formaður félagsins, Hreinn Þórðarson, stjórnaði fundinum á sinn ljúfa hátt. Ályktanir nokkrar voru samþykktar til að leggja fyrir landsmenn. Undir liðnum önnur mál kom í ljós að mönnum liggur ýmislegt á hjarta í Auðkúluhreppi hinum forna. Ekki var það nú allt fært til bókar en þó sumt og skal nú stiklað á stóru í þeim efnum.

Ólafur Ragnar verður að halda áfram ef allt um þrýtur

   Rætt var um forsetakosningarnar. Steinar og Hallgrímur liggja nú undir feldi og er óvíst hvenær þeirri legu lýkur. Fram kom að fá þyrfti einhvern almennilegan mann í þetta djobb. Annars yrði bara að skora á Ólaf Ragnar að gefa kost á sér áfram.

   Árni á Laugabóli mætti nú á fundinn á stóru grænu dráttarvélinni sinni.

   Talað var um að þar sem nógir peningar væru nú í sjóðum félagsins, þyrfti jafnvel að stofna reikning á Tortólu. Hildigunnur gjaldkeri setti sig á móti því og þar með var málið dautt.

Búnaðarfélag Auðkúluhrepps verður aldrei lagt niður!

   Árni á Laugabóli sagði að það sem væri að væru kjósendurnir en ekki stjórnmálamennirnir. Steinar var á öndverðum meiði. Hlógu fundarmenn nú skart.

   Þá sagði Árni að kominn væri afleggjari frá Alfreð Þorsteinssyni í ríkisstjórnina og fagnaði hann því.

   Næst kom það fram að Búnaðarfélag Auðkúluhrepps yrði aldrei lagt niður þó það rigndi eldi og brennisteini. Samþykkt samhljóða.

Ekki sést ein einasta mús í allan vetur

   Árni á Laugabóli sagði að enginn örn hefði sést á Laugabóli í vetur, en Steinar í Mjólká sagði að hann hefði séð Össu tvisvar. Aftur á móti sagðist hann ekki hafa séð eina einustu mús í allan vetur og þótti rart. Sama kom fram hjá öðrum sem tjáðu sig um málið: Engar mýs á ferli það sem af er vetri svo vitað sé! Steinar spurði hvort eitthvað væri að breytast í lífríkinu. Enginn treysti sér til að svara því. Verður því að kalla til sérfróða menn. Minkur og tófa hafa ekki verið mikið á ferðinni.

Þeir ætla að kjósa Pírata þó þeir mæti ekki á kjörstað!

   Árni á Laugabóli lýsti því yfir að hann ætlaði að kjósa Pírata ef hann færi á kjörstað, sem hann ætlaði þó ekki að gera. Grímur á Eyrinni var sammála Árna. Ráku menn nú upp rokur miklar.

   Þá lýsti Árni því að stundum hefði ekki verið farandi út úr húsi á Laugabóli í vetur vegna stórviðra. Hefur það aldrei komið fyrir hjá honum áður á Laugabóli að ekki væri hundi út sigandi. Var hann orðinn hundleiður á þessu. Sagðist hann hafa sagt við Lilju sína að þau skyldu ekkert vera að pirra sig á slíku veðurfari.  
  

   Það skal tekið fram, að borið var ofan í veginn frá Hrafnseyrardal og inn að Mjólka og hann heflaður alveg nýlega. Flýgur fyrir að það hafi verið gert í tilefni af margumræddum fundi. Segi menn svo að það sé ekkert gagn að þessum búnaðarfélögum!


« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30