A A A
  • 1954 - Gunnhildur Björk Elíasdóttir
  • 2009 - Katrín Júlía Helgadóttir
28.07.2015 - 05:47 | Morgunblaðið,BIB

Á bandarísku lofti frá 1946

Davíð Pétursson á Grund afhendir Bjarna Guðmundssyni t.v. safnverði á Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri, Farmalinn gamla og góða til varðveislu. Traktorinn er almenningi til sýnis á safninu.
Davíð Pétursson á Grund afhendir Bjarna Guðmundssyni t.v. safnverði á Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri, Farmalinn gamla og góða til varðveislu. Traktorinn er almenningi til sýnis á safninu.

• Farmallinn á Grund kominn á safn á Hvanneyri

Fyrir skömmu var Farmal A traktor, Md-111, komið fyrir á Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri. Guðrún Davíðsdóttir á Grund í Skorradal fékk bandaríska traktorinn afhentan vorið 1947, en Davíð Pétursson, sonur hennar, ákvað í samráði við Pétur Bjarnason, bróðurson sinn, að hann væri best geymdur á safninu og kom honum þangað. Hann er samt áfram í eigu Grundarfólksins.

Davíð skrifaði grein um traktorinn og birtist hún í Skessuhorni í liðinni viku. Hann segir við Morgunblaðið að Dýrfirðingnum, Bjarna Guðmundssyni safnverði, hafi þótt mest um vert að traktorinn er ekki uppgerður heldur eins og hann var, þegar hann var tekinn úr kassanum. „Ég lagaði reyndar lakkið á honum 1964 en síðan hefur ekkert verið við hann gert,“ segir Davíð.

Heyskapur breyttist til muna með tilkomu traktora. Farmallinn á Grund var reyndar fyrst notaður í steypuvinnu. „Hann kom passlega til þess að hræra steypuna í fjósið sem var í byggingu 1947,“ rifjar Davíð upp. Hann segir að áður hafi verið hestasláttuvél og tvær hestarakstrarvélar á Grund. Heyið hafi verið flutt á klökkum af mýrunum upp í fjárhús. „Maður teymdi hestana, sem voru með tvær sátur hver hestur, og það var mikil breyting að geta flutt heyið á vagni.“

 

Safna númerum

Bjarni, bróðir Davíðs, sló með traktornum fyrstu sumrin, en Davíð byrjaði að æfa sig 1950, þegar hann var 11 ára. „Okkur þótti þetta fallegt tæki, pússuðum það og höfðum það alltaf flott,“ segir Davíð. „Ég bónaði traktorana á hverju sumri, þar til ég var orðinn gamall fyrir nokkrum árum,“ bætir hann við.

Farmallinn fékk númerið Md-111 og þar með hófst árátta á bænum fyrir númerum. Davíð bendir á að fjölskyldan sé með númerin M 111, M 444, M 1010, M 999, M 666, M 1111, M 222, M 333 og M 555 á bílum sínum. Dráttarvélarnar séu með númerin Md-666, Md-333, Md-444 og Md-888. Þrí- og fjórhjólin séu með Mb-99, Mb-88 og Mb-66. Snjósleðinn með Mb-55. „Ég hef þurft að hafa svolítið fyrir því að fá númerin en þeir sem áttu þau voru almennilegir og vildu skipta,“ segir Davíð.

Afturdekkin á Farmalnum eru upprunaleg, þau hafa aldrei sprungið og aldrei hefur þurft að bæta lofti í þau. „Þetta hafa verið helvíti góð dekk með bandarísku lofti frá 1946 – það má rannsaka hvernig mengunin var þá,“ segir Davíð.

 

Morgunblaðið

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30